21.11.1956
Sameinað þing: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (2658)

48. mál, hafnarstæði

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þá till. til þál., sem liggur fyrir á þskj. 53 frá hv. 5. þm. Reykv. (ÁS). Það er auðvitað, að þessi hv. þm., sem hefur lengi verið skipstjóri á strandferðaskipum, hefur allmikla reynslu um þá erfiðleika, sem eru á því oft og tíðum fyrir strandferðaskipin að haldast við og athafna sig á ótryggum höfnum og að sjálfsögðu athyglisvert það, sem hann segir um þau mál.

Ég hef veitt því athygli, að meðal þeirra staða, sem eru nefndir í till., eru tveir í mínu kjördæmi, þar sem eru Eiðisvík á Langanesi og Fjallahöfn við Axarfjörð. Það er að vísu ekki í fyrsta sinn, sem ég heyri þessa staði nefnda sem nauðsynlega hafnarstaði. Ef ég man rétt, hefur Fjallahöfn verið löggilt á sínum tíma, fyrir alllöngu, en niðurstaðan hefur orðið sú, að verzlunarstaðir hafa risið upp, ekki á þessum stöðum, heldur á öðrum.

Það er vitanlega svo, að það er æskilegt. að sem flestir staðir séu rannsakaðir, með tilliti til möguleika á hafnargerð þar, og vonandi má gera ráð fyrir því, að í framtíðinni komi hafnir á ýmsum stöðum, þar sem þær eru ekki nú, og byggðarlög í sambandi við þær.

En það, sem ég vildi sérstaklega taka fram, er, að í sambandi við þessa till.. sem nefnir ýmsa slíka staði, sem ekki er ólíklegt að séu framtíðarstaðir, þegar þjóðin er orðin fjölmennari en nú og tæknin meiri, þá virðist mér. að þess beri að gæta, — og ég vildi sérstaklega segja það núna, áður en þetta mál fer til fjvn., — að þó að slíkar athuganir séu látnar fara fram vegna framtíðarinnar, þá verði það ekki látið verða til þess að tefja fyrir fjárveitingum til þeirra staða, þar sem hafnirnar eru nú, þær hafnir, sem nú eru raunverulega notaðar og þar sem verið er að vinna að hafnargerðum. Ég geri ekki ráð fyrir, að það vaki fyrir hv. flm., að nú verði farið að stöðva hafnargerðir í einu eða öðru héraði, á meðan beðið er eftir því, að einhver annar staður sé rannsakaður með tilliti til hafnargerðar þar. Ég vil þó leggja áherzlu á það, a.m.k. fyrir mitt leyti, að ég teldi það ekki vel farið, ef slíkar rannsóknir, sem í sjálfu sér er ekki nema allt gott um að segja, yrðu til þess. að fjárveitingavaldinu dytti í hug að fara að halda að sér höndum með fjárframlög til þeirra staða, sem nú er verið að vinna við og þar sem byggðarlög hafa myndazt við þær hafnir, sem notaðar hafa verið.

Ég finn alveg sérstaka ástæðu til þess að leggja áherzlu á þetta, vegna þess að gera má ráð fyrir, að þetta mál fari til hv. fjvn.