13.03.1957
Sameinað þing: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (2566)

118. mál, endurheimt íslenskra handrita frá Danmörku

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á Alþingi hefur ríkt og ríkir án efa einhugur um kjarna þess máls, sem hér er um að ræða. Íslenzka þjóðin í heild er þeirrar skoðunar, að þau íslenzk handrit, sem varðveitt eru í dönskum söfnum, eigi heima á Íslandi. Rökin fyrir þessari skoðun Íslendinga er svo kunn, að hér gerist ekki þörf að endurtaka þau. Núv. ríkisstj. telur það að sjálfsögðu skyldu sína að vinna að því, að handritin verði afhent Íslendingum. Að baki þeirri stefnu hennar er bæði þjóðarvilji og þingvilji.

Til þess að óskum Íslendinga í þessum efnum verði fullnægt, þarf að nást samkomulag milli ríkisstj. beggja landanna. Ég tel engan efa á því, að skilningur á málstað Íslendinga meðal danskra stjórnarvalda hefur vaxið mjög hin síðari árin, og ber eindregið að fagna því. Þótt ekki hafi orðið samkomulag um hugmynd þá, sem danska ríkisstj. bar fram fyrir nokkrum árum varðandi málið, leikur enginn vafi á því, að sú hugmynd var fram borin af góðum hug og einlægum vilja af hálfu danskra stjórnarvalda til þess að leysa málið á hátt, sem þau vonuðu að Íslendingar gætu fallizt á. Þótt Alþingi og ríkisstj. hafi ekki talið þessar till. fullnægja sjónarmiðum Íslendinga, var auðvitað ekki þar með sagt síðasta orð í málinu af hálfu Íslendinga, og ég vona, að svo hafi ekki heldur verið af Dana hálfu. Hitt er síðan annað mál, hver tími þykir heppilegur til þess að taka málið upp enn á ný.

Sambúð Dana og Íslendinga er ágæt, svo sem vera ber milli þjóða, sem eru jafnskyldar og þessar þjóðir og eiga jafnmargt sameiginlegt í menningu, stjórnarfari og öðru efni. Milli Dana og Íslendinga ríkir einlæg vinátta. Samstarf þeirra hefur farið vaxandi, og verður svo vonandi áfram. En þjóðirnar eiga eitt mál óleyst frá fyrri tímum, handritamálið.

Frá sjónarmiði dönsku þjóðarinnar getur málið tæpast talizt mjög mikilvægt, en frá sjónarmiði Íslendinga er málið stórmál. Það er mál, sem hver Íslendingur, verkamaðurinn og menntamaðurinn, bóndinn og embættismaðurinn, telur snerta sig, af því að það lýtur að því, sem er dýrmætast í menningararfi þjóðarinnar, af því að það er nátengt því, sem gerði Íslendinga að þjóð í upphafi og hefur stuðlað að því að viðhalda íslenzku þjóðerni í þúsund ára erfiðri baráttu við einangrun og óblíða náttúru.

Ríkisstj. mun vinna að því, að mál þetta leysist í samræmi við grundvallarsjónarmið Íslendinga í málinu. Hún treystir því, að vinaþjóðum eins og Dönum og Íslendingum muni takast að finna lausn, sem sé þjóðunum báðum til gagns og sóma.

Ég tel rétt, að till. sé vísað til hv. allshn., og er fús til viðræðu við n. um endanlega afgreiðslu málsins hér í þinginu.