13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (2458)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það kannske skiptir ekki meginmáli, en ég vildi láta það koma hér fram, vegna þess að hér hefur nokkuð verið vikið að því í umræðunum, hvenær hugmyndir í sambandi við þetta jafnrétti hafi verið settar fram hér fyrst í sambandi við tillögur til löggjafar, að í frv. til l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem samið var árið 1951 af Gunnari Thoroddsen, er svo tekið til orða í grg. þar, að konur og karlar skuli hafa rétt til sömu launa fyrir sams konar störf. Jafnframt er tekið fram: Meginsjónarmið við ákvörðun launa á að vera hæfileikar og þekking, en ekki kyn. — Ég vil aðeins skýra frá því, að þetta sjónarmið, sem þarna kemur fram í sambandi við löggjöf, sem síðar var samþ. af Alþ., er fram sett 1951, en mér skilst, að frv. hæstv. félmrh. hafi verið fyrst flutt 1953.