16.11.1956
Sameinað þing: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (2597)

44. mál, kosning manna til að semja um endurskoðun varnarsamningsins

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. notaði mjög verulegan hluta af sínum ræðutíma til þess að ræða um till. þá, sem afgr. var hér áðan, að því er mér bezt skildist.

Ég hafði undir umr. um þá till. gert mjög greinilega og ýtarlega grein fyrir því, hver afstaðan væri til varnarmálanna og endurskoðunar varnarsamningsins. Ég veit, að þegar þessir hv. þm. fara í betra næði að athuga það, sem ég sagði undir þeim umr., þá muni þeir sannfærast um, að þar er svo skýrt og greinilega tekið á hlutunum, að ekki er um að villast, hver stefnan er.

Út af þeim efasemdum, sem bæði hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. G-K. hafa verið með um það, hvort sú stefna, sem ég túlkaði hér áðan, væri raunverulega stefna ríkisstj. eða ekki, vil ég taka það fram, að sjálfur hef ég enga ástæðu til að efast um, að það sé stefnan, og sjálfur ætla ég mér ekki að taka þátt í því að halda á málunum á annan veg en þar er lýst yfir. Það er sú stefna, sem ég mun fylgja og fara eftir, á meðan ég fjalla um þessi mál.

Það hefur verið kvartað undan því hér, að við höfum ekki gert grein fyrir því, hvernig málsmeðferðin mundi verða efnislega í sambandi víð viðræðurnar við Bandaríkjamenn um endurskoðun varnarsamninganna. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, að það hefur verið venja hingað til að gera ekki opinberlega grein fyrir því, hver efnisleg afstaða yrði við slíka samninga, áður en til þeirra hefur verið stofnað. Ég vil minna á, að Sjálfstfl. átti aðalþáttinn í Keflavíkursamningnum 1946 og hann hafði forustuna um varnarsamninginn 1951. Flokkurinn taldi sér þá ekki skylt og það hefði heldur ekki verið rétt að gera neina grein fyrir því opinberlega, áður en til samninganna var gengið, um hvað væri verið að semja, og það var ekki einu sinni skýrt frá því, að um þessa hluti væri verið að semja, fyrr en búið var að ganga frá samningunum.

Þessi skilningur og þessi afstaða verður líka að teljast rétt og hyggileg. Það er ekki skynsamlegt, áður en til samninga eins og þessara er gengið, að vera búinn að tilkynna það opinberlega, þótt ekki sé nema í höfuðdráttum, hvaða kröfur og hvaða till. verði fram lagðar við samningaborðið. Það væri ekki sanngjarnt gagnvart mótaðilanum að hafa það fastbundið, og það væri ekki heppilegt til farsællar úrlausnar á málinu.

Annars skal ég snúa mér að þeirri till., sem hér liggur fyrir. Það er lagt til í henni, að Alþingi kjósi 5 menn til þess undir forustu utanrrh. að semja um endurskoðun á varnarsamningnum. Ef þessi till. yrði samþ. og nefndin kosin, þá yrði hún þannig skipuð, að í henni ættu sæti 2 framsóknarmenn, 2 sjálfstæðismenn og hlutkesti réði um það, hvort 5. maðurinn yrði frá Alþb. eða Alþfl. Nefndin mundi því verða þannig, að stjórnarandstaðan hefði þar 2 fulltrúa, en hlutkesti réði, hvor af tveimur stjórnarflokkunum ætti þar mann.

Ég get ekki við slíkri till. tekið, og ég treysti mér ekki til að setjast að samningaborðum við Bandaríkjamennina með nefnd, sem þannig væri til komin.

Ég vil minna á það, að á undanförnum árum, þegar um þessi mál hefur verið samið við Bandaríkjamenn, var ekki sá háttur á hafður, að Alþ. kysi í samninganefnd. Árin 1946, 1949, 1951 og 1954 var samið við Bandaríkjamenn um þessi mál. Það var aldrei og af engum farið fram á það, að Alþ. skyldi kjósa þá nefnd, sem um þá samninga fjallaði.

Hér er því verið að brjóta út af venju, sem hefur myndazt og verið fylgt í öll þau skipti, sem við höfum um þessi mál samið, og ég tel slíkt ekki heppilegt og ekki rétt. Það er á það minnzt í grg., að þegar varnarsamningurinn 1951 var gerður, hafi stjórnarflokkarnir haft um það samvinnu við Alþfl., sem var í stjórnarandstöðu, og ég af hálfu Alþfl. tekið þátt í þeim samningavíðræðum. Þetta er alveg rétt, en þá stóð að verulegu leyti öðruvísi á en nú. Þegar gengið var að samningaborðinu um varnarsamninginn sjálfan 1951, höfðu þessir 3 flokkar komið sér saman um, að við skyldum taka við varnarliði til landsins. Verk samninganefndarmanna var því að fylla út þann ramma, sem um þetta ætti að gilda. Það var samstaða hjá flokkunum um málið.

Eins og varnarmálin standa núna, þá vita allir, að um þau hafa verið harðar deilur að undanförnu, og það hefur ekki verið um þau samstaða á milli stjórnmálaflokkanna. Ef sú samstaða væri fyrir hendi nú, þá teldi ég rétt og sjálfsagt, að allir þeir flokkar, sem þátttakendur í þeirri samstæðu ættu, væru með í samningunum. En því er ekki til að dreifa nú, og þess vegna tel ég ekki fært að fara þessa leið.

Ég leyfi mér því að leggja til, að þessi tillaga verði afgreidd með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Með því að það hefur verið venja og þótt eðlilegt, að tilnefning nefnda sem þessarar væri í höndum ríkisstj., sér Alþingi ekki ástæðu til frekari afskipta af málinu og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“