04.02.1957
Sameinað þing: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (2590)

94. mál, þingrof og nýjar kosningar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það mun hafa verið á daginn fyrir Þorláksmessu, sem þessi þáltill. lá á borði alþingismanna, um það leyti sem jólasveinarnir voru að koma til byggða. Þegar ég sá fyrirsögnina á þessari þáltill., datt mér fyrst í hug, að jólasveinarnir hefðu lætt henni á borð alþingismanna. Það var raunar áður en ég sá, hverjir voru flutningsmennirnir, en þá varð mér ljóst mér til mikillar undrunar, að hún átti sér raunar önnur upptök.

Það hefur verið sýnt rækilega fram á í þessum umræðum, hversu fáránleg og tilefnislaus þessi þáltill. er. E.t.v. sýnir ekkert annað einstakt atvik betur en flutningur hennar það dauðans ofboð og ráðleysi, sem einkennir Sjálfstfl. um þessar mundir. Það hefur verið sýnt fram á, að það er hrein fjarstæða, að ríkisstj. hafi í nokkru brugðizt þeirri stefnu, sem hún setti sér við stjórnarmyndunina. Í efnahagsmálunum var því heitið bæði í kosningunum og við stjórnarmyndunina að leita að færum leiðum í samvinnu við stéttarsamtökin í landinu. Þetta hefur verið gert og samstaða hefur náðst um víðtækar ráðstafanir. Þetta er alger nýjung, ánægjuleg nýjung, og ekkert sýnir e.t.v. betur, að hér er um nýstárlegan atburð að ræða og þýðingarmikinn, en einmitt það, að þegar þetta skeði, trylltist stjórnarandstaðan alveg og kastaði fram þeirri furðulegu till., sem hér liggur fyrir.

Í varnarmálunum er fylgt þeirri stefnu, sem umbótabandalagið mótaði í kosningabaráttunni, að hér skuli ekki vera her á friðartímum, en á hinn bóginn varnir, ef alþjóðaástandið gerir það óhjákvæmilegt að dómi Íslendinga. Það, sem aðhafzt hefur verið, er í fullu samræmi við þessa stefnu.

Í kosningunum var því lýst yfir af hálfu umbótabandalagsins, að keppt væri að hreinum meiri hluta, en næðist hann ekki, þá yrði ekki stofnað til samstarfs við sjálfstæðismenn, heldur leitað samvinnu við alþýðusamtökin. Slíkri samvinnu var eftir kosningarnar, eins og á stóð, ekki hægt að koma á nema með því að leita samstarfs við Alþb., og þá var það gert.

Stjórnarandstaðan hefur viljað efna til umræðna í útvarpið um störf og stefnu ríkisstj. í sambandi við þessa þáltill. Þetta er gott og blessað, og hefur ekki verið undan því skorazt. En mundi ekki þarflegt að minnast um leið nokkuð á framkomu stjórnarandstöðunnar? Stjórnarandstaðan hefur gott af að minnast þess, að hún á að gjalda reikningsskap fyrir orð sín og athafnir engu síður en ríkisstj., enda mun hún ekki undan því komast að verða dæmd eftir orðum sínum og æði. Mun ég minnast þess fáeinum orðum, hvernig stjórnarandstaðan hefur gegnt sínu hlutverki.

Ég hygg, að leitun muni vera á furðulegri hringsnúningi en þeim, sem sjálfstæðismenn hafa leikið, síðan þeir komust í stjórnarandstöðu. Heita má, að þeir hafi snúið öllu við. Það, sem áður þótti gott, er nú fordæmt. Það, sem áður var ókleift, er nú talið auðvelt. Það er flestum ljóst, að Sjálfstfl. hefur yfir sér sauðargæru lýðskrums og yfirboða. Þessa gæru hefur hann að sjálfsögðu ekki tekið af sér, þegar hann fór úr stjórninni, en öll framkoman er líkust því, að gærunni hafi þess í stað verið snúið við og að það snúi nú út, sem áður sneri inn. Mun fáum finnast sú tilhögun gera flokkinn álitlegri eða meir aðlaðandi en áður. Mun ég færa að þessu nokkur dæmi, fyrst varðandi nokkrar fjárfestingarframkvæmdir og lántökur erlendis.

Á árunum 1954, 1955 og fram að stjórnarskiptunum leituðum við í fyrrv. ríkisstj. lána erlendis, fyrst til sementsverksmiðjubyggingar, sem búið var að heita að skyldi sitja fyrir öllu öðru, þá til ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs og 1955 og 1956 einnig til Sogsvirkjunarinnar, sem þá þegar var orðið aðkallandi að fá lán til. Allt varð þetta árangurslaust allan tímann, en Bandaríkjastjórn bauðst 1955 til þess að lána sem svarar erlenda kostnaðinum við sementsverksmiðjuna, þegar lántökutilraunirnar voru strandaðar. Ræktunarsjóði og fiskveiðasjóði var bjargað með greiðsluafgangi á ríkisbúskapnum, sem þó var ekki einu sinni fyrir fram áætlaður, en kom fram einungis fyrir það, að framsóknarmenn fengu því ráðið, að sæmilega varlega var gengið frá tekjuáætlunum fjárlaganna.

Á þessum árum fengust því ekki erlend lán til þessara stórframkvæmda. En verðbólgan geisaði og hækkaði kostnaðinn við þessar fjárfestingarframkvæmdir og aðrar um milljónir og milljónatugi á hverja framkvæmd og hundruð milljóna samtals. Afleiðing þessa varð sú, að við stjórnarskiptin í sumar. stóðu þessi mál þannig:

Sementsverksmiðjubyggingin var í fullum gangi samkvæmt fyrirskipun fyrrv. atvmrh., Ólafs Thors, en ekkert séð fyrir því, hvernig skyldi greiða innlenda kostnaðinn við framkvæmdina, sem nemur á milli 60 og 70 millj. kr.

Raforkuframkvæmdir í dreifbýlinu voru í fullum gangi, en fyrirsjáanlegt, að vantaði a.m.k. 20 millj. kr. upp í kostnaðinn við þær á því ári og 50–60 millj. kr. á þessu ári, sem nú er að byrja, ef áætlunina ætti að framkvæma eftir verksamningum.

Eins og undanfarin ár hafði verið sagt, að lánað yrði úr ræktunarsjóði og fiskveiðasjóði út á framkvæmdir í sveitum og bátakaup, en ekkert fjármagn var til handa þeim sjóðum og engar horfur á greiðsluafgangi hjá ríkissjóði vegna þess, hvernig ofþenslan og verðbólgan hafði leikið afkomu hans.

Enginn eyrir hafði fengizt til Sogsvirkjunarinnar, enda þótt ríkisstj. hefði reynt að útvega lán og Sogsvirkjunarstjórnin sömuleiðis. Kostnaður við Sogsvirkjunina var kominn upp undir 200 millj. kr. og öngþveiti fyrirsjáanlegt í raforkumálum höfuðborgarinnar og alls Suðvesturlands, ef ekki reyndist hægt svo að segja án tafar að útvega fé og gera samninga um innkaup á vélum til virkjunarinnar.

Þetta er aðeins um nokkur stærstu fjárfestingarmálin, sem ríkisvaldið hefur með höndum. En að öðru leyti er það um fjárfestingarmálin að segja, að þau voru komin í fullkomið öngþveiti vegna þeirrar gífurlegu fjárfestingaröldu, sem reist hafði verið, og þess fjárfestingaræðis, sem hafði gripið um sig vegna verðbólguhræðslunnar.

Verið er að reyna að greiða úr þessu öngþveiti, sem hlýtur þó að taka ærinn tíma og verða mjög erfitt verk. Einn þáttur í því verki er að reyna að útvega erlent lánsfé í þær framkvæmdir, sem fyrir verða að sitja og líklegt er að hægt sé að fá erlenda menn til þess að lána út á. En enginn skyldi halda, að hægt sé að útvega lán erlendis takmarkalaust og til hvers sem er, þótt nauðsynlegar framkvæmdir séu. Um það hafa Íslendingar glögga reynslu.

Fyrsti áfanginn í lántökumálunum var að fá 4 millj. dollara lán, sem svo að segja allt fór einungis til þess að greiða áfallinn kostnað við sementsverksmiðju, raforkuáætlun dreifbýlis og til ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs, upp í þegar veitt lán af bráðabirgðafé.

Þá er Sogsvirkjunin nýja og framhald rafmagnsframkvæmda dreifbýlisins og sementsverksmiðjunnar. Til þess að leysa Sogsvirkjunarmálið og halda áfram með rafmagnsáætlun dreifbýlisins með fullum hraða þarf stærra erlent lán en nemur öllum opinberum erlendum skuldum Íslendinga, eins og þær voru um stjórnarskiptin.

Þannig hefur verðbólgan leikið þessar framkvæmdir, á meðan þær hafa beðið. Er stöðugt verið að vinna að þessum lánsútvegunarmálum. Væri þá næst, þótt mögulegt reyndist að fá slíkt lán, sem ekki er hægt að fullyrða um í dag, að sjá fyrir erlendu lánsfé til togarakaupanna. Þá er ræktunarsjóður, fiskveiðasjóður og sementsverksmiðjan enn, og nefni ég þá aðeins fátt af því, sem verið er með í takinu.

Sjálfstæðismenn vita mjög vel, hvernig gekk að útvega erlent lánsfé undanfarið, og þeir vita vel, hvernig það verkefni var, sem núverandi stjórn tók við í fjárfestingar- og lánamálum. Þeim er það líka vel kunnugt, hvers þarf með til þess að leysa Sogsvirkjunarmálið og önnur stórmál, sem komin eru alveg í hnút. Samt sem áður skirrast þeir ekki við að gera nú auglýsingartill. um stórfelldar erlendar lántökur til ýmissa verkefna langt umfram þær, sem áður hafa fram komið, — till., sem eru hreinar skrumtill. og þeim hefði aldrei dottið í hug að gera og datt ekki í hug að gera, meðan þeir voru í stjórnaraðstöðu. Sannleikurinn er sá, að það er ekki hugsanlegt að koma nokkru viti í efnahags- eða framleiðslumálin, og það vita engir betur en framleiðendur bæði til lands og sjávar og vinnandi fólk yfirleitt, nema fjárfestingunni verði stillt meira í hóf en verið hefur um sinn.

Hugmyndir þær, sem ýmsir gera sér um, að hægt sé að framkvæma ótakmarkaða fjárfestingu fyrir erlent lánsfé, án þess að þjóðarbúið sporðreisist gersamlega, fá ekki staðizt. Það er hvorki mögulegt vegna þess takmarkaða vinnuafls, sem Íslendingar geta lagt fram, né heldur hugsanlegt að hafa nokkurs staðar ótakmarkaðan aðgang að erlendum lántökum. Það er eftirtektarvert í sambandi við framkomu sjálfstæðismanna í lánamálunum, að á sama tíma og þeir hvetja þjóðina til þess að byggja svo að segja allar framkvæmdir á erlendum lántökum, haga þeir þannig málflutningi sínum, að það hlyti að spilla fyrir Íslandi erlendis, ef nokkur tæki mark á því, sem þeir segja. Það er hluti af þeim þokkalega áróðri, að stjórnarandstæðingar hafa borið sér það í munn, að Íslendingar muni ekki hafa getað fengið 4 millj. kr. dollara lán nú í vetur nema með því að verzla með varnarmálin. Fyrir utan þjóðhollustuna, sem felst í þessum boðskap, og sannleiksgildið sýnir hann einnig samræmið eða hitt þó heldur, þar sem því er haldið fram í sömu andránni, að Íslendingar eigi að byggja svo að segja allar framkvæmdir sínar á erlendum lántökum, en því einnig slegið föstu, að lánstraust Íslendinga sé ekkert. Það er með mörgu móti hægt að gera sig broslegan.

Enginn skyldi þó halda, að það væri aðeins í þessum málum, sem stjórnarandstaðan hefur gert sig að viðundri með tvískinnungi sínum. Það væri efni í heila kvöldvöku að gera grein fyrir þeim undrum öllum, en aðeins örlítil upptalning gæti verið til glöggvunar.

Á meðan sjálfstæðismenn báru meðábyrgð á stjórninni, töldu þeir stöðvun kaupgjalds og verðlags alveg sérstaklega þýðingarmikla og útlátalausa fyrir almenning. En eftir að samkomulag náðist við stéttarsamtökin í fyrrasumar um stöðvun kaupgjalds og verðlags, hafa þeir af öllum kröftum reynt að gera slíka stöðvun tortryggilega í augum almennings, sérstaklega í augum bænda og verkamanna, og meira en það, þeir hafa reynt að beita áhrifum sínum alls staðar, þar sem þeir hafa getað, til þess að brjóta niður þessa stöðvun í framkvæmdinni. Þeir hafa talið það mikið afbrot, sjálfstæðismenn, að umbótabandalagið skuli vinna með Alþb., af því að kommúnistar séu með innan Alþb. Sjálfir reyndu þeir þó að ná samstarfi við Alþb. og kommúnista eftir kosningarnar í sumar. Þeir hafa deilt á núverandi ríkisstj. fyrir að draga viðskipti landsins austur á bóginn. Þó er það staðreynd, að þeir Ingólfur Jónsson, Bjarni Benediktsson og Ólafur Thors höfðu undanfarin ár haft forustu um að draga viðskiptin austur á bóginn, vafalaust af nauðsyn, og aldrei var Bjarni Benediktsson reiðari á þeim árum en þegar honum var borið á brýn, að hann gerði ekki allt, sem í hans valdi stæði, til þess að efla þau viðskipti sem mest.

En það er ekki nóg, að þeir deili á stjórnina fyrir, að hún hafi fært viðskiptin austur á bóginn, heldur rógbera þeir stjórnina líka fyrir að hafa tekið lán í Ameríku frá sömu stofnunum og fyrrverandi stjórnir höfðu fengið lán hjá.

Í fyrra rembdust sjálfstæðismenn við það eins og rjúpan við staurinn að sýna fram á, að það væri nauðsyn að leggja á miklar álögur vegna framleiðslunnar og þjóðin yrði að taka þeim álögum með skilningi. Nú úthrópa þeir ríkisstj. og stuðningsflokka hennar fyrir að afla fjár til að mæta auknum framleiðslukostnaði hjá höfuðatvinnuvegum landsins. Í fyrra úthúðuðu sjálfstæðismenn Þjóðviljanum fyrir að telja upp verðhækkanir, sem leiddi af álögunum, og fyrir að gera slíkar verðhækkanir tortryggilegar i augum landsmanna og gera þær að árásarefni á stjórnarflokkana. Nú gera þeir nákvæmlega það sama sem þeir álösuðu Þjóðviljanum þá mest fyrir að gera, flytja sjálfir nákvæmlega sams konar áróður um álögurnar vegna framleiðslunnar og Þjóðviljinn gerði þá. Þeir ráðast á þær ráðstafanir, sem nú eru gerðar í efnahagsmálum og vegna framleiðslunnar, og fordæma þær ekki sízt af því, að þær séu of líkar þeim ráðstöfunum, sem þeir sjálfir áttu meginhlutann af áður. Þykir mörgum skörin hafa færzt upp í bekkinn, þegar að þessum þætti kemur hjá hinni hörðu stjórnarandstöðu.

Þá væri það ef til vill ekki alveg út í bláinn, að stjórnarandstæðingar hefðu reynt að gera einhverja grein fyrir því, hvaða úrræði þeir hefðu á takteinum í efnahags- og framleiðslumálum, fyrst þeir eru svo ótrauðir við að fordæma þær leiðir, sem nú voru farnar í samráði við þýðingarmestu stéttarsamtök landsins.

Þá væri tæpast hægt að kalla það nokkra frekju, þótt þess væri krafizt, að þeir menn, sem svo er mikið niðri fyrir í svartasta skammdeginu, að þeir vilja endilega ákveða kosningar, þó að nýbúið sé að kjósa, gerðu mönnum grein fyrir því, hvað þeir hafa til málanna að leggja. En því er nú ekki að heilsa, að við því fáist svör, öðru nær. Í umr. hér í kvöld lýsti form. Sjálfstfl. því yfir, að stjórnin hefði séð svo um, að þeir gátu ekki gert tillögur í þessum málum, með því að leyna fyrir þeim skýrslum hagfræðinganna. Hafa menn nokkurn tíma heyrt aumari þrotabúsyfirlýsingu? Stærsti flokkur landsins ræður ekki yfir þeirri þekkingu, segir form. flokksins, að hann geti gert till. um efnahags- og framleiðslumál Íslands, af því að hann hafði ekki aðgang að álitsgerð erlends manns, sem dvaldi nokkrar vikur á Íslandi. Þetta er þá risið á forustu Sjálfstfl. núna. Þetta er þeirra eigin dómur um sjálfa sig eftir allt skrumið um hið mikilhæfa forustulið, sem fram að þessu hefur átt að vera landinu ómissandi. En þó að þeir játi sjálfir, að þeir séu ráðalausir og geti ekki gert till., þá telja þeir sig hafa þekkingu til að fordæma úrræði annarra og látast vilja kosningar, væntanlega ef heil brú er í hugsuninni — til þess að menn geti fengið þeim ráðin, sem ekkert hafa til málanna að leggja og lýsa því yfir sjálfir.

Í leit sinni að árásarefnum og fátækt í því efni hafa stjórnarandstæðingar hrakizt inn á þá braut að ráðast á Alþingi og starfsaðferðir þess. Þeir segja, að Alþingi sé sérstaklega starfslítið og afkastalaust. Þetta mæla þeir gegn betri vitund. Með þessum áróðri ætla þeir að hitta stjórnarflokkana, en þeir hitta Alþingi sjálft og draga úr réttmætri virðingu þess.

Vinnubrögðin í vetur á Alþingi hafa alls ekki verið með öðrum hætti en áður hefur tíðkazt við hliðstæðar aðstæður, nema þá helzt að því leyti, að Alþingi hefur komið óvenjulega miklu til leiðar á þeim tíma, sem það hefur setið í vetur. Alþingi hefur lögfest stórfelldar ráðstafanir í efnahags- og framleiðslumálum með víðtækari stuðningi en áður hefur þekkzt. Það hefur sett löggjöf um togara- og skipakaup, sem vonandi á eftir að valda straumhvörfum í atvinnulífi margra byggðarlaga í landinu, og hafa sex stór fiskiskip þegar verið keypt. Alþingi vinnur nú af kappi að afgreiðslu fjárlaga og undirbúningi nýrra lagabálka, sem ekki var hægt að starfa að, fyrr en ráðstafanir í efnahagsmálum voru ákveðnar. Það er ekkert nýtt, þó að þingfundir séu langtímunum saman stuttir, og er oft mest unnið á Alþingi, þegar þannig er ástatt. Þá er unnið í flokkunum að undirbúningi stóru málanna eða í nefndunum, svo sem að fjárlögum í fjárveitinganefnd.

Flutningur þessarar þáltill. er sannast að segja ömurlegur leikaraskapur, ef þetta er allt skoðað í réttu ljósi. Þessi þáltill. er auðvitað flutt í því trausti, að hún verði ekki samþykkt, því að vitaskuld dylst það engum manni, að afstaða Sjálfstfl. og framkoma hans er þannig, að það væri verst fyrir flm. sjálfa, ef hún væri samþykkt. Flm. hennar dettur ekki í hug sjálfum, að framkoma þeirra í stjórnarandstöðunni hafi aukið traustið á þeim eða því, sem þeir hafa upp á að bjóða. Ef stjórnarstuðningsmenn vildu gjalda í sömu mynt og taka þátt í þessum leikaraskap, ættu þeir að samþykkja till. sem eins konar hrekk við flm. En það er ekki hægt að hafa þjóðina þannig að leiksoppi í pólitískum hráskinnaleik, og þess vegna verður þessi till. vitaskuld felld.

En fyrir hverja tala sjálfstæðismenn, þegar þeir koma fram með þáltill. eins og þessa og tala eins og þeir hafa talað fyrir henni? Það er nýbúið að gera víðtækar ráðstafanir í þýðingarmestu málum landsins með svo að segja allsherjar samkomulagi, óvenju víðtæku samkomulagi. Þá koma sjálfstæðismenn og segja: Það hefur verið farið aftan að mönnum, og það á að kjósa. Fyrir hverja tala þeir þá? Ekki tala þeir fyrir bændur. Ekki tala þeir fyrir verkamenn, fiskimenn eða launamenn yfirleitt. Það voru höfð samráð við samtök þessara stétta um úrlausn höfuðmálanna. Ekki tala þeir fyrir framleiðendur við sjávarsíðuna, því að einnig við þeirra samtök náðist samkomulag. Fyrir hverja tala þeir þá? Hverjir eru það, sem eru svo órólegir, að forusta Sjálfstfl. sér ekki annað fært en að leika þessa kómedíu — liggur mér við að segja — hér á Alþingi. Við vitum, að sérhagsmunaöflin í Sjálfstfl., þau sem raunverulega ráða flokknum, eru óánægð og óróleg og að það mæðir á leiðtogum flokksins og þarf sennilega að fá einhverja útrás. En það eru engin rök fyrir því, að steypa beri þjóðinni út í nýja kosningabaráttu algerlega að ófyrirsynju. Sjálfstæðismenn mega vita það fyrir víst, að meginþorri landsmanna álítur það miklu nauðsynlegra, að ríkisstj. og Alþingi hafi vinnufrið við viðreisnarstörf sín, en að efnt verði til nýrrar kosningabaráttu alveg út í bláinn. Þessi þáltill, er því vindhögg og kemur flm. sízt að nokkru haldi, en hefur gefið ríkisstj. kærkomið tækifæri til þess að skýra stefnu sína og framkvæmdir í áheyrn alþjóðar og sýna úrræðaleysi stjórnarandstöðunnar. — Góða nótt.