22.05.1957
Sameinað þing: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (2529)

169. mál, sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns o. fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hér í Reykjavík eru nú starfrækt tvö vísindabókasöfn, Landsbókasafn og Háskólabókasafn. Enn fremur eiga ýmsar opinberar stofnanir hér nokkur smærri bókasöfn, vísindalegs eðlis. Þessi tvö aðalbókasöfn eru bæði kostuð af opinberu fé. Vegna þess að starfsemi þeirra hefur ekki verið samræmd nema þá að mjög litlu leyti, hefur það gerzt, að bæði söfnin hafa fengizt við hliðstæð verkefni og að ýmsu leyti aflað sér bókakosts, sem er mjög skyldur, ef ekki alveg sams konar á einstaka þröngu sviði. Þetta er að ýmsu leyti óeðlilegt. Þeim fjármunum, sem til bókakaupa er varið, væri betur varið á þann hátt, að þeim yrði varið í þágu eins safns, sem gegndi því hlutverki að fullnægja þörfum vísindamanna og fræðimanna auk hinna almennu þarfa, sem slíkum söfnum er ætlað að fullnægja. Þess vegna hefur það um alllangt skeið verið til umr. bæði meðal landsbókasafnsmanna og háskólabókasafnsmanna, hvort ekki væri eðlilegt að sameina þessi tvö söfn að miklu eða jafnvel mestu leyti í eitt safn.

Á s.l. hausti skipaði menntmrn. nefnd 5 sérfróðra manna til þess að athuga, hvort fjárhagslega og skipulagslega muni hagkvæmt að sameina Landsbókasafn og Háskólabókasafn að einhverju eða öllu leyti, þannig að Háskólabókasafn yrði framvegis handbókasafn fyrir háskólann, en Landsbókasafn tæki við öðrum hlutverkum þess. Sem fylgiskjal með þessari till. til þál. er prentað álit þessarar nefndar, og leyfi ég mér að vísa til þess og þeirrar niðurstöðu, sem þar er um að ræða.

Í till. er í samræmi við einróma niðurstöðu þessarar n. lagt til, að sameina beri Háskólabókasafn Landsbókasafni eins fljótt og unnt er á næstu árum, þannig að Landsbókasafnið verði aðalsafn, en í Háskólabókasafni sé sá þáttur starfseminnar, sem miðast við handbóka- og námsþarfir stúdenta og kennsluundirbúning og rannsóknir kennara. Jafnframt er í till. ríkisstjórninni falið að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þessa átt og lagt svo fyrir, að nú þegar verði tekið upp náið samstarf milli Landsbókasafns og Háskólabókasafns, svo náið sem við verður komið, og höfð hliðsjón af væntanlegri sameiningu safnanna.

Þess má geta, að n. taldi og lagði á það áherzlu, að brýna nauðsyn bæri til þess að byggja fljótlega nýtt bókasafnshús. Á því er enginn vafi, að að því rekur, áður en langt um líður, að brýna nauðsyn beri til þeirra framkvæmda. Hins vegar þótti ekki rétt nú að sinni að leggja svo fyrir, að í slíka stórbyggingu yrði ráðizt, þar eð margar aðrar byggingarframkvæmdir á vegum hins opinbera eru á döfinni. En á þetta mál vildi ég þó minna. Af samþykkt þessarar till. mundi ekki leiða nein ný fjárútgjöld fyrir hið opinbera. Þvert á móti mætti búast við, að það fé, sem nú þegar er varið til bókakaupa, mundi hagnýtast mun betur en nú á sér stað, ef till. næði fram að ganga, og leyfi ég mér því að vænta þess, að hið háa Alþingi veiti henni samþykki sitt nú á þessum síðustu starfsdögum sínum, og leyfi mér að óska þess, að till. verði að lokinni umr. vísað til hv. allshn.