13.03.1957
Sameinað þing: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (2567)

118. mál, endurheimt íslenskra handrita frá Danmörku

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir þær undirtektir, sem hann hefur gefið um framkvæmd þessa máls. Hann sagði að vísu, að það gæti verið álitamál um, hve heppilegur tími væri til upptöku slíks máls. En við því vil ég bara segja það, að það er alltaf heppilegur tími til þess að bera fram réttmætar og sanngjarnar kröfur, við hvaða aðila sem er að eiga, og í þessu efni, eins og hæstv. ráðh. líka viðurkenndi, standa Íslendingar mjög traustum fótum.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði komið fram velvilji hjá dönskum stjórnarvöldum í því tilboði, sem danska stjórnin gerði okkur um helmingaskipti á þessum verðmætum. Ef svo hefur átt að vera, þá er það byggt á algerum misskilningi dönsku stjórnarinnar á eðli og skapgerð Íslendinga. Það, sem þeir telja sig eiga með réttu, vilja þeir hafa í sínum höndum og fá þann rétt viðurkenndan, og þess vegna var það í algeru samræmi við þær aðstæður, sem hér ríkja á Íslandi, sem sú ályktun var gerð að vísa þessu misskilda tilboði á bug.

Ég skal svo ekki bæta frekar við þetta, en vil vænta þess, að hæstv. ríkisstj. eða þeir, sem eru í fararbroddi fyrir hana í þessu máli, sýni fulla röggsemi í sókn þessa máls, því að það er í samræmi við vilja allra Íslendinga, að það sé gert. Við þekkjum það líka af langri baráttu fyrir viðurkenningu á frelsi og sjálfstæði Íslendinga, að það að sýna festu og röggsemi í slíkum málflutningi er eini lykillinn, sem gengur að því skráargati.