14.11.1956
Sameinað þing: 9. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (2482)

25. mál, jarðgangagerðir og yfirbyggingar á fjallvegum

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er alkunna, að mjög er erfitt að leggja vegi, svo að öruggt sé, um háfjöll, heiðar og sæbrattar fjallshlíðar á landi hér. Af því sprettur, að mörg byggðarlög verða að búa við það, að vegir þeirra eru lokaðir mikinn hluta árs, lokast jafnvel, er fyrstu snjóar falla. Vegirnir liggja svo hátt, að á þá fellur það mikill snjór eða það stöðugar skriður í fjallshlíðum, að ekki þykir svara kostnaði að halda þeim opnum, jafnvel eftir að kostur er á þeim stórvirku tækjum, sem vegagerð ríkisins og einstök byggðarlög eiga nú til vegagerðar og vegaviðhalds.

Aðrar þjóðir, sem búa í fjöllóttum og hálendum löndum, hafa margar leyst þau vandamál, sem spretta af legu vega um háfjöll og sæbrattar hlíðar, með því að gera jarðgöng i gegnum fjallshryggi og fjallseggjar og yfirbyggja vegi, bæði á heiðum uppi og um bratt landslag. Þessu hefur sérstaklega verið gert mikið að í Noregi, þar sem gerð hafa verið hundruð kílómetra löng jarðgöng og fjöldi fjallvega yfirbyggður. Í Sviss hefur sömu úrræða verið freistað, til þess að gera vegina færa og örugga meginhluta árs eða allt árið. Og segja má, að í flestum hálendum löndum hafi verið farið inn á þessa leið að gera jarðgöng og yfirbyggja vegi. Hér á Íslandi hefur hins vegar naumast verið á þessu byrjað enn þá. Sprettur það auðvitað fyrst og fremst af því, að þjóðin hefur ekki haft fjárhagslegt bolmagn til þess enn sem komið er að ráðast í slíka mannvirkjagerð. Þess vegna verður, eins og ég sagði í upphafi máls míns, fjöldi byggðarlaga að búa við þau óþægindi, að samgöngur á landi til þeirra lokast jafnvel í fyrstu snjóum. Það fer að sjálfsögðu mjög mikið eftir því, hvernig veðurfari er háttað hverju sinni, hversu lengi vegirnir eru opnir. Ég hygg, að menn geti almennt verið sammála um það, að nauðsynlegt sé að bæta úr þessu, og að við Íslendingar þurfum að freista þess að fara svipaðar leiðir og aðrar þjóðir hafa farið.

Hér á landi hefur verið gerð ein tilraun með byggingu jarðganga á þjóðvegi, þ.e. á Súðavíkurvegi í gegnum svo kallaðan Arnarneshamar við Ísafjarðardjúp. Þar voru árið 1947 byggð 34 m löng jarðgöng. Þessi jarðgöng, sem voru í gegnum óvenjulega hart berglag, kostuðu á sínum tíma 80 þús. kr., þ.e.a.s. lengdarmetrinn í þessum göngum hefur kostað milli tvö og þrjú þús. krónur.

Ég vil aðeins upplýsa það hér, að þrátt fyrir algert reynsluleysi við slíka mannvirkjagerð tókst íslenzkum vegagerðarmönnum mjög vel að ljúka þessu verki undir yfirstjórn íslenzkra verkfræðinga, sem þó höfðu leitað sér upplýsinga um það, hvernig unnið væri að slíkri mannvirkjagerð erlendis. Enn fremur hafa íslenzkir verkfræðingar öðlazt dýrmæta reynslu við sprengingar hinna miklu jarðganga, sem gerð voru, þegar síðasta virkjun Sogsins var framkvæmd. Þar voru, samkv. upplýsingum Steingríms Jónssonar rafmagnsstjóra, sprengd 650 metra löng jarðgöng. Þessi göng voru 64 fermetra við, þ.e.a.s. 8 sinnum 8 metrar. Eftir að þau höfðu verið fóðruð innan með steinsteypu, eru þau um 50 m við. Þessi framkvæmd mun hafa kostað um 15 millj. kr. Þar af mun sjálf sprengingin á 41500 rúmmetrum af grjóti hafa kostað um 5 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum rafmagnsstjóra mun kostnaður við sprenginguna sjálfa í jarðgöngum vera um 1/3 af heildarkostnaði við jarðgangagerðina.

Þegar búið er að sprengja göngin, grafa út grjót, er eftir að fóðra göngin að innan og ganga frá þeim að öðru leyti, þannig að öruggt þyki fyrir umferð og aðra notkun.

Af þessari reynslu, sem fengin er við Sog og hinum miklu sprengingum þar, hlýtur að mega hafa allmikið gagn, þegar hafinn er undirbúningur á gerð jarðganga í þágu samgangna í stærri stíl en áður hefur tíðkazt hér á landi.

Steingrímur rafmagnsstjóri Jónsson hefur tjáð mér, að miðað við það, sem jarðgöngin við Sog kostuðu, muni 36 teningsmetra göng fyrir veg kosta um 2000 kr. á lengdarmetra, en það er, eins og ég sagði, miðað við kostnaðinn við sprengingarnar og jarðgangagerðina við Sog. Síðan hefur verðlag og kaupgjald hækkað geysimikið í landinu, og má því gera ráð fyrir, að slík mannvirkjagerð mundi kosta mjög miklu meira nú. En miðað við þetta, sem kostnaðurinn var við Sog, ættu eins km jarðgöng að kosta um 2 millj. kr.

Mér er kunnugt um það, að vegamálastjórnin, sem nú er að undirbúa vegagerð fyrir „Stráka“ til Siglufjarðar, gerir ráð fyrir, að þar þurfi að sprengja um 900 m löng jarðgöng. Það mun ekki vera endanlega ákveðið, að að því ráði verði horfið, en það eru allmiklar líkur taldar vera til þess, að það sé heppilegasta og skynsamlegasta leiðin. Í þessum jarðgöngum mun vegamálastjórnin gera ráð fyrir, að lengdarmetrinn kosti um 6000 kr. Af því sést, hversu gífurleg hækkun hefur orðið á tilkostnaði við slíka mannvirkjagerð, bæði síðan gerð voru fyrstu jarðgöng hér á landi í gegnum Arnarneshamar við Ísafjarðardjúp og síðan unnið var að jarðgöngunum við virkjun Sogsins. Þessi göng, sem gert er ráð fyrir að grafin verði í gegnum „Stráka“, er gert ráð fyrir að verði 6 m breið og 5–6 m á hæð.

Ég hef talið rétt, þegar ég mæli fyrir þessari till., sem ég flyt hér ásamt hv. þm. Ísaf. (KJJ), að gefa þessar upplýsingar um þær framkvæmdir, sem þegar hafa verið unnar á þessu sviði hér á landi. Till. okkar hv. þm. Ísaf. gengur út á það, að Alþ. skori á ríkisstj. að láta fram fara, í samráði við vegamálastjóra, rannsókn á möguleikum jarðgangagerðar og yfirbyggingar á fjallvegum, sem liggja svo hátt eða eru svo ótryggir, að þeir eru aðeins opnir til umferðar nokkurn hluta árs. Skal jafnframt leitað álits erlendra sérfræðinga á sviði vegagerðar, ef þess gerist þörf.

Það er tekið fram í grg. þessarar till., að við flm. höfum í huga tvo vegi á Vestfjörðum, sem skynsamlegt væri að freista slíkrar mannvirkjagerðar á, þ.e.a.s. veginn yfir Breiðadalsheiði til Önundarfjarðar og vestur í Vestur-Ísafjarðarsýslu og veginn frá Ísafirði til Bolungavíkur. Sá vegur liggur nú um sæbratta hlíð, Óshlíð, og lokast, eins og Breiðadalsheiðarvegurinn, töluverðan hluta árs, þó að Breiðadalsheiðarvegurinn sé miklu lengur lokaður yfirleitt, því að yfirleitt má segja, að hann lokist í fyrstu snjóum.

Okkur finnst það mjög athugunarvert og styðjumst þar við álit margra manna, sem vel þekkja til vegagerðar vestur þar, að reynt sé að gera þessa vegi öruggari og betur fallna til þess að þjóna hagsmunum fólksins á þessum slóðum, með því að gera þarna jarðgöng í gegnum fjallseggjar milli annars vegar Skutulsfjarðar og Önundarfjarðar og hins vegar milli Hnífsdals og Syðri-Dals í Bolungavík. Á báðum þessum stöðum er talið, að ekki mundi þurfa mjög löng jarðgöng til þess að hægt væri að gera vegina milli þessara byggðarlaga örugga umferðarvegi meginhluta ársins eða jafnvel allt árið um kring.

Enn fremur teljum við flm. mjög æskilegt, að reynt verði að fá upplýsingar um það, hvað kosta muni að yfirbyggja vegi. Á fjölmörgum stöðum á landi hér liggja vegir um sæbrattar hlíðar, sem liggja undir skriðuföllum, ekki einungis á vetrum, heldur og í rigningum á sumrum. Það væri ákaflega mikils virði, ef hægt væri að yfirbyggja einstaka vegarkafla, þar sem skriðuföll eru mest, og skapa þar meira öryggi en er þar nú, meðan vegirnir liggja opnir og óvarðir utan í snarbröttum hlíðunum.

Það er skoðun okkar flm., að hér sé um merkilegt mál að ræða; merkilega nýjung, sem við Íslendingar höfum ekki til lengdar efni á að vanrækja að framkvæma í okkar landi. Við höfum séð það, að með því að taka tæknina í okkar þjónustu, tækni, sem aðrar þjóðir hafa notið miklu lengur en við í vegagerðum, hefur vegagerðum fleygt fram í okkar landi. Hvers vegna skyldum við þá ekki geta skapað aukið öryggi á vegum okkar með þeim aðferðum, sem hér um ræðir, gerð jarðganga og yfirbyggingu vega, eins og aðrar þjóðir hafa fyrir löngu hafizt handa um? Það er að vísu dýr og mikill stofnkostnaður slíkra framkvæmda, en hvað kostar ekki líka viðhaldið á þessum vegum, sem þannig liggja, að þeir eru undir stöðugum skriðuföllum? Og hvað kostar það ekki líka, að fólkið getur ekki haft gagn af þessum dýru vegum, nema kannske örlítinn hluta árs í heilum landsfjórðungum? Allt þetta verður að taka með í reikninginn, þegar hafizt er handa um rannsókn í þessum efnum.

Ég ber fyllsta traust til vegamálastjóra um það, að hann muni láta hv. Alþ. og þeirri hv. þn., sem um þetta mál fjallar, í té greinagóðar og glöggar upplýsingar, og ég dreg ekki í efa, að hv. Alþ. muni vilja hafa eyrun opin fyrir jafnmiklu nauðsynjamáli, jafnmerkri nýjung til umbóta í þýðingarmiklum málum og hér er á ferðinni.

Ég vil svo leyfa mér að vænta þess, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.