29.05.1957
Sameinað þing: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (2533)

169. mál, sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns o. fl.

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég hygg, að það hljóti að vera augljóst öllum, að sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns mundi verða mjög til góðs. Eitt mjög gott bókasafn er miklu betra en tvö á sama stað, þótt bæði séu góð, vegna þess að alltaf er hætta á, að tvö söfn kaupi að einhverju leyti sömu verk og eyði þannig peningum í að kaupa mörg eintök af sama verki, þar sem hægt væri að komast af með eitt.

Þar sem nú liggur fyrir, að forráðamenn Landsbókasafns og Háskólabókasafns eru þeirrar skoðunar, að rétt sé að stefna að þessari sameiningu, er þessi þáltill. fram komin. Það mun ekki verða hægt að sameina söfnin í skyndi, heldur mun það gerast smám saman, eftir því sem hagkvæmt er, bæði vegna húsnæðiskostnaðar og af öðrum ástæðum.

Allshn. mælir einróma með því, að till. þessi verði samþ.