21.01.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í D-deild Alþingistíðinda. (2604)

81. mál, verðtrygging á sparifé skólabarna

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Með till. þeirri, er fyrir liggur, er farið fram á, að það sparifé skólabarna, sem ávaxtað er til 10 ára, verði verðtryggt.

Árið 1954 hófst Landsbanki Íslands ásamt nokkrum áhugasömum skólamönnum handa um að kenna börnum, hvers virði það er að fara sparlega með fé. Þessi kennsla er ekki aðeins munnleg, heldur verkleg líka, og hafa kennararnir í þessu starfi sínu notið góðrar aðstoðar Landsbankans. Börnin eru hvött til að eyða ekki öllum aurum sínum í sælgæti, heldur leggja nokkuð af þeim í sjóð, er þau síðar geti gripið til. Í því skyni að auðvelda þeim þetta nám, var tekin upp sams konar aðferð og notuð var hér á landi um árabil við lok fyrri heimsstyrjaldar. Börnin fá í skólanum keypt sérstök sparimerki, sem síðan er framvísað í banka, og er upphæðin þá færð inn í sparisjóðsbækur þeirra. Hvert barn, sem þátt tekur í þessari sparnaðarhreyfingu, verðlaunar Landsbankinn með 10 kr., sem þegar eru færðar inn í sparisjóðsbókina, en bækurnar eru tvenns konar. Önnur tegundin er með sex mánaða, en hin með 10 ára uppsagnarfresti, og geta börnin eða foreldrar þeirra valið á milli.

Þessi starfsemi í barnaskólunum hefur staðið nú í rúm 2 ár, og hefur mér skilizt, að hún gangi vonum betur. Ekki kann ég að greina frá því í tölum, hver árangurinn er, en viðleitnin er virðingarverð á allan hátt. Hún miðar að því að hafa holl uppeldisáhrif á börnin. En það eru gallar á gjöf Njarðar. Öllum landslýð er löngu orðið það Ijóst, að vandfundin er ráðstöfun á fé öllu lakari en sú að leggja það í sparisjóð. Á síðustu 16 árum hafa sparifjáreigendur goldið mikið afhroð, og hafa engir farið jafnflatt á verðbólgunni og þeir. Þessi staðreynd hvetur ekki til sparnaðar, hún gerir bæði foreldrum og kennurum erfitt um vik að innræta börnunum dyggð sparseminnar. Álitleg fjárupphæð, sem lögð var í sparisjóð fyrir 10 árum er ekki mikils virði nú. Þessi sannleikur er öllum ljós, og flestir munu breyta í samræmi við hann. Fólk er nánast orðið hrætt við að eiga peninga.

Ef sparifjársöfnun skólabarna gengur sæmilega nú, má það næstum furðulegt heita, svo illa er í haginn búið fyrir það mál. Með lítils háttar lagfæringu á því ætti árangur að geta orðið ekki sæmilegur, heldur ágætur í framtíðinni. Þá lagfæringu er unnt að gera, og er hún í því fólgin að verðtryggja sparifé skólabarnanna, þannig að áhættulaust sé að geyma það. Ef þetta sparifé eða sá hluti þess, sem ávaxtaður er til 10 ára, yrði verðtryggður, mundi það gerbreyta afstöðu foreldra til þessa máls. Þá þyrftu þeir ekki lengur að tala þvert um huga sinn, ef þeir hvettu börnin til sparimerkjakaupa, og þá yrði sparsemin aftur dyggð.

Landsbankinn hefur nú á boðstólum vísitölutryggð verðbréf, en upphæð þeirra er börnum ekki viðráðanleg. Mundi ekki vera mögulegt, að bankinn verðtryggði á sama hátt sparifé skólabarna? Ég held, að það yrði happasælli ráðstöfun en 10 kr. gjöfin, og er ég þó síður en svo að gera lítið úr þeirri rausn bankans. Verðtrygging yrði til þess að skapa traust á þessu sparifé. Hún mundi gera foreldrum og kennurum það auðveldara að sannfæra börnin um gildi sparnaðar og mundi afla sparisjóðum meira fjár til stuðnings atvinnuvegum og viðskiptum landsmanna.

Ég legg svo til, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.