21.01.1957
Sameinað þing: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (2612)

80. mál, lán til íbúðabygginga

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Íbúðamálin og lán til þeirra hafa verið nokkuð til umr. hér á þessu þingi fyrir áramótin, og eins og kunnugt er, lágu fyrir þinginu brbl. frá hæstv. ríkisstj. um breytingu á húsnæðismálastjórn. Þegar það mál var til meðferðar, gerði ég grein fyrir því, að ég teldi veigalítið „innlegg“ í húsnæðismálin og vandamál þeirra það frv., sem þar væri til meðferðar. Ætla mætti, að hæstv. ríkisstj. hefði séð ástæðu til þess að leggja fyrir þingið veigameiri atriði þessa máls og þá fyrst og fremst að beita sér fyrir að efla hið almenna veðlánakerfi, sem sett var á laggirnar með lögum nr. 55 frá 1955, en það er nú sá erfiðleiki, sem mestur er, hversu takmarkaðan aðgang þeir aðilar hafa að lánsfé, sem í byggingum standa.

Ekkert gerðist á þinginu fyrir áramótin af hálfu hæstv. ríkisstj., sem benti í þá átt, að hún hefði nokkurn áhuga fyrir því að snúa sér að þessu veigamikla vandamáli. Og á öðrum vettvangi er ekki kunnugt, að ríkisstj. hafi gert nokkuð til þess, frá því að hún settist á laggirnar, að tryggja framhaldslánsfé til íbúðabygginga. Ég segi: Það er ekki kunnugt á opinberum vettvangi. Hvort ríkisstj. hefur eitthvað á bak við tjöldin unnið að þeim málum og á von á einhverjum sendingum, sem almenningi er ekki ljóst um, til þess að bæta úr lánsfjárskortinum, það getum við ekki sagt um, stjórnarandstæðingar, og veit þá enginn nema ríkisstj. sjálf og hennar stuðningsmenn. En sumir hverjir hafa látið í það skina af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., að e.t.v. muni koma í ljós, að ríkisstj. hafi upp á meira að bjóða í þessum efnum heldur en enn er komið fram og almennt er hægt að átta sig á að svo stöddu.

Það hefði mátt ætla, að hæstv. ríkisstj., sem fer með völdin fimm mánuði á s.l. ári, beitti sér þó a.m.k. fyrir því að tryggja áfram innlent lánsfé til íbúðabygginga í svipuðum mæli og verið hefði. En ég hygg, að það sé sannmæli, að engar viðræður hafi átt sér stað um það við bankana, að þeir lánuðu áfram til veðlánakerfisins, eins og fyrrverandi ríkisstj. hafði þó samið um við þá fram til ársloka 1956, nema hvað hæstv. félmrh. mun víst, eftir að nokkrum sinnum var búið að hnippa í hann í þessu sambandi hér á Alþ., hafa átt stuttar viðræður um miðjan desembermánuð um það mál við Landsbankann. Annað er mér ekki kunnugt um.

Ég tel svo fullkomið skeytingarleysi og aðgerðarleysi um að ræða hér af hálfu ríkisstjórnarinnar í veigamiklu máli, að það verði með engu móti varið. Og það er engu líkara en þessi hæstv. ríkisstj. hafi minni en engan áhuga fyrir þessum málum, og alveg sér í lagi er þetta mjög áberandi, þar sem þessi mál eru kannske mestu vandamálin hér í Reykjavík, en hæstv. félmrh. hefur einmitt nú í fyrsta skipti tekið þingsæti sem þm. Reykv. Ég hygg, að það sé einsdæmi, að þingmenn kjördæmis hafi svo slælega brugðizt skyldu sinni fram að þessu eins og hæstv. félmrh. í þessum veigamiklu málum.

Í þeirri till., sem hér er til umr., er lagt til, að Alþ. feli ríkisstj. að beita sér fyrir því, að veðdeild Landsbankans taki 100 millj. kr. erlent lán til íbúðabygginga og að þessu lánsfé sé einmitt fyrst og fremst varið nú til þess að gera það veigamikla stórátak að ljúka sem fyrst þeim óvanalega mörgu byggingum, sem í smíðum eru í landinu. Ef slíkt fjármagn kæmi til viðbótar fjármagni svipuðu því, sem undanfarin ár hefur runnið til þessara mála, þá ætti að mega ætla, að verulega væri ráðin bót á húsnæðisskortinum.

Ég hef áður á þinginu sýnt fram á, að þetta er það langsamlega veigamesta atriði í húsnæðismálunum núna, að beita sér fyrir að ljúka þeim óvanalegu mörgu byggingum, sem eru í smíðum, ég hygg, að það sé eitthvað nálægt 3000 íbúðum á öllu landinu. Og ef nægjanlegt lánsfé fengist til þess og efni, sem fyrst og fremst mundi verða tryggt betur með erlendu láni til kaupa á nauðsynjum í þessu sambandi, þá ætti það ekki að vera nein ofraun að ljúka á tveimur árum þessum byggingum, en það mundi þýða það, að 1500 íbúðir kæmu til afnota fyrir landsmenn hvort árið, og er það náttúrlega svo langt umfram það, sem almennt eru þarfir landsmanna í þessu sambandi, að það hlyti að nægja eða ganga langt til þess að leysa að mestu leyti versta húsnæðisskortinn, eins og ég sagði áðan.

Ég held, að það hafi verið á þingi 1952 eða 1953, sem ég flutti hér ásamt öðrum sjálfstæðismönnum frv. til laga um heimild til erlendrar lántöku fyrir veðdeild Landsbankans. Það náði þá ekki fram að ganga. Ég benti á það þá og hef bent á það síðan, að það hefur gefizt vel, þegar þessi leið hefur verið farin. Jón heitinn Þorláksson beitti sér fyrir því á árunum fyrir 1930 að taka erlent lán til veðdeildarinnar þá, sem stórlega efldi starfsemi hennar og varð almenningi til mikilla hagsbóta í sambandi við íbúðabyggingarnar, og mér er ekki kunnugt um, að það hafi leitt til neinna erfiðleika að standa skil á þeim lánum, og innanlands eru fasteignalánin einhver tryggustu lán, sem á markaðnum eru.

Þegar lögin um húsnæðismálastjórn voru sett 1955, var gert ráð fyrir því og í lögunum heimild til erlendrar lántöku, og að sjálfsögðu hefði mátt ætla, að freistað hefði verið að grípa til hennar, eins og ástandið var orðið í húsnæðismálunum, þegar miklar byggingar voru í gangi og mikið átak þurfti til að ljúka þeim. Nú er í þessari þáltill. lagt til, að þessi ríkisstj. beiti sér fyrir því, að þessi heimild verði notuð. Í öðru lagi er lagt til, að Alþingi gefi hæstv. ríkisstj. fyrirmæli um að veita öðrum aðilum, sem þess kynnu að óska, leyfi eða fyrirgreiðslu, sem þörf er á, til erlendrar lántöku til íbúðabygginga. Mér er kunnugt um, að nokkuð hafa einstakir aðilar þreifað fyrir sér í þessum efnum. En að sjálfsögðu geta hvorki einstaklingar eða félög eða bæjarfélög né aðrir staðið fyrir erlendum lántökum, nema þeir njóti eðlilegrar fyrirgreiðslu í því sambandi, sem fyrst og fremst er þá í því fólgin að tryggja nægjanlegar yfirfærslur til endurgreiðslu lána og vaxtagreiðslna. En ef þyrfti frekarí fyrirgreiðslu, eins og ábyrgð ríkissjóðs, þá þyrfti auðvitað að leita sérstakrar heimildar þingsins um það atriði.

Ég skal ekki að svo stöddu hafa um þetta fleiri orð, en vil ljúka máli mínu með því, að mér þykir einsýnt, að hér stefni til stórra vandræða, ef þessar mörgu byggingar, sem nú eru í smíðum, þurfa að tefjast eða jafnvel að stranda, vegna þess að þeir, sem forustuna eiga að hafa í þessum efnum, láta sinn hlut eftir liggja, sem með engu móti verður komizt hjá að játa að hæstv. ríkisstj. hafi gert fram að þessu.