12.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

Rannsókn kjörbréfa

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hv. 1. þm, Eyf. var að tala um það hér áðan, að nú væri komið á þriðja dag þingsins, og honum fannst umr. vera orðnar nokkuð langar. Ég vil nú minna á það, að fyrsta daginn hlýddu þm. á messu, og ég býst við, að mönnum sé í minni sérstaklega sá boðskapur þar, sem presturinn hafði eftir spámanninum og sagði: „Komum nú og eigumst lög við.“ Mér finnst, að framsóknarmenn mættu vel vera þessa minnugir, þegar ekki er lengra frá liðið, og þreytast ekki strax á því að eigast lög við hér í þingsölunum. Þeir eru að vísu því vanir að leiða þann vanda hjá sér að eigast lög við víða í þessu landi, heima í héruðum og ekki sízt í kjördæmum, þegar kosningar standa fyrir dyrum, en þeir komast ekki hjá því, a. m. k. meðan einhver snefill er eftir af þingræði hér, að eigast nokkuð lög við í þingsölunum, a. m. k. um jafnveigamikið og umfangsmikið mál og hér er um að ræða.

Þó að það snerti ekki þetta mál, dettur mér í hug í þessu sambandi, að þeir framsóknarmenn mættu reyndar muna margt meira, sem presturinn sagði við þingsetninguna, eins og þegar hann lýsti því yfir, að hann tryði því, að það hefði verið mikil gleði á himnum, þegar lögin um almannatryggingar voru samþykkt á Alþingi. Ég man ekki betur en að það hafi viljað þannig til, að þegar þau voru samþykkt hér á Alþingi, hafi það verið framsóknarmenn, sem beittu sér fyrir því í báðum deildum þingsins, að málinu væri vísað frá og næði þá ekki fram að ganga. Yfir þeim verknaði hefur sennilega verið glaðzt einhvers staðar annars staðar en á himnum.

1. þm. Eyf. tók bara upp í sig töluvert og sagðist þverneita því, að kjósendum hefði verið skipað að kjósa, Ja, það er hægt að standa hér af hálfu framsóknarmanna og þverneita því, að kjósendum hafi verið skipað að kjósa. En bæði kjósendur almennt og við þm. vitum töluvert annað í þessum efnum. Við þekkjum mýmörg dæmi. Það er hægt að nefna nöfn, þar sem ráðamenn Framsfl. heima í héruðum hafa látið í ljós við menn, að það kæmi aldrei til greina, að þeir létu skipa sér að kjósa þennan og þennan frambjóðanda. Ég get nefnt hér mann eins og Gunnar Guðbjartsson á Hjarðarfelli í Snæfellsnessýslu, bónda, sem þar hefur af framsóknarmönnum verið talinn merkur maður og líklegur til framboðs, sem viðhafði þau orð hér í Reykjavík við mann, að það kæmi aldrei til greina, að Snæfellingar létu skipa sér að kjósa Alþýðuflokksmann. Það var líka altalað á Siglufirði, að bæjarstjórinn, Jón Kjartansson, ætlaði sér að fara til útlanda, meðan á kosningunum stæði, til þess að hann þyrfti ekki að leggja á sig þá raun að standa í því að láta skipa sér að kjósa annars flokks frambjóðanda. (Gripið fram í.) Ja, það er hægt að færa alveg fullar sönnur á þetta, og Bernharð Stefánsson getur leitað upplýsinga hjá þessum sömu mönnum. En hvað gerðu svo þessir menn? Nei, Jón Kjartansson fór ekki til útlanda. Hann lét skipa sér. Og meira en það, að hann léti skipa sér sjálfum að kjósa, heldur gekk hann manna mest fram í því að skipa öðrum, öðrum framsóknarmönnum á Siglufirði, að kjósa aðra en þeir vildu hafa kosið. Og sama gerði Gunnar Guðbjartsson í Snæfellsnessýslu, því að þessi maður, sem sagt hafði hér í Reykjavík, að hann léti ekki skipa sér að kjósa Alþýðuflokksmann í Snæfellsnessýslu, fór heim í hérað og reið um héraðið til þess að skipa öðrum flokksbræðrum sínum að kjósa Alþýðuflokksmann.

Sannleikurinn er sá, að Framsfl. skarar langt fram úr öllum öðrum flokkum á Íslandi og líklega í heimi í einu og það er að skipa kjósendum sínum að hlýða. Hann hefur algera sérstöðu í því að skipa kjósendum sínum að hlýða, og þetta er að vissu leyti skiljanlegt, þegar athugað er, að hér er um að ræða harðsvíraða valdaklíku, sem hefur sterkasta peningavald og viðskiptavald landsins að baki sér.

Annars er það eftirtektarvert í þessum umræðum, sem snúast um það, hvort 4 frambjóðendur í síðustu alþingiskosningum eigi löglega rétt á þingsæti hér eða ekki, að þm. Hræðslubandalagsins vilja vera sem fáorðastir og jafnvel helzt ekki ræða málið. Hér er þó um að ræða stóralvarleg svikráð, þar sem tveir stjórnmálaflokkar bindast samtökum um það að reyna að sölsa til sín miklu fleiri þingsæti en atkvæðatala þeirra segir til um, þvert ofan í anda og tilgang stjórnarskrár og kosningalög,

Það er skylda Alþ. að kveða upp síðasta úrskurðinn í slíku máli, og það verður fyrsta prófraun þessa Alþ., hvort það hefur manndáð og réttlætiskennd til þess að hnekkja framgangi svikráðanna, eftir að mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur fordæmt kosningasvik Hræðslubandalagsins, því að það er staðreynd, að 3 stjórnmálaflokkar hafa áður kveðið upp áfellisdóm sinn yfir kosningasvikunum, þ. e. Sjálfstfl., Alþb. og Þjóðvfl., en samtals hlutu þessir flokkar, eftir að hafa markað þessa afstöðu sína, samtals nærri 2/3 allra atkvæða, eða 66.1%.

Í framsöguræðum sjálfstæðismanna hafa þessu máli verið gerð þegar mjög ýtarleg skil, en ég mun víkja að ýmsum þeim atriðum, sem fram hafa komið í umr. Það verður ekki sagt, að Hræðslubandalagið hafi valið af verri endanum að fela hv. 1. þm. Eyf. (BSt) það hlutverk að verja málstað sinn í þessum umr. Ég hef oft haft ánægju af því að hlýða á rökfastar ræður þessa hv. þm. og góðan málflutning, en því raunalegra var að hlýða nú á, hversu gersamlega mikil ofraun það er honum að réttlæta þær misgerðir, sem hér hafa verið hafðar í frammi.

Ég skal fara lauslega yfir helztu málsvarnir, sem fram hafa komið í ræðu hv. 1. þm. Eyf. Hann heldur því fram, og í sama streng tók hv. þm. Ak., að samkvæmt atkvæðamagni því, sem Alþfl. hlaut í kosningunum, beri honum hin fjögur umdeildu uppbótarþingsæti. En mér er spurn: Er það ekki ómótmælanleg staðreynd, að í þessu svokallaða atkvæðamagni Alþfl. eru þúsundir atkv. framsóknarmanna, 5–7 þúsundir eða eitthvað þar um bil, eftir því sem næst verður komizt og þessir aðilar sjálfir hafa látið í ljós í blöðum sínum? Og ætla menn, að nokkrum dyljist í raun og sannleika þau óljósu svikráð eða þau ljósu svikráð, sem í því felast að nota þessi atkvæði Alþfl. við úthlutun uppbótarþingsæta „til jöfnunar milli þingflokka“, eins og segir í 21. gr. stjórnarskrárinnar um úthlutun þeirra?

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að það væri einkum Sjálfstfl., sem vildi vefengja, að þessir 4 Alþýðuflokksmenn eigi rétt til uppbótarþingsæta. Þetta er mikill misskilningur, sem þegar hefur verið bent á í þessum umr., en ég skal árétta nokkru nánar.

Þegar umboðsmenn Sjálfstfl, kærðu fyrir landskjörstjórn kosningasvik Hræðslubandalagsins og kröfðust þess, að við úthlutun uppbótarþingsæta væru atkv. Framsfl. og Alþfl. talin saman, þá tóku bæði umboðsmenn og fulltrúar Alþb. og Þjóðvfl. undir þá kröfu, og málgögn þessara flokka margítrekuðu þá skoðun sína, bæði áður en landskjörstjórn felldi sinn úrskurð og eftir og allt fram að kosningum, að það væri algerlega ólöglegt að úthluta Hræðslubandalaginu uppbótarþingsætum öðruvísi en að telja atkv. Alþfl. og Framsfl. saman. Þó að á sumt af þessu hafi verið þegar minnzt, þá er af meiru að taka, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, minna á nokkur ummæli úr málgagni kommúnista, sem var aðalstuðningsblað Alþb., um kosningasvik Hræðslubandalagsins.

Í forustugrein Þjóðviljans 5. júní og eftir að úrskurður hafði verið felldur í landskjörstjórninni, er því haldið fram, að Hræðslubandalagið sé sekt um stjórnarskrárbrot með framboðum sínum, og um kosningasvikin segir þar m. a. orðrétt: „Tilraun Hræðslubandalagsins að fara í kringum stjórnarskrá landsins og hrifsa til sín mun fleiri þingsæti en því ber hefur vakið fordæmingu. Er bröltið með atkvæðaverzlun Eysteins Jónssonar og Gylfa Þ. Gíslasonar orðið uppvíst hneyksli.“ — Enn fremur segir í sama málgagni 30. maí, þar sem þessum atburðum er nokkru nánar lýst. „Nú hefur sem kunnugt er“ — og þetta eru orð úr einu af stuðningsblöðum núverandi hæstv. ríkisstjórnar — „verið búin til áætlun um stórfelldari misbeitingu á göllum kosningalaganna en dæmi eru til áður. Framsóknarleiðtogarnir hafa fengið með sér í brallið hægri klíku Alþfl., sem var þess ómegnug að ganga til kosninga ein og óstudd og horfðist í augu við feigð sína. Bjuggu þessir aðilar til áætlun um að reyna að ræna meiri hluta þm. út á mikinn minni hluta kjósenda. Skyldi Framsfl. hirða eins marga kjördæmakosna þm. og unnt væri út á lágmark atkv., en Alþfl. hremma sem flesta uppbótarþingmenn og fá í því skyni afhent 5–6 þús. framsóknaratkvæði.“ Auðvitað var hér um að ræða hreint brot á anda og tilgangi stjórnarskrár og kosningalaga, og sýnir tiltækið, hversu fjarlægir ráðamenn Hræðslubandalagsins eru orðnir undirstöðuatriðum lýðræðisins. Þetta er dómur samverkamanna þeirra núna í hæstv. ríkisstj. um það, hversu fjarlægir ráðamenn Hræðslubandalagsins eru orðnir undirstöðuatriðum lýðræðisins. — Og enn segir í þessu sama málgagni 29. júní: „Nú er keppzt við að hugsa upp brellur og hrekkjabrögð til þess að stela þm. þvert gegn vilja kjósenda. Slíkar aðstæður eitra stjórnmálalífið á Íslandi og gera það að fullkomnum skrípaleik, og við svo búið má ekki lengur standa.“

Þetta eru nokkur af ummælum, sem birtust á þessum tíma í málgagni Alþb., og þetta eru ófagrar lýsingar á aðförum Framsfl. og Alþfl. í Hræðslubandalaginu. Og það er sannað, að það voru sannarlega fleiri en sjálfstæðismenn og eru fleiri, sem halda því fram með fullri einurð, að þau umdeildu uppbótarþingsæti, sem hér um ræðir, tilheyrðu sannarlega ekki Hræðslubandalaginu.

Hv. 1. þm. Eyf. og reyndar aðrir málsvarar Framsfl. og Hræðslubandalagsins fyrr og síðar hafa viljað halda því fram, að Hræðslubandalagið væri nákvæmlega sams konar bandalag og gert hefði verið milli Sjálfstfl. og Bændafl. 1937, og mikill hluti af síðari ræðu hv. 1. þm. Eyf. hér áðan hné að þessu. Þetta fær engan veginn staðizt og verður bezt afsannað með því að viðhafa skilgreiningar ráðamanna Framsfl. sjálfs á þessu bandalagi, áður en kærumálin hófust fyrir landskjörstjórn.

Í Tímanum 24. apríl eru þessi orð höfð eftir formanni þingflokks Framsfl., hæstv. fjmrh. Eysteini Jónssyni, sem hann er sagður hafa sagt í ræðum bæði í Hafnarfirði og Borgarnesi og hafa ekki verið leiðrétt. Það er orðrétt þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Hreinn meiri hluti þessara flokka“ — þ. e. Hræðslubandalagsins „á Alþ. næst ekki nema með nánara samstarfi en áður hefur þekkzt á milli flokka.“ — Nánara samstarfi en áður hefur þekkzt á milli flokka og m. ö. o. nánara samstarfi en milli Bændafl. og Sjálfstfl. á sínum tíma. Enn fremur: „Það dugir ekki minna en að flokkarnir sameinist algerlega í kosningunum og að hver einasti maður í Alþfl. líti á sigur framsóknarmanna sem sinn sigur og hver framsóknarmaður skoði sigur Alþfl. sem sigur sinn.“ Svo mörg eru þau orð. Og þeir, sem halda nú, að þeir geti fengið hvern einasta mann í tveimur flokkum til þess að fara eftir leiðbeiningum frá sjálfum sér eða forráðamönnum flokksins, með hvað miklum líkum halda þeir svo, að þeir geti haldið því fram eða neitað því, að þeir séu þess umkomnir eða hafi lagt það fyrir sig að skipa kjósendum sínum að hlýða sér? En takið eftir því, að hér er því haldið fram, sem rétt er, að um nánara samstarf sé að ræða milli flokka en áður hefur þekkzt hér á landi. Og þetta sker í raun og veru úr um það, að engan veginn fær staðizt það, sem nú er haldið fram af framsóknarmönnum, að hér sé um nákvæmlega sams konar bandalag að ræða og milli Sjálfstfl. og Bændafl. 1937. Þess vegna er það algert vindhögg, þegar hv. 1. þm. Eyf. er að tala um, að ef hin 4 umdeildu kjörbréf hér verði ekki samþykkt, þá sé það augljóst af því, að Stefán Stefánsson hafi á sínum tíma setið ólöglega á Alþingi í mörg ár, en hann var, eins og kunnugt er, uppbótarþm. Bændafl. Og það, sem enn fremur sker úr í þessu máli, er sú staðreynd, að Bændafl. og Sjálfstfl. þrátt fyrir samvinnu í kosningunum kepptu um uppbótarsætin. En það eru einmitt uppbótarsætin, sem nú á að nota ólöglega til þess að afla þessu kosningabandalagi fleiri þm. en atkvæðatala flokkanna segir til um.

Hv. 1. þm. Eyf. var að tala um, að hv. 3. þm. Reykv. hefði alveg sömu afstöðu nú eins og 1937. En það vill svo til, að það eru alveg ótvíræðir vitnisburðir um það, hvernig hann og flokksmenn hans hafa litið á mismuninn á kosningabandalagi Bændafl. og Sjálfstfl. og Hræðslubandalaginu nú. Um þetta segir m. a. í Þjóðviljanum 27. maí s. l., með leyfi hæstv. forseta: „Hræðslubandalagið ber það einkum fyrir sig í yfirlýsingum sínum, að Sjálfstfl. og Bændafl. hafi haft kosningasamvinnu sín á milli 1937. Þar er þó ekki um hliðstæðu að ræða. Flokkarnir unnu ekki saman í öllum kjördæmum, heldur buðu hvor gegn öðrum í sumum, og auk þess fengu báðir uppbótarþingsæti. Samvinnan var ekki við það miðuð að ræna fleiri uppbótarþingsætum en flokkunum bar. Það er þetta, sem gerir mismuninn, að kosningasvik Hræðslubandalagsins byggjast á því að ná til sín ólöglega fleiri uppbótarþingsætum heldur en því ber.“

Þá sagði hv. 1. þm. Eyf., og hv. þm. Ak. viðhafði næstum sömu orð, að valdið, hverjir verða alþm., er ekki hjá miðstjórnum flokkanna, heldur hjá kjósendum landsins. — Ja, heyr á endemi, þegar fulltrúar Hræðslubandalagsins bera sér slík orð í munn. Hvernig er sjálft Hræðslubandalagið orðið til? Þetta bandalag er þannig til orðið, að öðru fremur tveir menn úr miðstjórnum Framsfl. og Alþfl. í Reykjavík, — sumir segja, að annar sé venju fremur hégómagjarn, og hinn er talinn ekki laus við löngun til að fara með völd og mannaforráð, þótt hann sjálfur telji slíkt mikinn misskilning á hógværu eðlisfari sínu, — þessir tveir menn öllum öðrum fremur lögðu saman ráð sín um það s. l. vetur, — ja, um hvað? — hvernig hægt verði að ná til sín völdum á Íslandi, þ. e. a. s, meirihlutaaðstöðu á Alþ., án tillits til þess og þrátt fyrir það þó að engin von væri til þess, að Framsfl. og Alþfl. hefðu meiri hluta kjósenda með sér, með öðrum orðum, hvernig hægt mundi með bellibrögðum og upphugsuðum svikráðum að svipta meiri hluta kjósendanna því valdi, sem meiri hlutanum raunverulega ber. Sjálfsagt eru áhöld um það, hvor reiknað hefur meir, prófessor Gylfi Þ. Gíslason, hæstv. menntmrh., eða hæstv. forsrh., þm. Str., þegar lögð voru drögin að stofnun Hræðslubandalagsins, en eitt er víst, að þessi var tilgangurinn með öllum útreikningunum, að kjósendurnir hefðu ekki valdið í kosningunum, heldur hitt, að valdið tilfélli reiknimeisturum Hræðslubandalagsins. Þess vegna er það kaldhæðni að heyra hvern þm. Framsfl. á fætur öðrum koma hér upp og tala um það í vandlætingartón, að það séu fyrst og fremst kjósendurnir, en ekki menn í miðstjórnum flokkanna og ráðamenn í flokksstjórnunum, sem ráði því, hverjir á Alþ. sitja, því að engir menn hafa slíka aðstöðu sem þessir hvað þetta áhrærir.

Ég get ekki stillt mig um að vitna enn um þessar aðfarir í ein ummæli úr aðalmálgagni Alþýðubandalagsins, sem ekki hafa komið hér fram í umræðunum, en birtust í því 8. júní s. l. og hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Menn eru dæmdir til refsingar fyrir að brjótast inn í hús og stela fjármunum, og Tíminn og Alþýðublaðið fordæma að vonum slík lögbrot, en hvað eru slíkir atburðir hjá því að ætla sér að ræna þjóðina sjálfsákvörðunarrétti hennar í kosningum, svipta þjóðina því valdi að ákveða, hverjir fari með stjórn landsins?“

Þetta eru ummæli aðalmálgagns eins þess flokks, sem nú stendur að hæstv. ríkisstjórn. Mig langar til að víkja nokkru nánar en þegar hefur verið gert að einu atriði í ræðu hv. þm. Ak. (FS). Ég verð að taka undir það með hv. 2. þm. Eyf., að það er ekki góð meðferð á nýjum þingmanni að fela honum það verkefni, sem Hræðslubandalagið fól Friðjóni Skarphéðinssyni, að verja í jómfrúræðu sinni kosningasvik Hræðslubandalagsins, enda var það svo, að þessi hv. þm. fór mörgum orðum um það aðallega, að eiginlega ætti helzt ekki meira um þetta mál að tala. Sennilega er þetta nokkuð einstök jómfrúræða hér í sölum þingsins. Hann sagði, að málið hefði verið útrætt við kosningarnar, kjósendurnir réðu og þeir hefðu kveðið upp sinn úrskurð. Ja, eigum við að fallast á það, að þetta mál hafi verið útrætt við kosningarnar og kjósendurnir hafi kveðið upp sinn úrskurð? Og hvernig var hann? Eins og ég sagði áðan, þá fordæmdu 2/3 af kjósendum landsins kosningasvik Hræðslubandalagsins, þ. e. a. s. kjósendur þeirra flokka þriggja, sem allir höfðu lýst því yfir fyrir kosningarnar, að þeir teldu kosningasvikin í senn brot á anda og tilgangi kosningalaganna. Og það er vissulega skýr vitnisburður um dóm kjósenda að þessu leyti, að þeir kjósendur, sem kjósa þessa flokka eftir þessar yfirlýsingar, taka undir áfellisdóm þessara flokka og fordæmingar um hin marsumtöluðu kosningasvik.

Svo er annað atriði í ræðu þessa hv. þm. Ak., sem mig langar til að minna á. Hann sagði þannig: Þar til bær stjórnarvöld hafa kveðið upp úrskurð, sem ætti að vera endalok þessa múls.

Nú er það auðvitað misskilningur hjá hv. þm., að úrskurður landskjörstjórnar sé endanlegur í þessu máli, því að skv. beinum ákvæðum kosningalaganna er það Alþ., sem kveður upp hinn endanlega úrskurð í þessum málum, og hefur verið á það hent. En það er gott að heyra þennan hv. þm. Hræðslubandalagsins segja nú hér á Alþ., að þar til bær stjórnarvöld hafi kveðið upp úrskurð um þetta mál og jafnvel úrskurð, sem hann vill að sé hinn endanlegi í málinu, því að hvað sögðu málgögn Hræðslubandalagsins um þetta atriði, þegar umboðsmenn Sjálfstfl. í landskjörstjórn kærðu málið fyrir þar til bærum stjórnarvöldum? Um þetta atriði sagði Tíminn orðrétt 27. maí s. l., með leyfi hæstv, forseta:

„Atferli sjálfstæðisforingjanna er meira en tilraun til ofbeldisverka á þeim andstöðuflokkum íhaldsins, sem það óttast mest. Það er um leið háskaleg árás á lýðræðið í landinu og réttlæti í opinberu lífi.“

Og alveg í sama streng tók Alþýðublaðið um sömu mundir. Þetta var þá borið á borð fyrir kjósendur þessa lands, að það væri háskaleg árás á lýðræðið í landinu og réttlæti í opinberu lífi að leggja umdeild málsatriði undir úrskurð þar til bærra stjórnarvalda, sem þessir menn nú leggja svo mikið upp úr, að þeir vilja helzt, þrátt fyrir gagnstæð ákvæði kosningalaga, telja, að eigi að vera sá endanlegi í málinu. Ég get vel skilið það, að sumir stuðningsmenn Hræðslubandalagsins hafi orðið ókvæða við, þegar sjálfstæðismenn eða umboðsmenn þeirra kærðu þessi atvik fyrir landskjörstjórn, og ég frétti það á ferðum mínum út um landið þá, að einn af aðalforráðamönnum þeirra hefði fengið magapínu og lagzt í rúmið. En hitt skil ég ekki, að stjórnmálaflokkar skuli láta hafa eftir sér annað eins og þetta í aðalmálgögnum sínum, að það sé ofbeldisverk og háskaleg árás á lýðræðið í landinu og réttlæti í opinberu lífi að bera umdeild málsatriði undir þar til bær stjórnarvöld, eins og nú var gert og þessir hv. menn nú eftir á leggja svo mikið upp úr, eftir að úrskurðurinn er fallinn.

Ræða hv. 3. þm. Reykv. (EOl) hefur þegar verið gerð hér að umtalsefni, og þarf ég þar litlu við að bæta, Ég get þó ekki stillt mig um að vekja athygli á, hversu lítilmótleg er sú afstaða, sem Alþb. hefur nú tekið hér á Alþ. í þessu máli. Fyrir kosningarnar er atferli Hræðslubandalagsins í aðalmálgagni þessara manna talið verra en innbrot, verra en þjófnaður, en nú leggja þeir blessun sína yfir misgerðirnar. Þessir menn hafa þá selt sannfæringu sína fyrir tvo ráðherrastóla. Það hallast þá ekki á um manndóminn hjá núverandi hæstv. ríkisstj, Hræðslubandalagið gaf um það hátíðlega yfirlýsingar fyrir kosningar, að það mundi undir engum kringumstæðum hafa samvinnu við kommúnista eftir kosningar. Tíminn sagði um þetta á sjálfan kosningadaginn, 24. júní s. l.:

„Þjóðviljinn hefur þá fregn að færa liði sínu við lok kosningabardagans, að ákveðið hafi verið í herbúðum Hræðslubandalagsins að leita til okkar um stjórnarsamvinnu eftir kosningar“ (þ. e. a. s., að það hafi verið ákveðið af Hræðslubandalaginu að leita til kommúnistanna eftir kosningar).

Svo segir blaðið áfram orðrétt: „Eins og margbúið er að lýsa yfir af hálfu Alþfl. og Framsfl., er þetta uppspuni frá rótum, og ekkert samstarf verður haft við þetta bandalag kommúnistanna um stjórn, af því að þeir eru ekki hóti samstarfshæfari en áður, þótt þeir hafi skipt um nafn.“

Þetta er kosningastefnuskrá og kosningayfirlýsing Hræðslubandalagsins, margítrekuð í síðasta skipti á kjördaginn í Tímanum, 24. júní. Og þessi stóryrði og önnur slík voru einnig viðhöfð af hv. 4. þm. Reykv. (HG) í síðustu mínútum útvarpsumræðnanna fyrir kosningar. En allt þetta hafa svo þessir menn eftir kosningarnar, eftir að kjósandinn átti ekki lengur leik á borði, étið ofan í sig og með því gerzt sekir um þá höfuðsynd að svíkja kjósendur sína. Mig furðar á því, að hv. þm. Alþýðubandalagsins skuli nú endilega ekki vilja vera minni menn í þessu stjórnarsamstarfi, þegar þeir koma fram í þessu máli, og éta ofan í sig öll stóryrðin og yfirlýsingarnar um kosningasvik Hræðslubandalagsins, sem þeir viðhöfðu fyrir kosningar.