31.05.1957
Sameinað þing: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (2578)

185. mál, Alþjóðakjarnorkumálastofnunin

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er misskilningur, að ég komi hér fram sem frsm. Ég kem hér fram sem óbreyttur þm., en ég vil skýra frá því, að þessu máli var vísað til allshn. Sþ. á síðasta fundi. N. kom saman og ræddi málið nokkuð, og nm., sem þá voru mættir, voru yfirleitt efni till. vinsamlegir. Hins vegar er það augljóst mál, að n. hefur ekki aðstöðu á milli þessara funda til að afla sér frekari gagna eða rannsaka þetta mál og íhuga neitt meira en allur þorri þm. getur, og hún treystir sér því ekki til að gefa út um það nál. Hins vegar hef ég sem formaður n. reynt að kynna mér málið eftir föngum á þessum tíma og get því sagt örfá orð um það frá eigin brjósti.

Það, sem um er að ræða, er að veita heimild til, að Ísland fullgildi stofnskrá Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, en þegar þessi stofnskrá var fyrst lögð fyrir ráðstefnu, átti Ísland þar fulltrúa, og undirritaði Thor Thors sendiherra þá skjalið.

Hér er verið að setja á stofn alþjóðastofnun til þess að hagnýta kjarnorku á friðsamlegan hátt. Mér virðist auðsætt, að ef þessi stofnun kemst upp, muni smáþjóðir frekar geta haft af henni hag og notað hana til að fá aðstöðu til að nota þekkingu og reynslu stórþjóða, þegar að því kemur, að jafnvel hinar smærri þjóðir geti notað kjarnorkuna á friðsamlegan hátt.

Ég get ekki séð, að í fullgildingu á þessari stofnun felist nein skuldbinding fyrir Alþingi, önnur en sú að taka þátt í stjórnarkostnaði í sama hlutfalli og við gerum i Sameinuðu þjóðunum, en sá kostnaður mundi nema, að því er mér er tjáð, 800–1000 dollurum á ári, og það er mjög lítið.

Ég sé því ekki betur en það ætti að vera hægt með þessum upplýsingum að samþ. þessa till., þannig að Ísland geti frá byrjun tekið þátt í þessum samtökum.

Ég vildi því, eftir að hafa farið í gegnum málið og rætt við tvo eða þrjá embættismenn, sem hafa haft með það að gera, mæla með því, að Alþ. veiti þessa samþykkt og fullgildingu, þannig að Ísland geti tekið þátt í þessu starfi frá byrjun.