05.12.1956
Sameinað þing: 14. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (2671)

54. mál, eftirlitsbátur á Breiðafirði

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég held, að þessi þáltill., sem hér er borin fram af hv. þm. Snæf., sé mjög tímabær, og það er mér mikil ánægja, að hún skuli hafa komið fram, og ég vil styðja hana af fullum hug.

Það mætti að vísu segja; að þessu máli hefði kannske átt að hreyfa fyrr og reyna að fá það samþykkt, því að það er enginn vafi á því, að á þessu máli er hin mesta þörf við Breiðafjörð og mikill áhugi þar vestra fyrir því, að það nái fram að ganga. Útgerð hefur aukizt talsvert mikið við Breiðafjörðinn á undanförnum árum, eins og hv. þm. vita, og það er því brýn nauðsyn orðin á því, að varðskip sé á þessum slóðum um vertíðina a.m.k. Það er að vísu fleira, sem þarna þyrfti sjálfsagt að gera til bóta fyrir sjómenn. T.d. hefur mér verið tjáð, að brýn nauðsyn sé á því, að innsiglingarviti komi upp á Rifi og að góður viti verði innanvert við Ólafsvík.

Eins og hv. þm. Snæf. gat um áðan, varð á síðustu vertið hvort tveggja, að áhöfn eins báts var bjargað naumlega og annar bátur lenti í miklum hrakningum út af Snæfellsnesi og gat bjargað sér við illan leik.

Það hefur talsvert verið talað um björgunarskútu Breiðafjarðar og verið nokkuð til þess máls unnið. Það mun vera til nefnd til að vinna að því máli, og sjómenn og útgerðarmenn hafa að undanförnu, eða a.m.k. í hittiðfyrra, gefið einn dag afla og vinnu til þessa sjóðs. Það er mikill vilji þar vestra til þess, að þessi sjóður eflist og þessu máli verði hrundið í framkvæmd. Hvenær sem það nú kann að verða, þá er það eitt víst, að á meðan það er ekki gert, er nauðsynlegt að gera einhverjar þær ráðstafanir, sem koma að gagni, og ég er því mjög meðmæltur, að þessi till. nái fram að ganga.