04.02.1957
Sameinað þing: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (2589)

94. mál, þingrof og nýjar kosningar

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Menn hafa nú heyrt málflutning hæstv. ráðh., og víst hafa þeir ekki sparað mörg orð. Hæstv. síðasti ráðh. talaði t.d. fullar 10 mínútur fram yfir sinn tíma. En þrátt fyrir öll fjölorðin sem þeir hafa viðhaft, hafa þeir vandlega þagað um hina einföldu spurningu, sem þm. G-K. bar fram, hvort þeir hafi staðið við þau loforð, sem þeir gáfu kjósendum fyrir kosningar, eða ekki. Það var einföld spurning, sem hefði verið hægt að svara með einföldu orði. En þegar reynt er að komast fram hjá svo einfaldri spurningu með svo mörgum orðum sem við nú höfum heyrt og innihaldslitlum, þá ber það sinn dóm í sér fólgið sjálft.

Ætla mætti og, að þeir ráðh., eins og hv. síðasti ræðumaður, sem segja nú fyrir fylgishrun Sjálfstfl., mundu með fögnuði líta til nýrra kosninga og telja sig og sína aðstöðu verða miklu styrkari, ef kjósendur veittu þeim aukið traust að einu ári liðnu. En það er eitthvað annað.

Hæstv. forsrh. talaði svo hér, að við hefðum verið sviptir völdum og settir í stjórnarandstöðu um sinn. Það var ljóst, að hann efaðist ekki um, hver úrslitin yrðu, þegar gengið yrði til kosninga næst, hvort sem það verður skjótlega eða seint.

Þá ætti ekki að vera amalegt fyrir ríkisstj. að ganga til kosninga, þegar allar verðlækkanirnar fara að koma fram, sem Lúðvík Jósefsson var að segja hér frá áðan og Gylfi Þ. Gíslason endurtók með mjög villandi frásögn af óþekktri skýrslu, sem hann var að lesa hér upp. En það er greinilegt, að þeir óttast og vita, að fólkið verður farið að finna um vornætur dálitla aðra raun af verðlaginu í landinu en þeir segja fyrir nú, og þess vegna kemur skjálftinn og óttinn við kosningarnar, sem við förum fram á.

Við biðjum ekki um stjórnaraðstöðu eða völd án dóms kosninga. Við hirðum ekki um að vinna án kosninga með neinum þeim flokki, sem nú er við völd. Við óskum eftir því einu, að kjósendurnir fái að segja sinn dóm. Við kvíðum dómnum ekki. Þess vegna óskum við eftir þingrofi og nýjum kosningum, en kjósendur geta farið nærri um, af hverju hinir vilji forðast það umfram alla muni. Og það er dálítið hjákátlegt, þegar Gylfi Þ. Gíslason býsnast mjög yfir því, að við höfum talið það einkennilegt að fá ekki að sjá dóm þeirra tveggja hagfræðinga, úttektina á þjóðarbúinu, sem ríkisstj. kvaddi til í s.l. október. Ríkisstj. hefur þó hann sjálfan, hálærðan prófessor í hagfræði, innan sinna vébanda. Ætli það hefði ekki átt að gera henni nógu auðvelt um að semja efnahagsúrræðin? Engu að síður kveður hún tvo erlenda hagfræðinga til og treystir sér ekki til að kveða upp sinn dóm eða semja sinar till., fyrr en þeirra álit liggi fyrir, en álitið er af einhverjum ástæðum þannig, að ekki aðeins við sjálfstæðismenn, heldur þjóðin öll er dulin þess, hvað í álitinu felst.

Hitt vita allir, sem til mála þekkja og samningar lagafrv., að eins og nú er komið með þeim margþættu ákvæðum, sem þurfa að vera í slíku efnahagsfrv. sem hér var samþ. á þremur dögum fyrir jól, þá er ómögulegt að ætlast til þess, að það sé samið af neinum öðrum en þeim, sem hafa aðgang að fyllstu upplýsingum og sérfræðilegum athugunum, alveg eins og það væri fráleitt að krefjast þess, að stjórnarandstaða legði í heild fram fjárlagafrv. Það er fjmrh. einn og hans víðtæka starfsstofnun, sem það getur samið. Það er enginn vandi að semja gyllitillögur, falsfrv., eins og sumir aðrir hafa lagt sig niður við, en við sjálfstæðismenn kjósum ekki þá starfshætti.

Ætla mætti, að hæstv. forsrh. væri ekki óánægður með að fá kosningar, eins og hann sagði að frammistaða okkar sjálfstæðismanna i varnarmálunum hefði sópað af okkur fylginu. Hví í ósköpunum vill hann þá ekki lofa kjósendunum að kveða upp sinn dóm á næsta sumri ?

Það er einnig óþarft að eyða mörgum orðum um þá fjarstæðu, að við sjálfstæðismenn ættum að snúast til fylgis við hæstv. ríkisstj. vegna þess, að í framkvæmd meginmála fari hún eftir stefnu okkar, en ekki því, sem stuðningsflokkar hennar lýstu yfir fyrir kosningar. Út af fyrir sig er rétt, að ríkisstj. hefur um margt brugðið frá þeim fyrirheitum, er hún hafði gefið, og um sumt beitt sams konar úrræðum og flokkar hennar fordæmdu, meðan við sjálfstæðismenn fórum með völd. En þeir gerðu þetta út frá allt öðrum forsendum en við og með þeim hætti, sem sízt vekur traust á framkvæmdinni, enda voru þessir flokkar ekki kosnir til að framfylgja okkar stefnu, heldur sinni, og víst er, að ef okkar stefna reynist hin rétta og jafnvel óumflýjanleg fyrir þá, er lýst höfðu sig henni andstæðasta, þá mun landslýðurinn fremur treysta okkur til framkvæmdar hennar en þeim, er ætið hafa barizt á móti henni.

Ég hirði ekki um að svara þeirri ásökun, að við sjálfstæðismenn unum okkur ekki án valdanna og í ráðherrastólunum. Enn síður kýs ég að svara fúkyrðum hæstv. forsrh. Hann fór rétt með fátt. T.d. vissi hann ekki, hversu lengi Alþingi hefur setið að þessu sinni. Ég segi ekki, að hann segi rangt frá því vísvitandi. Ég hygg hitt nær sanni, að hann fylgist svo lítið með þm. og þeirra tilveru, að hann hafi sagt þetta í góðri trú. Öðru ósannindapexi hans hirði ég ekki að svara, frekar en spjalli Lúðvíks Jósefssonar hér á Alþingi um hæð kvensokka. Slíkar orðræður kunna að vera einhverjum til skemmtunar, en þær skýra ekki þann eðlilega ágreining, sem er um lausn vandamála þjóðfélagsins. Lýðræðisþjóðfélag hvílir einmitt á því, að sjónarmiðin séu mismunandi og þar með skoðanirnar margar og hið rétta finnist einungis með því, að sem flestir beri ráð sín saman og að lokum verði það haft, sem sannast reynist; enginn einn sitji inni með alla speki eða hafi fundið algilda lausn allra þeirra vandamála, sem við er að etja hverju sinni.

Einræðissinnar, svo sem kommúnistar, þykjast aftur á móti hafa fundið slíka allsherjarlausn stjórnmálanna, og miðast störf kommúnista í öllum löndum við þá kenningu. Atburðirnir í Austur-Evrópu, ekki sízt Ungverjalandi á síðustu mánuðum, hafa sannfært menn um, hversu langt er frá, að þessi allsherjarlausn hins vísindalega sósíalisma hafi lánazt í framkvæmd. Fjarri fer, að þetta sé eina allsherjarbjörgunarkerfið, sem sannað hefur haldleysi sitt. Sama gerðist á enn áþreifanlegri hátt, þegar þúsund ára ríki Hitlers, sem hann hafði lofað einni mestu menningarþjóð heims, brann upp til agna eftir tæp 13 ár í þeim eldsloga, er einvaldurinn hafði sjálfur kveikt. Öll mannleg reynsla sýnir, að bezt fer á fyrir hvern og einn að beita nokkurri hógværð í dómum sínum og hegðun.

Munurinn á skoðunum okkar sjálfstæðismanna og andstæðinganna i efnahagsmálunum s.l. ár hefur einmitt fyrst og fremst lýst sér í því, að við sjálfstæðismenn höfum varað almenning við kenningunum um, að endanleg lausn efnahagsmálanna eða varanleg úrræði þeim til bjargar væru auðfundin. Við höfum bent á, að þar sem annars staðar mundi ætíð nokkur vandi verða fyrir hendi og ný og ný úrlausnarefni skapast. Viss meginatriði yrði þó að hafa í huga, eins og að atvinnuvegirnir gætu ekki látið af hendi meira en þeir öfluðu eða framleiddu. Ef þeir væru knúnir til þess að greiða meira, eins og smám saman hefur ágerzt hér á landi hin síðari ár og fór úr öllu hófi með verkfallinu mikla 1955, þá yrði með einu eða öðru móti að taka umframgreiðslurnar aftur af þeim, sem of mikið höfðu fengið, og láta það renna til atvinnuveganna á ný. Þangað til menn áttuðu sig á þessum einföldu undirstöðusannindum, yrði um að ræða stöðugar bráðabirgðaráðstafanir ofan á bráðabirgðaráðstafanir.

Þegar svo er komið sem hér var eftir verkfallið mikla 1955, er einungis um þrjár leiðir að ræða til að jafna metin: skatta eins og í fyrra og í miklu ríkari mæli nú, gengislækkun eða verðhjöðnun, sem fyrst og fremst lýsir sér í beinum kauplækkunum. Þetta er staðreynd, sem ekki verður umflúin. Þessi íhaldsúrræði, sem Hannibal Valdimarsson svo kallaði, eins og frægt er orðið, verður að velja, af því að enginn annar kostur er fyrir hendi. Hvert þeirra er valið, verður að miða við atvík hverju sinni, og í sjálfu sér skiptir ekki öllu máli, hver aðferðin verður ofan á, ef því er fullnægt, að undirstöðuatvinnuvegirnir endurheimta að lokum svo mikið, að atvinnu verði haldið uppi stöðvunarlaust og menn skilji, að raunverulegar kjarabætur geta hér ekki orðið nema fyrir framleiðsluaukningu.

Lausn efnahagsmálanna er nátengd lausn alls þjóðfélagsvandans, og þar tjá engin töframeðul né gylliloforð, heldur vinna, framtak, frelsi og samstarf.

Fyrir kosningarnar töldu andstæðingarnir þessar kenningar vera hinar fjarstæðustu og hömruðu á þeim sem algeru úrræðaleysi. Gagnstætt þeim vitnuðu þeir til hinnar fullkomnu endanlegu lausnar og varanlegu úrræða, sem þeir þóttust kunna full skil á. Til slíkra úrræða sögðust þeir ætla að fá atbeina verkalýðsins. Hið mikla framlag Hermanns Jónassonar til stjórnarforustunnar átti að vera að tryggja þann atbeina.

Ég skal sízt gera lítið úr nauðsyn þess að hafa fylgi verkalýðsins um lausn efnahagsmálanna. Gallinn er þó sá, að verkalýðurinn er engin samstæð heild, heldur sundurskildir einstaklingar, sem hver hefur sína kenningu um lausn þessara vandamála eins og annarra.

Ætla má, að næst réttri skoðun verkalýðsins, svo mikill hluti þjóðarinnar sem hann er, verði komizt við almennar þingkosningar, þar sem þjóðarviljinn í heild lýsir sér. Auðvitað kemur þessi vilji einnig að nokkru leyti fram í verkalýðsfélögunum, en ekki nema að nokkru leyti vegna þess, hvernig starfsemi þeirra og uppbyggingu er háttað.

Land okkar er eitt þeirra fáu vestan járntjalds, þar sem kommúnistar hafa náð úrslitaáhrifum í öflugustu samtökum verkalýðsins. Auðvitað beita kommúnistar því ofurvaldi í samræmi við sína sannfæringu, þá, að núverandi þjóðskipulag sé rotið og þurfi niðurrifs við. Þess vegna hefur íslenzku verkalýðshreyfingunni of oft hin síðustu ár verið beitt til upplausnar þjóðfélagsins, en ekki til framdráttar efnahag og heildarhagsmunum félagsmanna þeirra. Ég segi ekki, að þetta hafi verið gert í illri trú af forustumönnunum, heldur vegna þess, að þeir mátu trúna á allsherjarhjálpræðið meira en baráttuna fyrir daglegum hagsmunum verkalýðsins. Þetta afi og þessar skoðanir eru fyrst og fremst valdandi þess ójafnvægis, sem orðið hefur í íslenzku fjárhags- og efnahagslífi síðustu árin.

Vissulega er erfitt að finna lausn á þessum vanda. Hún er hvorki einföld né fljótfengin. Auðvitað hafa ýmsir séð, að í þessu er hægt að viðhafa skottulækningu, sem ef til vill linar sárindin í bili, en læknar ekki neitt, t, d. að friða upplausnarmennina um sinn með vegtyllum og völdum. Og þegar orðskrúðið er skafið af, þá er það sú leið, sem Hermann Jónasson valdi með myndun núv. hæstv. ríkisstj. En hver lækning er fólgin í slíku?

Hitt er seinfarnara, en óhjákvæmilegt, áður en yfir lýkur, að fræða hvern einstakan og þjóðina í heild um hið sanna samhengi hlutanna, að kenna mönnum að sjá í gegnum slagorðin og hinar fölsku kenningar, sem sumum er þó haldið fram í góðri trú. Með betri fræðslu og reynslu af ólíkum úrræðum læra menn smám saman, hvað hverjum einum er fyrir beztu.

Stjórnvizkan ætti að vera fólgin í því að forða þjóðinni frá þeim erfiðleikum, sem voru fyrirsjáanlegir, en oft er reynslan einasti skólinn, sem dugir, og svo virðist nú. Mennirnir, sem sögðust hafa allsherjarráð, hafa nú á sex mánuðum sannað, að þeir kunna þau ekki eða gátu a.m.k. ekki komið sér saman um þau, þegar á átti að herða. Almenningur hefur ekki einu sinni fengið vitneskju um, hvernig hún leit út, sú úttekt þjóðarbúsins, sem sérstakir erlendir sérfræðingar voru fengnir til þess að gera með aðstoð mikils hóps íslenzkra manna og fram átti að fara fyrir opnum tjöldum. Árangur úttektarinnar var aðeins ráðstafanir, sem bera með sér keim enn þá meiri bráðabirgðaráðstafana en nokkrar aðrar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í efnahagsmálunum fyrr eða síðar.

Í öllum þessum bráðabirgðaráðstöfunum er þó tvennt óhagganlegt: annars vegar játningin á því, að kaupgjaldið sé of hátt og þess vegna þurfi að gera millifærslu á 500 milljónum í þjóðarbúinu, eins og forsrh. segir, og hins vegar sá fyrirvari kommúnista, að játning þessarar staðreyndar haldist af þeirra hálfu einungis á meðan þeir sjálfir eru í ríkisstj.; þegar því sé lokið, skuli gamli leikurinn hafinn á ný.

Ég vil nú biðja hæstv. forseta afsökunar, — hann sendi mér boð um, að tíminn væri liðinn, og ég hafði ekki ætlað mér að fara fram yfir hann, en ég notaði of langan tíma til þess að svara því, sem sá, sem talaði næst á undan mér, fór fram úr, og vonast ég því til, að mér verði leyft að halda áfram, ef ég níðist ekki úr hófi fram á þolinmæði hæstv. forseta. Ég skal lofa að ljúka máli mínu eins fljótt og umsvifalaust og ég hafði búið mig undir.

Vel má vera, að annað hafi ekki verið framkvæmanlegt en það hámark bráðabirgðaráðstafana, sem ofan á varð. En alla grg. vantar um þörfina fyrir hinar gífurlegu skattaálögur, og sannleikurinn er sá, að enginn veit, hvað í raun og veru felst í lagaákvæðunum. Það er t.d. fyrst nú, sem sjútvmrh. upplýsir, að hann hafi gert mun betur við útgerðina en útgerðarmaðurinn Ólafur Thors hafi gert. Um þetta hefur stjórnin þagað hingað til. Það er einnig með öllu óvíst, hversu skattarnir eru miklir, og almenningur er óvirtur með því að láta svo sem 250 millj. kr. í nýjum sköttum sé hægt að jafna niður á landslýðinn, án þess að allur almenningur verði var við.

Þegar allt þetta kemur til, þá er eðlilegt, að ýmsum finnist fátt um, ekki sízt þegar við bætist, að þeir, sem verið er að gera gælur við með öllu þessu, yfirráðamenn Alþýðusambands Íslands og Dagsbrúnar, láta þau ummæli fylgja, að þeir sætti sig við þetta aðeins þangað til þeir sjá, hverju fram vindur; ef þeim líki ekki, þá sé hin gamla leið opin, þ.e.a.s. verkföll, nýr ófriður, ekki gegn atvinnuvegunum einum, heldur þjóðfélaginu í heild.

Þegar allt þetta er hugleitt, þá er árangurinn sannarlega harla rýr og verri en það, því að til þess að ná honum hefur þurft að leita um úrslitaráðin um málefni þjóðarinnar út fyrir hina fornhelgu sali Alþingis Íslendinga á þær slóðir, þar sem ofureflismenn, fullir af úreltum erlendum villukenningum, hafa öll ráð. Skapað er það fordæmi að láta ofbeldið eða hótanir um það ráða úrslitum, í stað þess að efla lýðræðið og þá hollustu við þjóðfélagið, sem ein leiðir til farsældar, þegar til lengdar lætur.

Hér kemur og til, að alþjóð veit, að þannig stendur nú á fyrir kommúnistum, að þeir áttu ekki margra kosta völ. Atburðarásin hefur gert að verkum, að þeir óttast mjög sundrung flokksins og algera einangrun. Um það þarf ekki að leita vitnis stjórnarandstöðunnar. Þetta hafa stjórnarblöðin, Tíminn og Alþýðublaðið, hvað eftir annað ítrekað á undanförnum mánuðum. Þess vegna var það, að kommúnistar féllust á að fresta um sinn lausn þess máls, er þeir ætið hafa talið mest um vert, sem sé brottför varnarliðsins frá Íslandi, en í áramótablaði sínu töldu þeir það vera mikilvægasta verkefnið. Þeir skýra sjálfir samþykkt frestunarinnar svo í Þjóðviljanum hinn 24. janúar:

„Þótt Alþýðubandalagið hafi staðið að frestun á viðræðum um brottför hersins, vegna þess að hinir stjórnarflokkarnir voru ekki andlega undir það búnir eins og á stóð í nóvembermánuði s.l., er afstaða þess gersamlega óbreytt.“

Svo mörg eru þau orð. En getur nokkur firrt sjálfan sig ábyrgð með því einu, að félagar hans séu „ekki andlega undir það búnir“ að gera rétt? Og ef það er satt, að þeir ætli að láta framkvæmd loforðanna vera komna undir „andlegum undirbúningi“ samstarfsmanna sinna, fær það þá staðizt, að afstaða Alþýðubandalagsmanna sjálfra sé gersamlega óbreytt? Þeir hafa raunar svarað þessari spurningu með því að hverfa frá framkvæmd ályktunarinnar frá 28. marz s.l. En þeir láta svo, að slíkt sé aðeins skamma stund, og áramótagrein Þjóðviljans lyktar svo:

„Það er stefna og loforð stjórnarinnar, að herinn verði látinn hverfa af landi brott, og á árinu 1957 verður að breyta því fyrirheiti í framkvæmd.“

Svo mörg eru þau orð. En í sama tölublaði Þjóðviljans segir Hannibal Valdimarsson á þessa leið:

„Sú stefna fær nú öflugan stuðning verkamannaflokksins brezka, sem berst af þrótti fyrir því, að allir erlendir herir verði sem fyrst látnir víkja úr Vestur-Evrópu. Fari svo, að þessi stefna sigri, sem ekki er ólíklegt, einkum þar sem flest bendir nú til, að jafnaðarmenn í Vestur-Þýzkalandi og Bretlandi taki við völdum, áður en langir tímar líða, þá yrði Rússum ekki lengi stætt á því að hafa áfram setulið í löndum Mið- og Austur-Evrópu. Þetta allt skyldu menn hugleiða, og þá munu þeir sannfærast um, að ástæðulaust er að óttast ævarandi herseta á Íslandi. Útlitið er þrátt fyrir alla skugga og hryðjur haustsins bjartara í þessum málum um þessi áramót en það hefur verið um langan tíma áður.“

Þetta sagði Hannibal Valdimarsson, og Lúðvík Jósefsson var litlu skeleggari hér áðan. Eftir þessum nýju yfirlýsingum er það þá orðið háð brottför allra erlendra herja úr gervallri Evrópu, að fylgja eigi eftir brottflutningi varnarliðsins frá Íslandi. Einhvern tíma hefðu kommúnistar talið, að ekki væri bjart fram undan í þessum málum, ef herinn ætti að sitja á Íslandi, þangað til þessu væri fullnægt. Hingað til hefur verið sagt. að við ættum að vera hin mikla fyrirmynd. Nú eigum við að lalla allra síðastir á eftir.

Málgagn sjálfs forsrh. fer og ekki dult með það öðru hvoru, að nú eigi ekki að veikja varnirnar, heldur styrkja þær, svo sem hinn 15. janúar þegar talað er um berum orðum, að sameiginlegar varnir eigi að treysta. Að vísu birtir Tíminn alltaf öðru hvoru ummæli þvert ofan í þetta, svo sem á þrettándanum, en ekki gerir það málið ljósara, ekki heldur sú ákvörðun utanrrh. að gera nú talsmann kommúnista í utanríkismálum á Alþingi, Finnboga R. Valdimarsson, að fulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Þetta er gert þvert ofan í allar fullyrðingar um, að kommúnistum verði alveg haldið utan við meðferð utanríkismálanna.

Það, sem hér skiptir máli, er, að enginn veit, hver hin raunverulega stefna hæstv. ríkisstj. í varnarmálunum eða utanríkismálunum yfirleitt er. Stjórnin hefur að vísu rofið sín fyrri fyrirheit. Það er að vissu leyti góðra gjalda vert, af því að þau fyrirheit horfðu þjóðinni til ills, en íslenzka ríkisstjórnin var eina stjórn Atlantshafsríkis, sem t.d. í ágúst s.l. taldi ástandið í heimsmálum slíkt, að hér mætti slaka á vörnum. Siðari atburðir urðu einungis til að bjarga henni frá því að gera sig að heimsviðundri, enda er fram komið innanlands og utan, að stjórnin hefur fengið sitt endurgjald. „Ísland lætur borga sér vel,“ var nýlega sagt í þýzku blaði um varnarsamninga ríkisstj. við Bandaríkjamenn. Þannig fer, þegar hentistefna er látin ráða, loforð eru gefin, sem ekki er hægt að standa við, hrópyrði eru notuð í stað raka, valdabarátta í stað leitar að raunverulegum vanda þjóðfélagsins.

Íslenzka þjóðin á kröfu til, að forustumenn hennar skýri frá vandanum, eins og hann er hverju sinni, reyni að ráða bót á honum í samræmi við fyrirheit sín, en leyfi þjóðinni sjálfri að dæma um, ef forsendur bregðast eða atvik breytast svo, að algerð stefnubreyting verður ekki umflúin.

Við sjálfstæðismenn teljum, að nú standi svo á, og þess vegna höfum við borið fram þá till., að þjóðin fái sjálf að skera úr um örlög sín.