29.05.1957
Sameinað þing: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (2524)

154. mál, atvinnuleysi

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er svo, að skv. l. nr. 52 frá 1956 á að starfrækja vinnumiðlun hér á landi í hverjum kaupstað og hverju kauptúni með 300 íbúa eða fleiri. Enn fremur getur félmrh. ákveðið með reglugerð, að vinnumiðlun skuli starfrækt annars staðar í landinu, ef ástæða þykir til. Félmrn. hefur yfirumsjón með allri vinnumiðlun í landinu, en Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands eiga að tilnefna sinn manninn hvort til þess að vera félmrn. til ráðuneytis í þessum málum. Það mun enn fremur vera svo, að sveitarstjórn eða sá aðili, sem hún hefur falið að annast vinnumiðlun, á að hafa sér til ráðuneytis n., sem er skipuð 2 fulltrúum verkamanna og 2 fulltrúum atvinnurekenda. Það er talið af þeim, sem athugað hafa þetta, að með þessu sé fullnægt þeim ákvæðum, sem sett eru fyrir því að geta gerzt aðili að þessari samþykkt, og n., sem athugaði málið, féllst á þessi rök.