29.05.1957
Sameinað þing: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (2540)

180. mál, síldarverksmiðja á Seyðisfirði

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað till. á þskj. 556 og leggur einróma til, að hún verði samþ. óbreytt. Það getur ekki leikið á tveim tungum, að veita beri ríkisstj. þessa umbeðnu ábyrgðarheimild, svo að unnt sé fyrir Seyðisfjarðarkaupstað að afla nauðsynlegra lána til hinnar fyrirhuguðu stækkunar á síldarverksmiðjunni þar. Aukin afkastageta síldarverksmiðjunnar á Seyðisfirði er spor í rétta átt, þótt langt sé frá, að hún geti þrátt fyrir fyrirhugaða stækkun fullnægt eðlilegri lágmarkskröfu síldveiðiflotans, þegar hann er að veiðum um og austan Langaness. Í sambandi við það vil ég taka það fram, að ég vænti og hef ekki ástæðu til að ætla annað en að ríkisstj. sé það fyllilega ljóst, að ekki kemur til greina, að umrædd stækkun á síldarverksmiðjunni á Seyðisfirði sé fullnæging á lagaskyldunni um að byggja 5 þús. mála síldarverksmiðju á Norðausturlandi sunnan Langaness, sbr. l. nr. 79 frá 5. júní 1947. — Fjvn. væntir, eins og fram kemur í nál. hennar, að þáltill. á þskj. 556 verði samþ. óbreytt.