22.05.1957
Sameinað þing: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (2531)

169. mál, sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns o. fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Reykv. (BBen) fyrir góðar undirtektir hans undir þetta mál. Það er rétt, sem hann sagði, að til þessa hefur þetta mál fyrst og fremst strandað á andstöðu forráðamanna háskólans við það, að

Háskólabókasafnið yrði sameinað Landsbókasafni. Sú breyting hefur nú orðið á afstöðu forráðamanna þeirrar stofnunar, að þeir telja, að fyrir hag háskólans verði bezt séð með þessu móti, því að það er augljóst, að aðstaða til hagnýtingar bóka og vísindarannsókna verður bezt með því móti, að öll rit, sem tiltæk eru á annað borð hér í bænum til slíkra rannsókna, séu sem allra mest á einum stað.

Varðandi það, sem hv. þm. sagði um skráningarmiðstöð vísindalegra rita, vil ég aðeins bæta því við, að verið er þegar að vinna að þeirri skráningu. Fyrir mína tíð í menntmrn. hafði ráðuneytið einmitt ákveðið, — ég hygg, að það hafi verið í ráðherratíð hv. 1. þm. Reykv., sem sú ákvörðun var tekin í ráðuneytinu, — að efna til slíkrar skráningarmiðstöðvar vísindalegra rita. Þeirri skráningu hefur enn því miður miðað of hægt, en ég hef gert mitt til þess, að á því verði ekki óhæfilegur dráttur, að því verki miði áfram, því að það er, eins og hann tók fram alveg réttilega, bráðnauðsynlegt og að því mikill bæði peningasparnaður og vinnusparnaður, að slík skrá sé fyrir hendi, ekki aðeins fyrir Landsbókasafn og Háskólabókasafn, heldur einnig fyrir sérsöfnin, sem hinar ýmsu opinberu stofnanir hafa verið að koma sér upp á undanförnum árum.