16.11.1956
Sameinað þing: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (2630)

43. mál, endurskoðun varnarsamningsins

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir frá Sjálfstfl., er óefað fram komin vegna þess, að væntanlegir eru til landsins menn til samninga um varnarmálin. Þessi till. fer fram á, að það sé látið uppi sem álit Alþingis, að nú sé viðhorf Íslendinga það, að nauðsynlegar varnir landsins séu tryggðar.

Í þetta er hægt að leggja margs konar skilning, en mér liggur við að leggja þann skilning í það, að Sjálfstfl. vilji, að Alþingi Íslendinga geri pöntun á því, áður en samningamennirnir koma, að Alþ. lýsi yfir, að það heimti meira hernám, meiri erlendan her í landið.

Jafnframt kemur svo í ljós í þessari till., og yfir því gleðst ég, að Sjálfstfl. lætur í ljós núna í fyrsta sinni það ég veit til, að varnarsamningurinn sé ekki alfullkomið plagg, heldur með einhverjum smágöllum, og nú skuli það vera samningaaðstaða af hendi Íslendinga að fá bætt úr göllum þeim, sem fram hafa komið á samningnum. Það er gott, betra seint en aldrei. Varnarsamningurinn er þá frá sjónarmiði Sjálfstfl. ekki gallalaust plagg, heldur með göllum, sem þarf að sníða af honum, en hingað til hefur Sjálfstfl. samt ekki viljað láta endurskoða hann, viljað halda honum með göllunum.

Það, sem ég ætlaði þó aðeins að segja i sambandi við þessar umræður, er það, að hér hefur verið látið í það skína, að hæstv. ríkisstj. sé ekki sammála í afstöðunni til þessarar tillögu. Það er ekki rétt. Ríkisstj. hefur — og það hafa hæstv. utanríkis- og forsætisráðherra nú undirstrikað — vísað ákveðið til þeirrar afstöðu í þessum málum, sem hv. 1. þm. Reykv. (BBen) færði íslenzku þjóðinni sem þáverandi utanrrh. hennar, að Ísland vildi því aðeins vera aðili að Atlantshafsbandalaginu, að hér væri ekki her á friðartímum. Við þessa stefnu vill ríkisstj. halda sér og snýst á móti öllum tillögum frá Sjálfstfl., sem brjóta í bág við þessa fyrri afstöðu hv. 1. þm. Reykv.

Þegar spurt er nú um afstöðu stjórnarinnar sem heildar til þessara mála, þá er hægt að lýsa því yfir, að Alþýðubandalagið er nákvæmlega sammála því, að framfylgt sé þingsályktun Alþingis frá því 28. marz í vor og að haldið sé á þessum málum í samræmi við yfirlýsta stefnu stjórnarsáttmálans í þessu máli og í samræmi við þá málstúlkun, sem þetta mál hefur fengið í blöðum og á mannafundum fyrir kosningar og eftir þær.

Í síðasta lagi vil ég lýsa því yfir, að Alþýðubandalagið er samþykkt því, að þessari þáltill. Sjálfstfl., sem brýtur í bág við yfirlýsinguna frá 1949 um, að hér skuli ekki vera her á friðartímum, viljum við í Alþb. eins og í Alþfl. og Framsfl., sem stöndum að ríkisstj., að sé vísað frá og vísað í þessu formi til ríkisstjórnarinnar.