08.05.1957
Sameinað þing: 55. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (2466)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Það hefur af frsm. n. verið gerð allýtarleg grein fyrir þeim höfuðsjónarmiðum, sem fram hafa komið í sambandi við það mál, sem hér er til umræðu, jafnlaunasamþykktina, og virðist mér nú þrátt fyrir ummæli síðasta ræðumanns hér, hv. 8. þm. Reykv., að nokkurs mismunar gæti í skoðunum hv. sjálfstæðismanna, og ég vænti þess þó, að hv. 8. þm. Reykv. muni reynast hafa þar meiri hluta flokksins að baki um skjóta framkvæmd þessarar tillögu, í stað þess álits, sem hv. 2. þm. Reykv. flutti hér áðan um, að hann aðhylltist helzt þá skoðun, að fresta bæri afgreiðslu málsins, vegna þess að það. væri til athugunar hjá samnorrænni nefnd, eins og hann minntist á.

Ég skal ekki hrekja frekar en framsögumaður gerði þau rök, sem Vinnuveitendasambandið hefur lagt fram í sinni umsögn um málið. Þess gerist ekki þörf. En hitt má öllum vera ljóst eftir lestur þessa bréfs, að þar er ekki frekar en í þeim ræðum, sem fluttar hafa verið um þetta mál til þessa, á nokkurn hátt hrakið það höfuðatriði, hvort Alþingi Íslendinga vilji samþykkja það, að konur fái sömu laun og karlar fyrir jafnverðmæta vinnu, enda vart finnanleg rök gegn því. Ég undirstrika aðeins það, sem framsögumaður sagði í sinni ræðu hér áðan, að ég vænti þess, að Alþingi Íslendinga láti það ekki verða sér fjötur um fót, þó að aðrar þjóðir hafi ekki þegar samþykkt tillögu í þessa átt. Það ætti að vera sómi Alþingis að ríða hér á vaðið, þó að aðrar Norðurlandaþjóðir hafi ekki enn þá séð sér fært að verða við þessari samþykkt eða framkvæma hana hjá sér að svo komnu máll.

Ég undirstrika að nýju þá ósk mína, að hv. 8. þm. Reykv. hafi meiri hluta Sjálfstæðisflokksins að baki sér, svo að meiri hlutinn megi verða sem allra glæsilegastur með tillögunni.