30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (2688)

63. mál, íslensk ópera

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins benda á það, sem raunar hæstv. menntmrh. tók fram siðast í sínum ummælum, að það tjáir ekki að tala eingöngu í þessu sambandi um skemmtanaskattinn. Það eru auðvitað fleiri tekjustofnar til fyrir þjóðleikhúsið en skemmtanaskatturinn. Alþ. og ríkisstj. hafa ekki viljað binda rekstur þjóðleikhússins eingöngu við tekjur þess af skemmtanaskatti. Þess vegna hefur það orðið ofan á ýmist að greiða tekjuhalla eftir á eða veita heimild í fjárlögum til þess að greiða af venjulegum tekjum ríkisins það, sem þyrfti til hæfilegs rekstrar þessarar menningarstofnunar. Hér er því fyrst og fremst um það að ræða: Vilja menn með einhverju móti, ekki endilega með skemmtanaskattinum, heldur með einhverju móti leggja fram fé til þess, að að þessu leyti verði aukin starfsemi þjóðleikhússins? Ég verð að segja, að þetta mikla tal um skemmtanaskattinn í þessu sambandi er þess vegna meira og minna utan við það, sem hér þarf að skera úr, vegna þess að þeir, sem vita og eru þarna kunnugir, hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir, að ef þjóðleikhúsið á að komast af á skemmtanaskattinum einum, þá þarf að auka við hluta þess af skemmtanaskatti frá því, sem nú er.

Ég játa, að það geti verið mjög freistandi, og ég hafði til þess mjög mikla löngun, þegar ég hafði yfirstjórn þessara mála, að binda starfsemi þjóðleikhússins við ákveðna fjárhæð, sem það fengi með skemmtanaskatti, og segja: Innan þessara marka verður ykkar rekstur að vera, og hallinn má ekki vera meiri en þessi. — En það var talið að athuguðu máli, og ég féllst á það, eftir að ég hafði kynnt mér málið, eftir því sem ég gat, að það væri ekki hægt að hefta svo þá starfsemi, sem hér er um að ræða, að þjóðleikhúsið varð að fá viðbótarfé við þann hluta, sem því er nú ætlaður af skemmtanaskatti. Þess vegna er viðfangsefnið, eins og ég segi: Hvað telja menn, að íslenzka þjóðfélagið í heild hafi efni á að leggja til þessara mála, íslenzka þjóðfélagið í heild og þá fyrst og fremst ríkissjóður? Þó að við tölum um, að þetta sé tekið af skemmtanaskatti, þá er það auðvitað ekki tekið af öðrum en af ríkissjóði, því að ef ekki væri staðið undir þessum og öðrum þörfum með fé skemmtanaskatts, þá yrði að greiða peningana úr ríkissjóði. Og ég verð að játa, að mér finnst vera ákaflega hæpin fjármálahyggindi að skera niður nauðsynlegar þarfir og taka þær svo úr mismunandi vösum, þegar sá, sem geldur allt að lokum, er sá sami, þjóðfélagið í heild, ríkissjóður. Það er miklu betra og skynsamlegra í raun og veru að láta fjárveitingavaldið skera úr um þetta allt í einu. Það gerir sér þá gleggri grein fyrir, hversu mikið féð er, hvað menn þora og vilja á hverjum tíma að ganga langt í skattaálögum, og jafna þannig í stað þess að taka frá fyrir vissum þörfum og láta þær njóta forgangs. Þegar svo sérstaklega kemur á daginn, eins og með þjóðleikhúsið, að það er búið að skerða þann skattstofn svo mikið, að hann hrekkur hvergi til, þá finnst mér skynsemin í núverandi fyrirkomulagi vera orðin ákaflega takmörkuð.

Þetta eru almenn sjónarmið, sem ég taldi rétt að kæmu fram í þessu sambandi. En sérstaklega vildi ég vekja athygli hæstv. menntmrh., sem mér skilst að sé að athuga þessi mál í heild, á því, þegar hann spyr: Hvernig er hægt að fá aukið fé — og talaði hann þá að vísu eingöngu um skemmtanaskattinn — af honum í þessar og aðrar þarfir þjóðleikhússins? Af hverjum á að taka það aukið fé? Vilja menn, að það sé tekið af sjúkrahúsinu á Akranesi? Vilja menn, að það sé tekið af dvalarheimili aldraðra sjómanna, af hljómsveitarfélagi hér og háskólanum, elliheimili i Hafnarfirði o.s.frv.? Það er ósköp eðlilegt, að um þetta sé spurt. Og í þennan vanda komast menn alltaf. Það er búið að verja þessu, búið að koma upp stofnunum, sem treysta á þennan tekjustofn að meira eða minna leyti, og að lokum lendum við auðvitað allir, sem eigum að hafa með ákvörðun mála, í þessum vanda. Við vildum gera miklu meira en við höfum efni á, og þá verðum við að skera eitthvað niður. Þetta er auðvitað það, sem allir hafa rekið sig á, núv. hæstv. ríkisstj. rekur sig á eins og aðrir, og ekkert við því að segja. Það skiljum við ósköp vel.

En núverandi fyrirkomulag er ekki heppilegt. Það er alveg ljóst. Það fer meira í súginn heldur en þörf er á. Og það kemur af því, að ágóði kvikmyndahúsanna á að ganga til þessara og þessara nytjastofnana. En það er enginn, sem staðreynir og á kost á að staðreyna, hvort rekstur þeirra kvikmyndahúsa er eins hagkvæmur og hinna, sem verða að standa undir sér sjálf og einstaklingar eiga eða aðilar, sem beinlínis eiga afkomu sína undir, að þau séu skynsamlega rekin. Og ég þori að fullyrða, og að því hafa verið færð sannast að segja óhnekkjanleg rök, að ef þær stofnanir, sem hér eiga hlut að máli, væru látnar fá hliðstæðar eða jafnháar upphæðir og nú eru veittar í eftirgjöf skemmtanaskatts, þá mundu þær fá meira en þær fá, vegna þess að það fer meira í súginn með núverandi fyrirkomulagi en verða mundi, ef þessar stofnanir fengju bara hin áskildu framlög beint úr ríkissjóði, kvikmyndahúsin yrðu að borga skatt eins og aðrir og eigendur þeirra ættu svo eins og aðrir undir því, hvort þeir hefðu af þeim einhvern ágóða eða ekki. Það hefur verið sýnt fram á. og ég hygg, að það sé ómögulegt að bera á móti því, að það er hlaðið á þessi forréttindakvikmyndahús ýmsum útgjöldum, sem þau mundu ekki vera látin greiða, ef þau væru rekin eins og aðrar sambærilegar stofnanir í landinu.

Ég segi þetta ekki til að bekkjast við þau kvikmyndahús, sem hér eiga hlut að máli. Það sæti allra sízt á mér. Án míns atbeina hefði t.d. Tjarnarbíó, bíóið, sem háskólinn, sáttmálasjóður, rekur, aldrei komizt á. Ég hafði aðstöðu til þess að greiða fyrir því á þann veg á sínum tíma, að án míns atbeina hefði það aldrei komizt á, og ég hygg, að það sé fyrirmyndin í þessu og eftir þeirri fyrirmynd hafi verið farið. Ég játa það þess vegna, að ég get alveg eins fellt sök á mig eins og aðra í þessu efni. Ég er ekki að ræða málið út frá því sjónarmiði. En ég segi bara: Reynslan er búin að sýna okkur, að hér er um óheppilegt fyrirkomulag að ræða. og ég vil benda hæstv. menntmrh. á, að ef hann er að leita að peningum til þarfa ríkisins, þá er ljóst, að þarna er um eitthvert fé að ræða, sem hægt er að spara. Ég tel víst, að það nemi ekki milljón, eins og hann var að lýsa hér eftir, en það er áreiðanlega eitthvað töluvert fé, sem hægt væri að ná í handa ríkinu með eðlilegum hætti og forða frá þeirri eyðslu, sem nú á sér stað að ómaklegu með því fyrirkomulagi, sem upp hefur verið tekið.