29.05.1957
Sameinað þing: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (2522)

154. mál, atvinnuleysi

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þessa þáltill. og mælir með því, að hún verði samþ.

Þessi samþykkt, sem hér er farið fram á heimild til þess að fullgilda, var gerð á fyrsta þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem haldið var í Washington árið 1919. Nú hafa 34 ríki fullgilt þessa samþykkt, þ. á m. Norðurlöndin öll nema Ísland. Það er talið, að þær skuldbindingar, sem aðildarríkin taka á sig með þessari fullgildingu samþykktarinnar, séu þessar: Í fyrsta lagi að senda Alþjóðavinnumálaskrifstofunni eigi sjaldnar en á 3 mánaða fresti upplýsingar um atvinnuleysi og ráðstafanir, sem gerðar eru til útrýmingar því. Í öðru lagi að koma á fót opinberum vinnumiðlunarstofnunum, er veiti ókeypis þjónustu og séu undir einni miðstjórn, og nefndir, sem fulltrúar verkamanna og atvinnurekenda eigi sæti í, séu til ráðuneytis þessum skrifstofum. Í þriðja lagi að veita borgurum annarra aðildarríkja, sem hafa fullgilt samþykktina, sama rétt og landsmönnum til atvinnuleysisstyrkja, ef hlutaðeigandi ríki hefur komið á hjá sér atvinnuleysistryggingum.

Eins og högum og lögum er nú háttað hér á Íslandi, er talið auðvelt að fullnægja þessum skuldbindingum, og eins og ég sagði áðan, mælir n. með því, að þessi till. verði samþ., en einn nm., hv. 2. þm. Reykv. (BÓ), skrifar undir með fyrirvara.