21.11.1956
Sameinað þing: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (2663)

49. mál, hafnargerðir

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að tala um þetta mál, þegar ég kom hér á þennan fund, en ræða hv. flm. till. gaf mér tilefni til að segja örfá orð.

Um till. sjálfa vil ég þá segja það, að mér finnst hún skynsamleg, og ég hygg, að það hefði verið miklu hagkvæmara fyrir landið að hafa þann hátt á, sem till. vísar til, heldur en að káka við margar hafnir hvert ár og engu sé lokið. En eins og hv. fim. till. minntist á sjálfur, eru eðlilegar ástæður til þess, að hinn hátturinn hefur verið hafður, þær, að fólkið er óþolinmótt og þm. héraðanna krefjast þess hver fyrir sig, að eitthvað sé gert fyrir hafnir í þeirra héruðum. En það, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs, var, að hv. flm. minntist hér á ýmsar hafnir, sem ástæða væri til að fullgera, að því er mér skildist, en hann sleppti einni höfn, sem ég álít að hann hefði átt að nefna ekki síður en hinar, en það er höfnin í Ólafsfirði. Ég hygg, að sú höfn sé dæmi upp á það, hvernig fer oft, þegar verið er að leggja smáupphæðir í mikla hafnargerð og byggja þetta í smááföngum, því að í Ólafsfirði hafa orðið stórskaðar á höfninni sjálfri, einmitt fyrir það, að hún er ekki fullgerð, fyrir utan það, að höfnin þar hefur hvað eftir annað fyllzt af sandi, vegna þess að garðarnir hafa ekki verið fullgerðir eins og þeir eiga að vera. Ólafsfjörður mun nú vera eini kaupstaður landsins, sem hefur ekki enn sæmilega höfn. Það er að vísu búið að vinna mikið að hafnargerðinni, og þess vegna mun óvíða vera minna átak að fullgera hana algerlega heldur en einmitt í Ólafsfirði.

Ég geri ráð fyrir, að till. hv. flm. um að vísa þessari þáltill. til fjvn. verði samþykkt, og vildi ég þá vonast til þess, að hv. n. myndi eftir þessari höfn, sem ég nefndi. Ef til vill þarf ekki beinlínis að taka fram neitt um sérstakar hafnir í sambandi við þessa till., því að till. sjálf fjallar ekki um einstakar hafnir, þó að hv. flm. nefndi þær. En þó að of snemmt sé kannske að minnast á það, þá vænti ég, að þessi till. verði höfð í huga við afgreiðslu fjárlaganna og hv. fjvn. muni þá fyllilega eftir þessari höfn, sem ég hef nefnt.