04.02.1957
Sameinað þing: 24. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (2591)

94. mál, þingrof og nýjar kosningar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Lítill vafi er á því, að nú við lok þessara umr. óska leiðtogar Sjálfstfl. þess í hjarta sínu, að þeir hefðu látið vera að efna til þeirra. Sókn þeirra á hendur ríkisstj. hefur snúizt upp í vörn, og hún hefur sannarlega ekki farið betur úr hendi en efni stóðu til.

Hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, sagði, að ég hefði áðan talað í 10 mínútur umfram tíma minn. Ræða mín var þó aðeins fjórum mínútum lengri en henni var ætlað að vera, en hann notaði hins vegar átta mínútur umfram sinn tíma til þess að svara, og finn ég ekkert að því. Þær mínútur, sem ég ofnotaði áðan, mun ég draga frá þessum tíma.

Hver hefur verið kjarninn í ádeilu Sjálfstfl. á ríkisstj. í þessum umr.? Hann hefur verið sá, að hún hafi svikið gefin loforð. Ræðumenn Sjálfstfl. hafa sagt, að ríkisstj. sé í rauninni ekki að gera neitt nýtt, úrræði hennar séu gömul og nánast stefna Sjálfstfl. En er þá ekki ástæða til þess að spyrja: Hvers vegna eru mennirnir þá ekki ánægðir? Hvers vegna hafa þeir allt á hornum sér? Hvernig geta þeir verið óánægðir með stjórn, sem þeir segja sjálfir að sé í rauninni ekki að gera annað en þeir hafi gert áður? Ef stefna núverandi ríkisstj. er ósköp lítið frábrugðin stefnu fyrrverandi ríkisstj., hljóta ádeilur á stjórnina, sem nú situr, einnig að hitta fyrrverandi stjórn. Leiðtogar Sjálfstfl. eru þá með öðrum orðum að deila á sjálfa sig. En ýmsum mun finnast, að þeir gætu látið öðrum það eftir. Og hvers vegna er Sjálfstfl. að krefjast kosninga, ef verið er að framkvæma hans eigin stefnu, stefnu stjórnarandstöðunnar? Um hvað á þá að kjósa?

Þessi málflutningur Sjálfstfl. er svo fráleitur, að það er nánast spaugilegt. Aldrei áður hefur stjórnarandstaða gert sig svo hlægilega að deila á ríkisstj. fyrir að framkvæma stefnu stjórnarandstöðunnar.

Ástæða þess, hve leiðtogum Sjálfstfl. ferst klaufalega í andstöðu sinni, er þó ekki aðeins sú, að þeir séu ekki fyllilega búnir að jafna sig eftir valdamissinn, sem þeim virðist hafa fallið óskiljanlega þungt og hafi ruglað þá furðulega mikið í ríminu, heldur eru þeir með þessu að reyna að beina athygli almennings frá því, að þeir hafa bókstaflega engin úrræði bent á til annarrar lausnar á vandamálum útflutningsframleiðslunnar en þeirrar, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir.

Sérstök ástæða er til að ræða eitt veigamikið atriði í málflutningi bæði Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar nú í kvöld. Þeir töluðu í sífellu um tekjuöflunina til útflutningssjóðs sem álögur á þjóðina, sem óbærilegar álögur á almenning, og Ólafur Thors var jafnvel að leika sér að því að reikna út, hvað þessar álögur séu miklar á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu eða á hvert mannsbarn, barnið í vöggunni sem gamalmenni.

Þessi áróður er svo lágkúrulegur, að hann er víðs fjarri því að vera samboðinn viti bornum stjórnmálamönnum. Ræðumenn Sjálfstfl. töluðu eins og ríkisstj. láti almenning borga 230–240 millj. kr. og taki peningana og fleygi þeim í sjóinn eða komi þeim á einhvern hátt fyrir kattarnef. Um leið og ræðumenn Sjálfstfl. fjargviðrast út af hinum svokölluðu álögum, þegja þeir vandlega um, hvað við þetta fé er gert. Þeir þegja um, að það er notað til þess að auka tekjur sjómanna, bænda, verkamanna og annarra starfsmanna við útflutningsframleiðsluna, svo að þetta fólk hafi sambærilegar tekjur við aðrar stéttir, og til þess að greiða tap á útgerðinni, sem auðvitað verður alltaf greitt á einhvern hátt. Í slíkri tekjuöflun felast því auðvitað engar álögur á þjóðina í heild. Það, sem er gjöld fyrir einn, verður tekjur fyrir annan. Hér er aðeins verið að færa fé milli stétta í þjóðfélaginu, rétt eins og þegar maður tekur peninga úr einum vasa og stingur þeim í annan. Á því verður enginn maður hvorki ríkari né fátækari.

Að svo miklu leyti sem tekjurnar eru notaðar til fjárfestingar, má þó segja, að þær séu byrðar á þá kynslóð, sem sparar tilsvarandi fé. En svo einkennilega vill til, að Sjálfstfl. telur einmitt of lítinn hluta tekjuöflunarinnar ganga til fjárfestingar. Um leið og hann reynir að vekja óánægju út af þeirri tekjuöflun, sem alls ekki felur í sér neinar byrðar fyrir þjóðarheildina, krefst hann þess, að tekjurnar séu notaðar þannig, að þær verði raunveruleg byrði. Þannig er allt á eina bókina lært hjá stjórnarandstöðunni. Það er ekki heil brú í málflutningnum.

Ein af hrakspám Sjálfstfl. í sambandi við stjórnarmyndunina var sú, að nú yrði allt viðskiptalíf lagt í haftafjötra. Hafið þið, hlustendur góðir, orðið varir við ný höft á viðskiptum? Fyrir nokkrum dögum var ríkisstj. og innflutningsskrifstofan að gera ýmsar breytingar á framkvæmd innflutningsmálanna. Þær voru ekki fólgnar í því að takmarka innflutning með höftum, eins og stjórnarandstaðan hafði spáð. Hinn svokallaði frílisti var ekki skertur. Samhliða ströngu verðlagseftirliti munu .verða gerðar ráðstafanir til þess að auka heilbrigða samkeppni.

Það er ekki ríkisstj., sem hefur reynzt málsvari hafta og einokunar í viðskiptamálum, heldur þvert á móti stjórnarandstaðan. Hún hefur nefnilega snúizt harkalega gegn því, að afnumin verði þau höft og sú einokun, sem ríkt hefur í útflutningsverzluninni. Þótt Sjálfstfl. sé sífellt með verzlunarfrelsi og frjálsa samkeppni á vörunum, þá kærir hann sig ekkert um hana í framkvæmd, þegar gæðingar hans geta hagnazt á ófrelsi og einokun.

Spaugilegast af öllu er þó það, þegar sjálfstæðismenn kalla ráðstafanir ríkisstj. íhaldsúrræði. Eru það íhaldsúrræði að hafa náið samstarf við launþegasamtökin og samtök vinnandi framleiðenda? Hvers vegna beitti Sjálfstfl. sér þá ekki fyrir því? Eru það íhaldsúrræði að taka upp strangt verðlagseftirlit? Eru það íhaldsúrræði að lækka skatta á lágtekjumönnum og leggja stóreignaskatt á þá ríkustu? Eru það kannske íhaldsúrræði að efla byggingu verkamannabústaða? Eða telst það til íhaldsúrræða að breyta skipulagi bankamálanna þannig, að ekki verði um pólitíska misnotkun þeirra að ræða? Finnst mönnum það vera íhaldsúrræði að afnema einokun og ófrelsi í útflutningsverzluninni til þess að tryggja sjómönnum og útvegsmönnum sem réttast fiskverð ?

Þetta er það, sem ríkisstj. er að gera, en Sjálfstfl. lét ógert, hefði aldrei fengizt til að gera og hefur meira að segja ávallt komið í veg fyrir að væri gert í þeim ríkisstj., sem hann hefur átt sæti í.

Nei, leiðtogum Sjálfstfl. og helztu máttarstólpum hans væri ekki jafnórótt og þeim er, ef þeir teldu, að ráðstafanir ríkisstj. væru íhaldsúrræði. Þeir eru jafnmiður sín og raun ber vitni af því, að þeir vita, að það, sem ríkisstj. er að gera og ætlar að gera, miðar að því að koma í veg fyrir brask og sukk og óheilbrigða gróðamyndun.

Ríkisstj. hefur sett sér það mark að vinna bug á verðbólgunni og illum afleiðingum hennar. Hún vill tryggja verðgildi peninganna. Hún vill bæta lífskjörin með því að auka framleiðsluna. Hún vill tryggja stöðuga atvinnu og vinnufrið. Hún vill, að allt vinnandi fólk fái í sinn hlut sannvirði þess, sem það aflar, en að enginn hljóti gróða af óheilbrigðri milliliðastarfsemi, einokun, braski eða spákaupmennsku. Að þessu mun ríkisstj. vinna. Hún heitir á alla frjálslynda Íslendinga að styðja þennan málstað og stuðla að því, að íslenzkt þjóðfélag verði frjálst og réttlátt menningarríki, mótað af hugsjón jafnréttis og samvinnu, að það verði heimkynni bjargálna og farsæls fólks. — Góða nótt.