06.02.1957
Sameinað þing: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í D-deild Alþingistíðinda. (2696)

82. mál, innheimta opinberra gjalda

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Till. þessi er í tveimur liðum: í fyrsta lagi, að undirbúnar verði till. um breytingu á innheimtu skatta og annarra þinggjalda, og í öðru lagi, að athugaður verði sá möguleiki að sameina skattainnheimtu ríkis og bæja. Í löndum, þar sem gott skipulag er á innheimtu skatta, hefur fyrir löngu verið farið inn á þá braut að innheimta skattana jafnóðum og teknanna er aflað. Þetta hefur sýnt sig að hafa mjög marga kosti fram yfir þá aðferð, sem hér er notuð, að innheimta skattana ári eftir að teknanna er aflað. Innheimtufyrirkomulagið hér hefur því lengi verið óþægilegt og næsta óviðunandi fyrir skattþegnana.

Á þingi 1943 bar ég fram frv. um innheimtustofnun ríkisins. Frv. þetta gekk út á það, að stofnsett yrði ein innheimtustofnun fyrir skatta ríkisins og útsvör bæjanna og önnur þinggjöld og að öll þessi gjöld yrðu greidd af skattþegnunum með jöfnum mánaðarlegum afborgunum yfir árið. Þetta frv. náði ekki fram að ganga, og var aðalorsökin sú, að ekki var hægt að ná samkomulagi um það, hver átti að annast rekstur þessarar innheimtustofnunar, ríkið eða bæjarfélögin. Hins vegar held ég, að menn hafi verið nokkuð á einu máli um það, að nauðsynlegt væri, að slíkt fyrirkomulag yrði tekið upp. Síðan hefur, þó að skattheimtan sé hér í tvennu lagi, verið farið inn á þá braut að innheimta skattana með nokkurn veginn jöfnum afborgunum yfir árið. Innheimta skattanna er nú, eins og kunnugt er, á fleirum en einum stað og með mjög mismunandi gjalddögum.

Innheimtan á ríkissköttunum fer fram aðallega síðari hluta ársins, og er það til mikilla óþæginda fyrir flesta, að allir skattarnir séu innheimtir á fjórum eða fimm síðustu mánuðum ársins.

Þessi aðferð, að innheimta skattana ári eftir að teknanna er aflað, er þó sérstaklega til mikilla óþæginda fyrir þá menn, sem hafa mismunandi tekjur frá ári til árs. Þessi aðferð er þar að auki mjög óþægileg fyrir flesta skattgreiðendur af þeirri einföldu ástæðu, að fáir hafa þá reglusemi á fjárreiðum sínum að leggja fé fyrir mánaðarlega til þess að mæta skattgreiðslunum.

Í löndum, þar sem gott skipulag er í þessum efnum, eru skattar þeirra, sem vinna fyrir föstu kaupi, innheimtir hjá fyrirtækjum og stofnunum, sem þeir vinna hjá. Þeim er greitt á hverjum mánuði kaup að frádregnum sköttum, svo að í raun og veru geta þessir skattgreiðendur litið svo á, að það kaup, sem þeir fá greitt, sé skattfrjálst, og þeir þurfa þess vegna ekki frekar um skattana að hugsa. Það er einmitt slíkt fyrirkomulag, sem er nauðsynlegt að koma á. Ég veit, að núv. hæstv. fjmrh. mun nokkuð hafa athugað þetta mál og hvernig þessu fyrirkomulagi verði komið á. Það, sem hefur fælt menn frá því að fara inn á þessa braut, er sú vinna, sem leiðir af því að þurfa að gera upp tekjur hvers manns eftir árið, vegna þess að ekki er hægt að áætla svo nákvæman skattstiga á mismunandi tekjur manna, að ekki muni einhverju, meira eða minna en þeim ber að greiða í skatta yfir árið. En þetta er þó sú aðferð, sem alls staðar er notuð, að gert er upp eftir árið. Hafi skattgreiðandi greitt hærri skatta en honum ber, er það endurgreitt. Ef hann hefur greitt minna en honum ber, verður hann að greiða það í lok ársins.

Takmarkið hjá okkur á að vera það, að innheimtunni sé komið í það horf, að skattarnir séu greiddir jafnóðum og teknanna er aflað. Það er áreiðanlega hin rétta leið með greiðslu skatta og allra opinberra gjalda.

Ég vil svo leggja til, að umr. um þetta mál verði frestað og því verði vísað til hv. allshn.