22.05.1957
Sameinað þing: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (2501)

27. mál, dráttarbraut á Seyðisfirði

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Till. þessi fjallar um að fela hæstv. ríkisstj. að láta gera kostnaðaráætlun um byggingu dráttarbrautar á Seyðisfirði fyrir allt að 1000 tonna skip.

Mér skilst á grg. frv., að það sé aðallega rökstutt með tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi þeirri, að togarafloti landsmanna muni aukast á næstunni, og svo einnig, að ekki sé æskilegt að binda viðhald og nýsmíði hinna stærri skipa eingöngu við Reykjavík. — Ég held, að allir hv. þm. geti verið sammála um, að auka þurfi dráttarbrautakostinn hér á landi. Fyrir því liggja tvær ástæður: Í fyrsta lagi sú, að það hefur sýnt sig á undanförnum árum, að dráttarbrautin hér í Reykjavík getur oft og tíðum ekki annað viðhaldi togaranna, og svo einnig er sú ástæða fyrir hendi, að það er alls ekki heppilegt, að þessi atvinnugrein frekar en aðrar njóti einokunaraðstöðu. Það er einmitt æskilegt, að hér á landi séu a.m.k. tvær dráttarbrautir, sem geti annazt viðhald á togurunum. Í sambandi við þetta mál og sérstaklega vegna grg. till. sé ég ástæðu til þess að benda á, að Akureyrarkaupstaður er nú þegar kominn nokkuð áleiðis með að stækka sína dráttarbraut. Það er nokkuð siðan farið var að athuga þetta mál á Akureyri og hafizt var handa um að afla tilboða í dráttarbrautina, og m.a. munu hafa komið a.m.k. 3–4 tilboð erlendis frá. Þessi tilboð hafa verið gaumgæfilega rannsökuð, og eftir þeim upplýsingum, sem liggja fyrir, má telja nokkurn veginn öruggt, að sé dráttarbrautin stækkuð, þannig að hún taki togara, muni það mannvirki kosta upp undir 10 millj. kr. Í vetur gerðist það, að bæjarstjórnin tók upp á fjárhagsáætlun yfirstandandi árs 500 þús. kr. framlag til byggingar dráttarbrautar þar. Það skiptir þó mestu máli, að með því að Alþ. féllst á það i vetur að taka upp 200 þús. kr. framlag til dráttarbrautarinnar á Akureyri, liggur fyrir samþykki Alþ. fyrir því, að þetta mannvirki verði reist.

Eins og ég tók fram áðan, er þarna um mjög mikla fjárfestingu að ræða. Samkv. lögunum um hafnargerðir og lendingarbætur er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður kosti þetta mannvirki að 2/5 hlutum og að í hlut bæjarins komi þá að greiða 3/5 hlutana. Fyrir þeim hluta, sem bærinn kemur til með að standa undir, er heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán.

Þetta mál liggur þá þannig fyrir í dag, að Akureyrarkaupstaður er kominn mjög mikið áleiðis með að koma upp togaradráttarbraut, og framkvæmdin á því hlýtur að verulegu leyti að byggjast á því, að ríkisstj. hlaupi nú myndarlega undir bagga og geri sínar ráðstafanir til þess að aðstoða bæjarfélagið við að koma upp þessu þjóðþrifafyrirtæki.

Í sambandi við þetta mál taldi ég ástæðu til þess, að þetta kæmi fram, og ég tel sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli hv. þm. á því, að það er mjög hæpið, að hér á landi sé grundvöllur fyrir þrjár dráttarbrautir af þeirri stærð, sem hér er um að ræða. — Ég taldi ástæðu til þess, að þetta kæmi fram í sambandi við þetta mál, og ég vil jafnframt nota tækifærið til þess að benda á, að Akureyrarkaupstaður mun nú þegar á þessu ári þurfa á aðstoð ríkisstj. að halda til þess að fá nægilegt lánsfé til þess að koma dráttarbrautinni upp. Það er um svo mikið mannvirki að ræða, að bæjarfélagið mun engan veginn geta gert það á eigin spýtur. Hérna er um þjóðþrifafyrirtæki að ræða, og þess er að vænta, að stjórnarvöldin sýni því fullan skilning.