04.02.1957
Sameinað þing: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (2588)

94. mál, þingrof og nýjar kosningar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Um mörg undanfarin ár hafa Íslendingar búið við góð markaðsskilyrði erlendis. Þjóðin á afkastamikil framleiðslutæki, og fólkið, sem við þau vinnur, er harðduglegt. En skipulagsmál og fjármál framleiðslunnar innanlands hafa verið í ólestri. Það hefur verið verðbólga í landinu. Útflutningsatvinnuvegirnir hafa verið reknir með tapi. Það hefur verið greiðsluhalli gagnvart útlöndum. Hvernig hefur staðið á þessu.

Hugsandi menn geta varla verið í vafa um svarið. Í íslenzku þjóðfélagi er um að ræða þrjá aðila, sem hver um sig er svo áhrifaríkur og voldugur, að hann hefur úrslitaáhrif á efnahagsþróunina. Þessir aðilar eru launþegasamtökin, samtök framleiðenda og ríkisvaldið. Ef framleiðslan á að vera eins mikil og mögulegt er og lífskjör þjóðarinnar eins góð og unnt er, þá verða þessir þrír aðilar að vinna saman. Milli þeirra verður að ríkja gagnkvæmt traust. Þeir verða að stefna að einu og sama marki.

Er okkur ekki öllum ljóst, að svo hefur ekki verið undanfarin ár? Ríkisvaldið hefur ekki leitað nauðsynlegs samstarfs við launþegasamtökin, og stefna þess hefur verið með þeim hætti, að þau hafa ekki getað borið traust til þess. Af þessum sökum hefur hvert stórverkfallið af öðru skollið á. Ríkisvaldinu hefur ekki heldur tekizt að ná fullkomnu samstarfi við samtök framleiðenda. Útvegsmenn hafa átt í styrjöld við ríkið og jafnvel stöðvað útflutningsframleiðsluna, svo sem átti sér stað á s.l. vetri, til stórkostlegs tjóns fyrir þjóðarheildina. Það getur ekki leitt til annars en ófarnaðar, að ekki aðeins séu launþegar og framleiðendur í styrjöld hverir við aðra, heldur einnig við ríkisvaldið, og beiti verkföllum og vinnustöðvunum til skiptis. Ríkisstj. ein hefur aðstöðu til þess að gegna hér nauðsynlegu sáttahlutverki.

Undanfarin ár hefur Sjálfstfl. haft sterk áhrif á stjórn landsins. En einmitt áhrif hans hafa valdið því, að launþegasamtökin hafa ekki treyst ríkisvaldinu, og jafnvel framleiðendasamtökin hafa ekki viljað una ráðstöfunum þess. Sjálfstfl. hefur reynzt algerlega ófær um að laða samtök launþega og framleiðenda til nauðsynlegs samstarfs við ríkisvaldið. Hann hefur brugðizt gersamlega meginskyldu þess, sem tekst á hendur stjórn landsins, og þess vegna í raun og veru reynzt ófær um að stjórna.

Allir þjóðhollir og sanngjarnir Íslendingar, hvar í flokki sem þeir standa, munu eflaust játa, að breyting hlaut að verða á því ástandi, sem verið hefur undanfarin ár. Þegar núverandi ríkisstj. var mynduð, setti hún sér það höfuðmark að því er innanlandsmálin varðar að koma á víðtæku samstarfi milli launþega, framleiðenda og ríkisvalds í því skyni að stöðva verðbólguna og leggja grundvöll að heilbrigðum framförum og réttlátri skiptingu þjóðarteknanna.

Hefur ríkisstj. tekizt að koma á þessu samstarfi, eða hefur henni mistekizt það? Að því frátöldu, sem hv. þm. G-K., Ólafur Thors, las úr gömlum blöðum og ræðum andstæðinga sinna, sagði hann lítið annað í ræðu sinni hér áðan en að hingað til hafi ríkisstj. aðallega fengizt við að svíkja gefin loforð. Hvað um þetta aðalloforð ríkisstj.? Hefur það verið efnt eða svikið?

Þið munið öll, sem mál mitt heyrið, að á s.l. hausti átti verð landbúnaðarafurða að hækka verulega. Í kjölfar þess átti síðan að sigla kauphækkun. Hér var um að ræða sams konar verðhækkunar- eða kauphækkunarskrúfu og undanfarin ár, hringrás, sem enginn græðir á, en þjóðin í heild tapar á. Undanfarin ár hefur engri ríkisstj. heppnazt að stöðva þessa óheillavænlegu verðbólguhringrás, allra sízt þeim ríkisstj., sem Ólafur Thors hefur veitt forstöðu. En hvað gerðist nú? Fyrir forgöngu núv. ríkisstj. náðist samkomulag milli launþegasamtaka og bændasamtaka um að stöðva verðbólguhjólið, þjóðarheildinni til mikillar blessunar. Samið var um, að verðlag og kaupgjald skyldi haldast óbreytt til áramóta. Gagnkvæmt traust og samstarfsvilji var kominn í stað tortryggni og úlfúðar.

Þarna náðist árangur, sem allir þjóðhollir Íslendingar hljóta að játa að var góður og mikilvægur. En hvernig brást stjórnarandstaðan, Sjálfstfl., við þessari ráðstöfun? Þetta var ekki aðeins fyrsta meginráðstöfunin, sem ríkisstj. gerði, þetta var ekki aðeins fyrsta sporið, sem hún steig til þess að efna gefin loforð, örstuttu eftir að hún tók við völdum. Þetta var líka fyrsti prófsteinninn á það, hvernig og hvers eðlis stjórnarandstaða Sjálfstfl. yrði, hvort hún yrði ábyrg og málefnaleg eða skrumkennd og ábyrgðarlaus. Sjálfstfl. féll herfilega á þessu fyrsta prófi. Þótt forustumenn hans séu auðvitað ekki svo skyni skroppnir, að þeir viti ekki jafnvel og aðrir hugsandi menn, að þessar ráðstafanir voru til mikils góðs fyrir þjóðarheildina, létu þeir málgögn flokksins gera sig að algeru viðundri með því að slá allt í einu stóru striki yfir allt það, sem þau hafa sagt um kaupgjaldsmál undanfarin ár, og gerast a.m.k. öðrum þræði formælendur þeirrar kenningar, að verið væri að rýra kjör launþega og bænda með því að koma í veg fyrir, að verðlag og kaupgjald hækkaði á víxl. Eftir allt það, sem málsvarar Sjálfstfl. hafa sagt undanfarin ár um skaðsemi verðbólguskrúfunnar, er það dæmalaust, að flokkurinn skuli hafa látið stjórnmálaofstæki leiða sig út á þá braut að reyna að gera jafnheillavænlegar ráðstafanir tortryggilegar. Slíkt hefði ekki hent nokkurn stóran flokk í nágrannalöndum.

Jafnvel innan Sjálfstfl. sjálfs mun hin óhyggilega afstaða flokksins til ráðstafananna í haust hafa sætt mikilli gagnrýni. Skynsamir fylgismenn flokksins munu því hafa vonað, að afstaða hans til þeirra ráðstafana, sem allir víssu að gera þurfti um áramótin, yrði hyggilegri. Þeir menn hljóta að hafa orðið fyrir sárum vonbrigðum. Allir, sem til þekkja, eru sammála um, að vegna fyrirsjáanlegs taprekstrar útflutningsframleiðslunnar á þessu ári, ef ekkert yrði að gert, og til þess að tryggja þeim, sem að þessari framleiðslu vinna, sambærileg kjör við aðrar stéttir, sé nauðsynlegt að auka hlutdeild útflutningsatvinnuveganna í þjóðartekjunum. Sömuleiðis er öllum kunnugum ljóst, að nauðsynlegt er að tryggja ríkissjóði nýjar tekjur. Um það má eflaust deila, hvort heildarupphæðin ætti að vera einum eða tveimur milljónatugum hærri eða lægri, en það er ekki aðalatriði málsins. Sjálf tekjuþörfin var óumdeilanleg og upphæð hennar í meginatriðum einnig. Ríkisstj. komst að mjög vel athuguðu máli að raun um, að útflutningsframleiðslan þyrfti tekjuauka að upphæð 128 millj. kr., auk þess sem greiða þyrfti 36 millj. kr. halla frá síðasta ári, og að fjárþörf ríkissjóðs væri 65–70 millj. kr.

Til þess að afla þessa fjár var um tvær meginleiðir að ræða: gengisbreytingu eða millifærslu tekna með því að leggja gjöld á innfluttar og innlendar vörur og greiða uppbætur á útflutningsframleiðsluna. Við val milli þessara leiða gerði ríkisstj. hið eina, sem talizt gat skynsamlegt. Hún ræddi málið við launþegasamtökin. Þau reyndust mjög andvíg gengisbreytingu og kusu heldur millifærsluleiðina með þeim rökum, að auðveldara væri þá að láta óhjákvæmilegar verðhækkanir fyrst og fremst verða á þeim vörum, sem ekki gætu talizt til brýnna nauðsynja. Ríkisstj. gerði þessi sjónarmið að sínum og tryggði með því stuðning launþegasamtakanna við þær ráðstafanir, sem gerðar voru, jafnframt því sem fullt samkomulag náðist við samtök framleiðenda um þá upphæð, sem útflutningsframleiðslan skyldi fá í sinn hlut. Það tókst m.ö.o. þegar fyrir áramót að tryggja stöðuga starfrækslu útflutningsframleiðslunnar í fullu samkomulagi við samtök launþega og framleiðenda. Það tókst að tryggja fulla hagnýtingu framleiðsluskilyrðanna og vinnufrið við framleiðslustörfin.

Með þessu var í rauninni brotið blað í þjóðmálum Íslendinga. Þetta hefur aldrei tekizt undanfarin ár. Hugsandi mönnum og þjóðhollum hlaut að vera þetta fagnaðarefni. Nýjar vonir um heilbrigðar framfarir hlutu að vakna. En hver voru viðbrögð stjórnarandstöðunnar, Sjálfstfl.? Óhætt er að fullyrða, að aldrei hafi stjórnarandstaða á Alþingi reynzt eins ábyrgðarlaus og úrræðalaus og stjórnarandstaða Sjálfstfl. í sambandi við lausn þessa máls. Það er engu líkara en að forustumenn Sjálfstfl. hafi alveg komizt úr jafnvægi við að missa völdin og þeir hafi skyndilega gersamlega misst hæfileikann til þess að gera till. um lausn vandamálanna.

Heyrðuð þið, hlustendur góðir, formann Sjálfstfl. skýra frá till. flokks síns varðandi vandamál útflutningsframleiðslunnar í ræðu sinni áðan? Nei, og það er ekki von, því að hann hafði alls ekki frá neinum till. að segja. Hann fann þó sjálfur, að þetta var hvorki gott né myndarlegt, en afsakaði það með því, að Sjálfstfl. hefði ekki fengið að kynna sér álitsgerð tveggja erlendra sérfræðinga, sem unnu fyrir ríkisstj. í nokkrar vikur. Þetta er dálagleg frammistaða! Mennirnir geta engar till. gert, af því að þeir fá ekki að leita upplýsinga hjá tveim erlendum sérfræðingum! Og þetta eru foringjar stærsta flokks landsins! Hvað segja menn um svona stjórnarandstöðu?

Leiðtogar Sjálfstfl. hafa haft allt á hornum sér í sambandi við það, sem gert var, en þeir hafa aldrei sagt aukatekið orð um það, hvað þeir hefðu viljað gera í staðinn. Þeir tala eins og þeir séu óánægðir með það, að millifærsluleiðin var farin, en samt segja þeir ekki, að þeir hefðu heldur viljað gengisbreytingu. Ómögulegt hefur reynzt að fá forustumenn Sjálfstfl. til að segja til um, hvort þeir telji upphæð þá, sem greiða á útflutningsatvinnuvegunum, of háa eða of lága. Þeir þora ekki að segja, að hún sé of há, því að þeir vita, að þá verða þeir spurðir, hvort þeir telji tekjuauka sjómannanna of mikinn, hvort þeir telji togarana fá of mikið eða þá bátana eða frystihúsin. Þeir vilja nefnilega geta sagt við þessa aðila í laumi, að þeir hefðu átt að fá meira, til þess að reyna að gera þá óánægða. En þeir þora heldur ekki að segja opinberlega, að upphæðin sé of lág, því að væri það rétt, hefðu gjöldin þurft að vera hærri, en þeir vilja geta alið á því gagnvart neytendum, að gjöldin séu of mikil, samtímis því sem þeir segja við sjómenn og framleiðendur, að þeir hefðu eiginlega átt að fá meira í sinn hlut.

Leiðtogar Sjálfstfl. hafa með öðrum orðum valið sér hlutskipti hins ábyrgðarlausa lýðskrumara, sem ekki ber fram neinar till., segja eitt við þennan aðila og annað við hinn, láta einn ræðumann segja þetta og annan hitt, eitt í dag og annað á morgun. Sjálfstfl. gerði engar till., þegar vandamál útflutningsframleiðslunnar voru til úrlausnar fyrir síðustu áramót. Stærsti flokkur þjóðarinnar hafði enga skoðun á því, hvort lækka ætti gengið eða fara millifærsluleiðina. Hann hafði enga skoðun á því, hvort fjárþörf útflutningsatvinnuveganna og ríkissjóðs væru 230–240 millj. eða eitthvað annað meira eða minna, og hann hafði enga till. að gera um það, hvernig fjárins skyldi aflað. Hann hafði ekkert til málanna að leggja annað en neikvætt nöldur.

Þó að Sjálfstfl. hafi nú enga heilsteypta skoðun á því, hvernig leysa hafi átt vandamál útflutningsframleiðslunnar, þá gerir hann það, sem hann getur, til þess að vekja óánægju almennings vegna þess, að verðlag hlýtur að hækka nokkuð í kjölfar þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið, þótt það eigi að vísu hvorki við um brýnustu nauðsynjar né rekstrarvörur útflutningsframleiðslunnar. En Sjálfstfl. hefur ekki alltaf verið svona viðkvæmur fyrir því, þegar verðlagið hækkaði. Meðan hann hafði aðstöðu til þess að hafa áhrif á stefnuna í efnahagsmálunum, var það eitt aðalstefnumál hans, að ekki skyldi vera verðlagseftirlit í landinu. Þess vegna beitti flokkurinn sér fyrir því 1951, að verðlagsákvæði væru að verulegu leyti afnumin og milliliðum heimiluð frjáls álagning, þótt innflutningur til landsins yrði ekki frjáls nema að nafninu til.

Menn hafa til skamms tíma ekki haft um það öruggar upplýsingar, hverja þýðingu það hefur haft fyrir verðlagið í landinu, að verðlagsákvæðin voru afnumin. Nú hefur þingkjörin nefnd nýlega látið fara fram á þessu ýtarlega rannsókn. Hún hefur verið framkvæmd af sérfróðum manni með aðstoð verðlagsyfirvalda. Í n. eiga sæti glöggir menn úr þingflokki Sjálfstfl., sem hafa aðstöðu til þess að fylgjast með því, að rannsóknin sé vel unnin. Hvað hefur hún leitt í ljós? Hún er miðuð við innflutninginn 1955. Niðurstaðan er sú, að hin frjálsa álagning á þann hluta hans, sem engin verðlagsákvæði giltu um, nemur hvorki meira né minna en 347 millj. kr., en miðað við síðustu verðlagsákvæði, sem í gildi voru, hefði álagningin ekki orðið nema 163 millj. kr. Afnám verðlagsákvæðanna þýddi með öðrum orðum það, að milliliðir hækkuðu álagningu sína á eins árs innflutning um 184 millj. kr., afnám verðlagsákvæðanna færði milliliðunum í heild hvorki meira né minna en 184 millj. kr. á einu ári, og þessa upphæð hafa neytendur auðvitað orðið að greiða í hærra vöruverði. Þessi tekjuaukning milliliðanna, sem Sjálfstfl. færði þeim með afnámi verðlagsákvæðanna, nemur 56 millj. kr. hærri upphæð en tilætlunin er að flytja yfir til útflutningsframleiðslunnar á þessu ári.

Verðhækkunin, sem neytendum er nú ætlað að greiða til þess að auka tekjur sjómanna, bænda og verkamanna og greiða tap útgerðarinnar, er með öðrum orðum minni en Sjálfstfl. hefur undanfarin ár látið neytendur greiða milliliðunum. Þetta sýnir, að með því að taka að nýju upp strangt verðlagseftirlit, eins og nú er verið að gera, er hægt að sjá svo um, að milliliðirnir skili aftur til neytenda gjöfunum, sem Sjálfstfl. hefur fært þeim á undanförnum árum. Þessar staðreyndir varpa skýru ljósi, ef til vill skýrara ljósi en nokkuð annað, á eðli Sjálfstfl. Nú fjargviðrast flokkurinn yfir verðhækkunum, sem hann þó veit að eru óhjákvæmilegar, til þess að unnt sé að auka tekjur sjómanna, bænda og verkamanna við útflutningsframleiðsluna og til þess að greiða tap útgerðarinnar. En hafið þið, góðir hlustendur, heyrt foringja Sjálfstfl. kvarta undan þeim verðhækkunum, sem afnám verðlagsákvæðanna hefur haft í för með sér? Hafið þið lesið í blöðum Sjálfstfl., að milliliðirnir hafi hækkað álagningu sína? Nei, þið hafið hvorugt heyrt eða séð?

Ef sjómenn, útvegsmenn og bændur eiga að fá tekjurnar af verðhækkuninni, þá reyna foringjar Sjálfstfl. að gera hana tortryggilega. En ef tekjurnar af verðhækkuninni lenda í vasa milliliðanna, þá er hún sjálfsögð. Þetta er skýrasta myndin, sem hægt er að fá af Sjálfstfl. og stjórnmálabaráttu hans. Á þessum meginstaðreyndum eru nú áreiðanlega ýmsir að átta sig, sem hingað til hafa veitt honum brautargengi. Hann hefur þegar misst völdin, og hann mun einnig missa fylgi fólksins.