29.05.1957
Sameinað þing: 63. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (2638)

131. mál, sjóefnaverksmiðja

Frsm. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég tel ekki þörf á því að hafa mörg orð um afstöðu mína til þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir. Í grg. fyrir till. og einnig í framsögu flm. og umsögn raforkumálastjóra tel ég að færð hafi verið fullnægjandi rök til þess, að hv. Alþ. samþykki till. Um nauðsyn þess, að komið verði upp fullkominni salt- og sjóefnaverksmiðju hér á landi, geta flestir verið sammála og um að því fyrr sem það verður gert, því betra. Öllum, sem um þetta mál hafa ritað, ber saman um, að næsta skrefið, sem beri að stíga, sé bygging tilraunaverksmiðju, fullkomin verksmiðja verði ekki reist, fyrr en tilraun hafi verið gerð með framleiðslu saltsins. Hætt er við, að sá tími, sem líði til þess, að reist verði slík tilraunaverksmiðja, sé bein töf á, að hafnar verði framkvæmdir við byggingu fullkominnar verksmiðju, sem sparað geti þjóðinni milljónir króna í erlendum gjaldeyri á hverju ári.

Eins og fram kemur í grg., er þáltill. borin fram nú vegna þess, að líkur benda til og því reyndar lýst yfir síðar, að á næstunni verði hafnar jarðboranir í Krýsuvík með afar stórvirkum jarðbor, en talið er, að þar verði sjóefnaverksmiðja bezt staðsett. Innan skamms verður því séð, hvort nægilegt gufumagn fæst á hagkvæmasta staðnum til framleiðslu salts og annarra sjóefna. Tel ég illa farið, ef ekki er samtímis unnið að tilraunum til saltvinnslu í tilraunaverksmiðju, sem mun ekki kosta sérlega mikið fé.

Meiri hl. hv. allshn. hefur í nái. sínu lagt til, að þáltill. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, eins og segir í nál., að ríkisstj. leggi málið fyrir Alþingi, strax og tímabært þykir að hefja byggingu tilraunaverksmiðju. En í áliti raforkumálastjóra, sem fékk till. til umsagnar, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Vér teljum, að ofangreind sjóefnaverksmiðja muni geta minnkað innflutning til landsins og ef til vill stuðlað verulega að framleiðslu nýrra útflutningsvara. Er því full þörf á, að undirbúningi sé hraðað svo sem kostur er á.“ Svo sem áður er getið, er næsti undirbúningur einmitt bygging tilraunaverksmiðju og fæ ég ekki betur séð en að fyrir liggi frá þeim, sem gerst ættu að þekkja til, að tímabært sé nú þegar að hefja byggingu tilraunaverksmiðju, og því sjálfsagt og eðlilegast, að hv. Alþingi samþykki þáltill., sem hér liggur fyrir.

Samkvæmt þessu legg ég eindregið til, að dagskrártill. verði felld, en till. samþ. eins og hún liggur fyrir.