12.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

Rannsókn kjörbréfa

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég undrast ekki, þó að framsóknarmenn kvarti nú mjög undan því, hversu þessar umræður dragist á langinn, því að sýnilegt er af því, sem fram hefur komið hér í málafærslu þeirra, að þeir eru gersamlega rökþrota í þessu máli. Ég er ekki heldur forviða á því, þó að sessunaut mínum, hv. 3. þm. Reykv., líði heldur illa undir upplestrinum á hans eigin fordæmingu á því máli, sem hann nú hefur tekið að sér að verja. Það getur stundum verið heppilegt að leika tveim skjöldum, en því fylgir þá ekki heiður að sama skapi.

Þeir aðilar, sem á er deilt í þessu máli, bera nú fyrir sig þær einkennilegu málsbætur, að þeir segja: Sjálfstæðismenn telja nú ólöglegt það, sem þeir töldu löglegt 1937. — Þetta er meginuppistaðan í málafærslu framsóknarmanna, og á þetta við samvinnu Sjálfstæðisflokksins við Bændaflokkinn 1937, sem mikið hefur verið talað um í umræðum þessum. En þetta er að vísu hrein fjarstæða, eins og margoft er búið að taka fram í þessum umræðum. Þó að þessir flokkar væru í samvinnu, í kosningasamvinnu á vissan hátt, þá lýstu þeir aldrei yfir því, að flokkarnir væru einn kosningaaðili, eins og margoft var gert af forustumönnum beggja flokka Hræðslubandalagsins. Þeir lögðu ekki hvor öðrum fram frambjóðendur, eins og þessir tveir flokkar hafa gert. Og þeir buðu hvor á móti öðrum í mörgum kjördæmum, sem þessir flokkar gerðu ekki í þessum kosningum, þeir buðu hvergi hvor á móti öðrum. Bendir nú allt til þess, að Framsfl. og Alþfl. séu farnir að sjá, hversu klaufalega þeir hafa farið að ráði sínu í þessu efni, í því trausti, að það skipti engu máli, hversu fruntalega þeir færu í kringum anda kosningalaganna.

Hv. 3. þm. Reykv., sem að vísu leggur nú blessun sína yfir þetta allt, sagði í gær, að Hræðslubandalagið hefði getað slegið vopnið úr höndum andstæðinganna, ef þeir hefðu haft vit á því að bjóða fram báðir, þó að ekki væri nema í einu kjördæmi, t. d. í Austur-Skaftafellssýslu, þar sem ekki var mikil hætta á, að Framsfl. gæti tapað mörgum atkv. Alþýðuflokksins. Það má vera, að þetta sé rétt. En það hefur þá verið hrokinn í þessu efni, sem hefur blindað Hræðslubandalagið.

Hér er aðeins deilt um það, hvort tveir flokkar, sem lýstu yfir algerri sambræðslu í kosningunum, sem lýstu yfir því, að þeir gengju til kosninganna sem einn flokkur, geti fengið uppbótarsæti hvor í sínu lagi, sem þeim ber ekki, ef sameiginlegt atkvæðamagn þeirra er lagt til grundvallar. Hér er deilt um það, hvort flokkur getur með opinberri flokkskosningu kosið frambjóðanda á lista hins flokksins, án þess að flokkarnir séu taldir ein kosningaheild, þegar á að útdeila uppbótarsætum til þess að jafna metin á milli allra flokka þingsins. Hér er deilt um það, hvort kosningasambræðsla Alþfl. og Framsfl. eigi að fá viðurkennd fjögur uppbótarsæti, sem landskjörstjórn hefur ekki viðurkennt, og tveir flokkar með meiri hluta á Alþingi hafa lýst því yfir, að þessir fjórir menn hafi ekki rétt til þingsetu. Þessir tveir flokkar hafa lýst því yfir, að vísu utan þings, en það er samt sem áður yfirlýsing frá tveimur flokkum, sem nú á þessari stundu hafa meiri hluta í þinginu.

Um þetta er þó ekki deilt af hálfu sjálfstæðismanna af því, að þeir hafi nokkra von um, að núverandi meiri hluti Alþ. hallist á sveif með réttlætinu og viðurkenni, að þverbrotinn sé andi kosningalaganna. Sjálfstæðismenn hafa ekki von um, að þetta geti gerzt, Og um þetta er ekki deilt nú vegna þess, að líklegt sé, eins og nú er komið, að það geti nokkru breytt um þá valdaaðstöðu, sem nú er í þinginu, vegna þess að það er sýnilegt, að stjórnarflokkarnir þjást ekki fyrst og fremst af mikilli réttlætiskennd. En um þetta er nú deilt til þess að fá úr því skorið, hvaða flokkar vilja taka ábyrgð á gerræðinu og eiga í framtíðinni að svara til sakar vegna þess fordæmis, sem hér hefur verið gefið til þess að hlunnfara kosningalög landsins og kjöldraga heiðarlega framkvæmd þeirra. Ég tel, að Framsfl. eigi hér þyngstu sökina í því að nota sér umkomuleysi Alþfl. til þess að koma þessu í framkvæmd og láta hann á þennan þátt eins og gert hefur verið hlunnfara kosningalögin.

Það mun álit flestra, að gengi Alþfl. væri nú heldur lítið og vesælt, ef hann hefði ekki gengið á mála hjá Framsfl, á s. l. sumri. En virðing framsóknarmanna fyrir skjólstæðingnum er sýnilega af skornum skammti, því að í umræðunum í gær sagði 1. þm. Eyf., að Alþfl. ætti að sjálfsögðu heimtingu á að fá þessi uppbótarsæti, og svo segir hann orðrétt: „ef hann á annað borð er viðurkenndur sem sérstakur flokkur“.

Það er varla hægt að skilja þessi ummæli nema á einn veg, að það sé varla ástæða til slíkrar viðurkenningar, enda verður ekki annað sagt en að Alþfl. sé nú orðinn próventukarl hjá Framsfl., lítils megandi, en þau not, sem Framsfl. hefur haft af þessum próventukarli sínum, geta gefið vont fordæmi fyrir framtíðina, Eins og Magnús Jónsson minntist á í sinni ræðu, væri það að sjálfsögðu innan handar fyrir Sjálfstfl. að stofna sams konar útbú eins og Framsfl. hefur í Alþfl. og hlunnfara á þann veg kosningalögin eins og gert hefur verið. Flokkurinn gæti stofnað próventuflokk eins og Alþfl., hvað sem hann yrði nú kallaður, hvort hann yrði kallaður sjálfstæðisbandalag eða eitthvað annað, sem yrði sett upp eingöngu í því skyni að ná í fleiri uppbótarsæti en flokkurinn getur fengið með núverandi skipulagi. Það er hægt að skipta núverandi fylgi flokksins þannig, að sex þm. hans væru með 4100 atkv, að baki hver og að 11 þm. væru með 950 atkv. að baki. Að vísu væri ekki hægt að slá met Framsfl. að hafa 760 atkv. á bak við hvern þingmann. En ef þessu hefði verið skipt á þennan hátt, mundi Sjálfstfl. hafa fengið nú a. m. k. fjóra uppbótarþingmenn.

Mundu nú hinir flokkarnir telja þetta rétt og löglegt, og mundu þeir telja þetta vera í anda kosningalaganna? Ég veit a. m. k. um einn flokk í þinginu, sem ekki mundi gera það. Það er sá hreini, vammlausi flokkur, sem ætíð stendur við orð sín, víkur aldrei af braut réttlætisins og verzlar ekki með sannfæringu sína, — það er Alþýðubandalagið, — Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkurinn. Til þess að staðfesta þetta hjartalag sitt hefur þessi flokkur við hverjar kosningar, sem hann hefur klofið Alþfl., bætt nýju heiti við nafn sitt, og þess vegna kemur hann nú út úr síðustu kosningunum með þessi nöfn. Hann á þó eftir að fá eitt nafn í viðbót, það er Alþýðuflokkur. Það mundi honum vafalaust fara vel, og hver veit, nema hann fái það í framtíðinni, ef hann getur klofið Alþfl. svo myndarlega, að hann geti lagt hann að velli. Ég efast ekki um, að hann mundi þá taka upp eitt nafn til viðbótar.

Þó að nokkuð hafi verið lesið ýmsum til skemmtunar og sérstaklega hv. 3. þm. Reykv. af því, sem Alþb. áður hefur sagt um slíkar aðgerðir sem þessar, þá ætla ég að enda þessi orð með að lesa, með leyfi hæstv. forseta, stuttan kafla, er sýnir, hvernig þessi hreini og vammlausi flokkur mundi líta á slíkar aðgerðir eins og þessar, sem ég lýsti, ef Sjálfstfl. t. d. gerði þær. Í Þjóðviljanum 8. júní er grein, sem heitir „Að stela þingmönnum“ og hljóðar svo:

„Það hefur verið talið einkenni afbrotamanna að vinna verk sín í leynum, og þess er vart dæmi, að menn tilkynni afbrot sín fyrir fram og skýri nákvæmlega, hvernig þeir ætla að fremja þau. En einsdæmin eru nú einnig farin að gerast á þessu sviði. Þannig hælast nú Alþfl, og Framsfl. daglega yfir því, að þeir ætli sér að stela þingmönnum í kosningunum í sumar, og skýra nákvæmlega, hvernig þeir ætla að gera það.“

Og í kosningablaði Alþýðubandalagsins segir 4. júní:

„Það sýnir bezt, hver alvara er í kosningaslagorðum Hræðslubandalagsins um stríð gegn fjárplógsstarfsemi braskara og svindlara, að sjálft gerist það sekt um mesta brask og svindl með atkvæði landsmanna, sem sagan getur um. — Þeir eiga yfir höfði sér hæstaréttardóminn á Alþingi fyrir tilraun til stærstu kosningasvika, sem gerð hafa verið á Íslandi.“

Svo mörg eru þau orð, Og nú er fróðlegt að sjá, hverjir greiða atkv. með löggildingu hins mesta brasks og svindls, sem stjórnmálasaga Íslendinga þekkir, að dómi Alþýðubandalagsins, — Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins.