30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (2682)

63. mál, íslensk ópera

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd. — Hv. frsm. vitnaði til ummæla þjóðleikhússtjóra um það, að afkoma söngleika í þjóðleikhúsinu hefði að meðaltali verið betri en afkoma leiksýninga. Það, sem ég hygg að þjóðleikhússtjóri hafi hér átt við í ummælum sínum við hv. flm., getur ekki verið annað en það, að mismunur kvöldtekna og kvöldkostnaðar hafi að meðaltali verið minni á þeim tiltölulega fáu söngleikum, sem hafi verið fluttir, heldur en á öllum leikritum, sem flutt hafa verið í þjóðleikhúsinu í heild. Þetta kann að vera rétt. En það er ekki þessi samanburður, sem öllu máli skiptir, eins og ég gat um áðan, bæði vegna hins fasta heildarrekstrarkostnaðar, sem óperuflutningurinn verður auðvitað að bera, bæði meðan á sýningunum stendur og meðan á undirbúningnum stendur, og svo eins vegna hins, að óperuflutningurinn hefur verið tekinn sem aukaverk í þjóðleikhúsinu og þar af leiðandi aðeins teknar þær óperusýningar og óperettur, sem búast mætti við að skiluðu mestum hagnaði. Hins vegar hefur leikhúsið talið sér það skyldu að taka leikrit til sýningar, sem fyrir fram var vitað að á mundi verða mjög verulegur halli, og þá alveg sérstaklega ýmis íslenzk leikrit, svo sem dæmi eru um nú á þessum vetri, þar sem tvö íslenzk leikrit hafa verið sýnd með mjög verulegum halla, en hins vegar var talið sjálfsagt að sýna þau, til þess að þjóðleikhúsíð gegndi því menningarhlutverki, sem því er ætlað að gegna. Ég vildi aðeins undirstrika það aftur, að sá samanburður, sem hér er um að ræða, er ekki alls kostar réttur.