14.11.1956
Sameinað þing: 9. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (2497)

27. mál, dráttarbraut á Seyðisfirði

Flm. (Björgvin Jónsson):

Herra forseti. Eins og grg. þáltill. þessarar ber með sér, er hér um að ræða sameiginlegt áhugamál Austfirðinga. Hún er einn hlekkur i keðju framfaramála, sem við höfum sameinazt um að gera að veruleika. Fiskveiðar og fiskiðnaður hafa frá öndverðu verið höfuðatvinnuvegir íbúa bæja og kauptúna austanlands. Áður fyrr voru úti fyrir Austfjörðum auðug fiskimið, sem auðvelt var fyrir smærri skip að sækja á afla. Fiskimið þessi voru slagæð arðbærs atvinnulífs, sem oft og tíðum kallaði á vinnuafl úr fjarlægum landshlutum. Gróskan í atvinnulífinu var undirstaða tiltölulega öflugs skipasmíða- og skipavíðgerðaiðnaðar, þannig að lengst af hafa Austfirðingar getað annazt að fullu viðhald fiskiflota síns.

Eftir að togveiða fór að gæta að marki, urðu búsifjar fiskimanna og verkafólks á Austurlandi meiri en flestra annarra af þeirra völdum. Fjarlægðir frá nágrannalöndum okkar eru minni á Austfjarðamið en til annarra miða. Hin auðugu fiskimið og sú landfræðilega staðreynd, að þriggja og fjögurra mílna landhelgi friðar minna svæði austanlands en víða annars staðar, urðu þess valdandi, að fiskimiðin voru uppurin á tiltölulega mjög skömmum tíma, og ávallt þegar fiskigengdar er að vænta á grunnmið, mynda erlend botnvörpuskip óslitinn vegg með landhelgislínunni og hirða þannig meginhluta þess fisks, sem ætlar að ganga á miðin.

Atvinnuástand fór því hnignandi á þessum slóðum allt fram að síðustu heimsstyrjöld. Þá hafði fiskurinn um stund frið til að ganga á sín gömlu mið, og hagur vélbátaflotans batnaði stórum. Síðan styrjöldinni lauk, hefur keyrt um þvert bak í þessum efnum. Aldrei hefur ágengni togskipa verið meiri, enda má nú heita mjög fiskilítið á bátamiðum eystra. Hin nýja landhelgislína, sem víða hefur borgið útgerð vélbáta, hefur haft sáralitla þýðingu fyrir Austfirðinga.

Veiði á fiskislóðum Hornafjarðarbáta hefur að vísu aukizt, en annars staðar að mjög litlum mun, og sums staðar hefur ágengni togara aukizt svo, að aldrei hefur ástandið verið verra. Austfirðingar hafa mætt þessum viðhorfum með því eina ráði, sem tiltækt var, en það er að koma sér sjálfir upp flota veiðiskipa, sem ekki eru háð heimamiðum, koma sér upp flota togara, sem sótt geta afla á fjarlæg mið og lagt hann upp til vinnslu í austfirzkum bæjum. Þessi útgerð hefur orðið mikil bót, en hitt er þó staðreynd, að hinir miklu rekstrarörðugleikar, sem togaraútgerðin hefur átt við að stríða undanfarin ár, hafa bitnað ákaflega þungt á hinum fábreytilegu atvinnuvegum okkar. Bæjarfélögin verða í flestum tilfellum að veita skipunum mun meiri beinan rekstrarstyrk en nemur útsvörum allra áhafna skipanna til þess að geta tryggt afla þeirra til vinnslu í fiskvinnslustöðvum austanlands.

Austfirðingar taka hlutfallslega allra landsmanna mestan þátt í framleiðsluatvinnuvegunum. Mikill meiri hluti íbúanna er beinir þátttakendur framleiðslunnar. Þessir einhæfu og áhættusömu atvinnuvegir eru ekki einir næg atvinnutrygging. Nútíma þjóðfélag byggist á mikilli verkaskiptingu. Við höfum ekki efni á því að afsala okkur til annarra okkar réttmæta hlut í iðnaðinum. Hinir einhæfu atvinnuvegir ásamt erfiðu árferði til lands og sjávar hafa hjálpazt að um, að unga fólkið hefur horfið úr heimahögum sínum og leitað atvinnu þar, sem atvinnuskilyrði eru fjölþættari og öruggari.

Allir hugsandi menn sjá, að við svo búið má ekki standa. Ríkisvaldið hefur að vísu gert mikið til aðstoðar í þessum efnum. Myndarlega var hlaupið undir baggann þegar óþurrkar og pestir herjuðu og höfðu nær sligað landbúnaðinn austanlands. Ríkisvaldið hefur einnig sýnt lofsverðan skilning við eflingu togaraflotans og byggingu fiskiðjuvera og einnig um fjölgun vélbáta.

Hitt er jafnljóst, að ef raunverulega á að byggja upp öflugt og farsælt atvinnulíf á þessum stöðum, þá verður það að haldast í hendur, að iðnaðar- og þjónustuatvinnuvegir séu efldir í hlutfalli við framleiðsluatvinnuvegina. Fjölþætt verkaskipting er undirstaðan.

Eins og ég sagði áðan, hafa Austfirðingar tekið höndum saman innan vébanda fjórðungsþings síns um, að svo muni verða. Okkur er ljóst, að framangreindar ástæður valda því, að okkur er ef til vill enn nauðsynlegra en öðrum að njóta um stund öruggs stuðnings ríkisvaldsins, til þess að þeir draumar okkar megi rætast. Samvirkjun fyrir Austurland var fyrsta skrefið, sem hæstv. Alþingi tók til móts við þessar óskir okkar. Framkvæmd sú er undirstaða alls þess, sem á eftir fer. Þáltill. þessi er upphaf annars þáttar.

Ég er þess fullviss, að með því, að ríkisvaldið aðstoði okkur um stund við að efla og gera atvinnuvegi okkar fjölbreyttari, er verið að leggja hornstein að framtíðaröryggi þjóðarinnar. Það er engin tilviljun, að víð skulum fyrst bera niður í iðnaði skipasmíða. Það færi óneitanlega vel á því, að fyrsta stóra skipasmíðastöðin utan Reykjavíkur yrði byggð í þeim fjórðungnum, sem tiltölulega leggur fram flesta menn til fiskveiða.

Ýmsir munu að vísu halda því fram, að fyrirtæki sem þetta geti aldrei borgað sig fjárhagslega. Því er til að svara, að flm. er ekki kunnugt um, að sérfróðir menn hér á landi hafi samhljóða talið rekstrargrundvöll vera fyrir hendi fyrir neitt stórfyrirtæki. Ýmsar orsakir, eins og t.d. rangt skráð peningagengi og aðrar slíkar firrur, geta um stund orðið þess valdandi, að Íslendingum þyki hagkvæmara að láta aðrar þjóðir annast nýsmíði og viðhald fiskiflota síns. Ég er hins þó fullviss, að fyrr eða síðar munum við uppgötva, að svo bezt búum við til frambúðar menningarlífi í landinu, að skipasmíðar og viðgerðir færist að fullu inn til okkar sjálfra. Austfirzk togveiðiskip verða nú þegar fyrir tilfinnanlegu tjóni við að þurfa að leita til Reykjavíkur eða útlanda með allt sitt viðhald. Fyrirsjáanleg stóraukning togaraflotans og þeirra vélbáta, sem ekki er unnt að veita þá viðgerðarþjónustu, mun á næstu árum margfalda þetta tjón, ef ekki verður að gert.

Togarar Austfirðinga verða í flestum tilfellum að eyða tíma umfram aðra botnvörpunga, sem nemur 3–4 túrum á ári, til þess að sigla að og frá heimahöfn. Þegar svo bætist við, að smávægilega víðgerð er ekki unnt að inna af hendi nema í Reykjavík, kemur greinilega í ljós, að það er ekki annað en sanngjörn krafa, að okkur verði gert kleift að annast viðhald skipa okkar sjálfir, spara þannig legutíma þeirra og flytja inn í fjórðunginn hina miklu fjármuni, sem fara til viðhalds þessa myndarlega flota.

Það er jafnframt sannfæring okkar, að núv. hæstv. ríkisstj. sjái, hver þjóðarvoði það er, að öll endurnýjun fiskiflotans og mikið af viðhaldi hans sé framkvæmt af erlendum mönnum. Við erum þess fullvissir, að þegar þjóðfélagið hefur búið svo að iðnaðarmönnum okkar, að þeir séu samkeppnisfærir við útlendinga, þá verður dráttarbraut á Austurlandi ekki fjárhagsleg byrði, heldur efnahagsleg lyftistöng.

Fáir staðir hérlendis munu betur til þess fallnir að verða miðstöð skipasmíða heldur en Seyðisfjörður. Ein bezta höfn landsins er í Seyðisfirði. Um langt árabil hefur þróazt þar öflugur vélsmiðaiðnaður, sem getur orðið undirstaða þessarar stóriðju, og enginn ágreiningur er um það á Austurlandi, að Seyðisfjörður sé bezt fallinn til þeirra hluta af höfnum eystra.

Í trausti þess, að skrafið um jafnvægi í byggð landsins sé meira en umtalið eitt, og fullviss um, að hér er um þjóðþrifafyrirtæki að ræða, vona ég, að hæstv. Alþingi sjái sér fært að samþykkja þessa þáltill.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að till. þessari verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.