15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (2517)

154. mál, atvinnuleysi

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þáltill. á þskj. 411 er um það, að Alþingi veiti ríkisstj. heimíld til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samþykkt nr. 2 varðandi atvinnuleysi, en þessi alþjóðasamþykkt var gerð á fyrsta þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem haldið var í Washington 1919.

Nú spyrja menn auðvitað undireins: Hvernig stendur á því, að Ísland hefur ekki fullgilt þessa samþykkt fyrr, úr því að hún er svona gömul, frá fyrsta þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar? Svarið við því er það, að Ísland gat ekki fullgilt þessa samþykkt, meðan ekki voru hér lög um atvinnuleysistryggingar og um atvinnuleysisskráningu í því formi, að það fullnægði þeim skilyrðum, sem gerð eru af Alþjóðavinnumálastofnuninni um framkvæmd atvinnuleysisskráningar eða vinnumiðlunarstarfsemi. En með löggjöfinni um atvinnuleysistryggingar á árinu 1956 og lögunum um vinnumiðlun, sem þá voru einnig sett, er Ísland fært um að taka á sig þær skuldbindingar, sem því fylgja að fullgilda þessa samþykkt.

Þær skuldbindingar, sem á þau ríki falla, sem fullgilda samþykktina, eru aðallega þrjár: Í fyrsta lagi, að þau ríki eiga að senda Alþjóðavinnumálastofnuninni skýrslur um atvinnuleysi og um þær ráðstafanir, sem viðkomandi ríki gerir til útrýmingar atvinnuleysi, og þetta á að gerast ekki sjaldnar en fjórum sinnum á ári á þriggja mánaða fresti. Samkvæmt lögunum um vinnumiðlun frá 1956 er ákveðið, að atvinnuleysisskráning skuli fara hér fram ekki sjaldnar en 4 sinnum á ári, og virðist því þessu ákvæði vera fullnægt með þeirri löggjöf.

Í öðru lagi fellur sú skuldbinding á ríki, sem staðfesta alþjóðasamþykktina, að komið verði á fót opinberum vinnumiðlunarskrifstofum, sem veiti ókeypis þjónustu, og það er ákveðið, að n., sem bæði fulltrúar verkamanna og atvinnurekenda eigi sæti í, skuli vera til ráðuneytis um rekstur vinnumiðlunarskrifstofanna. Þetta fyrirkomulag er einmitt ákveðið í lögunum, sem sett voru í fyrra um vinnumiðlun. Það eiga að vera vinnumiðlunarskrifstofur í hverjum kaupstað landsins og hverju kauptúni með 300 íbúa eða fleiri, og auk þess er félmrh. heimilt að ákveða með reglugerð, að vinnumiðlunarstarfsemin skuli einnig rækt í fámennari kauptúnum. Ég fæ því ekki betur séð en þessu öðru skilyrði sé líka fullnægt með löggjöfinni um vinnumiðlun.

Þá er þriðja skuldbindingin, sem fellur á þau ríki, sem þessa alþjóðasamþykkt fullgilda, að borgurum annarra aðildarríkja, sem hafa fullgilt samþykktina, skuli einnig tryggður sami réttur og landsmönnum til atvinnuleysisstyrkja í hlutaðeigandi ríki, og þeim verkamönnum, sem hér vinna og eru erlendir, er einmitt með lögunum um atvinnuleysistryggingar tryggður hér sami réttur og íslenzkum verkamönnum, og er því ákvæði þannig einnig fullnægt með gildandi landslögum hér.

Það má geta þess, því að menn spyrja stundum um það, hvað hin Norðurlöndin hafa gert. Þau hafa öll nema Ísland fullgilt þessa alþjóðasamþykkt og það fyrir löngu, og alls hefur þessi samþykkt verið fullgilt af 34 ríkjum.

Ég mæli með því, að Ísland fullgildi þessa alþjóðasamþykkt, þó að seint sé, og tel, að við getum að öllu leyti staðið við þær skuldbindingar vegna lagasetningarinnar um vinnumiðlun og um atvinnuleysistryggingar. Ég legg til, að umræðunni verði frestað og málinu vísað til hv. heilbr.- og félmn. og einnig allshn.