29.05.1957
Sameinað þing: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (2637)

131. mál, sjóefnaverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þessi till. fjallar um byggingu eða undirbúning að byggingu á tilraunaverksmiðju, sem mun vera nauðsynlegur undanfari þess, að hægt verði að byggja hér fullkomna sjóefnaverksmiðju. Hér er um mjög athyglisvert og merkilegt mál að ræða, og samkv. þeim upplýsingum, sem allshn. hefur aflað sér, hefur raforkumálastjórnin um skeið unnið að undirbúningi þessa máls og rannsóknum varðandi væntanlega undirbúningsverksmiðju. Meiri hl. nm. telur því, að á þessu stigi sé ekki rétt fyrir Alþingi að ganga lengra í þessu máli en að vísa málinu til ríkisstj. í trausti þess, að þessum tilraunum verði haldið áfram og stjórnin leiti eftir fjárveitingum frá Alþingi, strax og þeir, sem tilraunirnar gera, álíta, að það sé tímabært að hefja byggingu tilraunaverksmiðju.

Meiri hl. allshn. leggur því til með þessum fyrirvara, sem getur í nál., þskj. 653, að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.