31.10.1956
Sameinað þing: 4. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (2644)

15. mál, eftirgjöf lána vegna óþurrkanna

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það segir hér í grg. tillögunnar:

„Afurðatjón var mjög mikið af þessum ástæðum, og fjöldi bænda varð að minnka bústofninn vegna lélegra heyja.“

Hv. síðasti ræðumaður (PZ) hrekur ekki þessa staðreynd. Í þeirri skýrslu, sem hann las hér upp, kom það berlega fram, að kúnum hafði fækkað allverulega i Rangárvalla-, Árnes- og Gullbringu- og Kjósarsýslum. Aftur á móti minna í Vestur-Skaftafellssýslu, enda náðu óþurrkarnir ekki nema austur að Sandi, ekki austur fyrir Sand. Og óþurrkarnir voru ekki eins algerir á Snæfellsnesi og á Vesturlandi eins og hér sunnanlands. En það var reynt að bæta hin slæmu hey með fóðurbætiskaupum, og það er aðalatriðið í þessu máli, að bændur hafa vegna óvenjulegra fóðurbætiskaupa safnað skuldum. Það var reynt að halda sem mestu af stofninum þrátt fyrir léleg hey, með því að bæta heyin með fóðurbæti. Búnaðarmálastjórinn, hv. 1. þm. N-M., ætti að skilja og ætti að vita, hvað þetta kostar bændur, og það kemur úr hörðustu átt, ef hann búnaðarmálastjórinn, kemur hér upp í Alþ. til þess að mæla beint eða óbeint í gegn till. sem þessari. Vera má, að bændur landsins hafi jafnvel búizt við slíkum hjáróma tón frá þessum hv. þm. og að þeir þá eftir það, hvernig hann tekur þessari till., sannfærist betur en áður um, að hann er ekki þeirra málsvari.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða öllu meira um þetta. Till. fer í nefnd. Ríkisstj., að því er hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, hefur tekið þetta mál til athugunar, og það er vel, ef þessi till. hefur getað orðið til þess að vekja menn til umhugsunar um það, að þetta er mál, sem vert er að gefa gaum.