06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (2710)

113. mál, verndun fiskimiða umhverfis Ísland

Flm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Ég get í rauninni verið fáorður um þessa þáltill. Henni fylgir allýtarleg grg., og nægir að mestu að vísa til hennar. Þar kemur skýrt í ljós, hver vá er fyrir dyrum hjá Íslendingum vegna bersýnilegrar ofveiði á miðunum við strendur landsins. Það er ekki annað sýnt en það stefni hröðum skrefum að því, að fiskistofninn hér við land sé að eyðast, og eru áhrifin í þessa átt því auðsærri sem lengur líður frá þeim tíma, sem friðunarinnar frá síðustu styrjöld naut. Þetta er allt greinilega rakið í grg. þeirri, sem till. þessari á þskj. 244 fylgir, og þykir ekki ástæða til að ræða það út af fyrir sig hér að nýju.

Það er augljóst mál, að ef vér komum hér engum vörnum við, þá horfir mjög óvænlega til um framtið Íslendinga. Yfir 90% af útflutningsverðmæti þjóðarinnar fæst fyrir sjávarafurðir. Þjóðinni fjölgar ört og færist með hverju árinu sem líður meira og meira í fang um framkvæmdir á öllum sviðum þjóðlífsins. Þessar framkvæmdir krefjast, svo sem til hagar hjá oss, mikils innflutnings, sem verður að greiða fyrr eða síðar með útflutningsverðmæti því, sem til fellur. Það er ríkjandi mikill framfarahugur með þjóðinni, og hefur hún komið miklu í verk á undanförnum áratugum um framkvæmdir á fjölmörgum sviðum.

En vér stöndum nú frammi fyrir þeirri mjög svo athyglisverðu og alvarlegu staðreynd, að sá atvinnuvegur, sem langsamlega mest mæðir á enn sem komið er um að leggja til útflutningsverðmætin, gerir ekki betur en að halda í horfi með heildarupphæðina þrátt fyrir verulega aukningu á fiskiskipaflotanum, sem ætti að eðlilegum hætti að fela í sér mikla aukningu á framleiðslunni. Það munar nú minna um en það, að aflinn á bátaflotanum í Faxaflóa var á árinu 1956 rúmlega einni smál. minni í hverjum einasta róðri heldur en t.d. að taka árið 1948, eftir stríðið. En þrátt fyrir þetta hafa bátarnir stækkað og veiðarfæranotkunin a.m.k. tvöfaldazt á síðustu 8 árum. Á Vestfjörðum er munurinn þó meiri, eða allt að þrem smálestum minni í róðri en hann var fyrir 8 árum. Þá hefur veiðimagnið hjá togurunum á heimamiðum einnig minnkað á 2 síðustu árunum.

Þetta er athyglisverð og alvarleg staðreynd, og enn kreppir að. Síðan vélbátaútvegur hófst á Suður- og Vesturlandi hefur aldrei verið neitt svipað því jafnskuggalegt útlit með veiðihorfur og nú á þessari yfirstandandi vertíð. Afleiðingar ofveiðinnar hafa aldrei komið jafnbert í ljós eins og nú, þótt fyrr hafi að vísu mátt ráða í það greinilega, hvert stefndi í þessu efni.

Hér verða því ný úrræði að koma til, ellegar stefnir í mjög óvænt efni fyrir Íslendingum um afkomu þeirra og framtíð. Það má öllum vera ljóst. Og þar sem Íslendingar eiga svo mikið undir því, að fiskveiðarnar gefi góða raun, kemur það þeim eitt að haldi, eins og nú er komið, að stækkað verði friðunarsvæðið við strendur landsins, að fiskveiðalandhelgin verði færð út. Það er ekkert nú, sem þjóðinni ríður meira á en að það verði gert. Einhliða ákvörðun Íslendinga í þessu efni á árunum 1950 og 1952 var þess valdandi, að við misstum um skeið markað fyrir fisk í gömlu viðskiptalandi. En Íslendingar bættu sér þetta markaðstap upp með nýjum úrræðum. Þau úrræði hafa reynzt oss haldgóð, og vér komum sterkari út úr þessari raun. Nú er þetta misklíðarefni úr sögunni og endurtekur sig vonandi ekki aftur, þegar sannanlegt er, að ný aukning á friðunarsvæðinu hér er Íslendingum lífsnauðsynleg.

Skilningur þjóðanna á háttum og högum hverrar annarrar vex við aukið samstarf í því þjóðabandalagi á vesturhveli jarðar, sem Íslendingar eru þátttakendur í. Stjórnarvöldum vorum á því að vera greiðari leið að því nú en áður að sannfæra samstarfsþjóðir Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu um það hver lífsnauðsyn okkur það er að auka friðunarsvæðið við strendur landsins, eins og hér er lagt til í þessari þáltill. Það ætti því að mega treysta því, að einhliða ákvörðun vor í þessu máli, sem reist er á ótvíræðri lífsnauðsyn þjóðarinnar, njóti, eins og málum nú er komið, skilnings og viðurkenningar samstarfsþjóða okkar, sem ritað hafa á skjöld sinn gullnu letri fyrirheit sitt um að vernda rétt og sjálfstæði smáþjóðanna.

Hér í Reykjavík var ekki alls fyrir löngu haldinn fundur um landhelgismál, sem hæstv. sjútvmrh. boðaði til. Það liggur ekki enn fyrir um niðurstöður þær, sem komizt var að um þetta mál á þessum fundi. En ég vildi mega með flutningi þessarar þáltill. vænta þess, að lagður væri með henni grundvöllur að heppilegri úrlausn þessa mikla nauðsynjamáls. Kemur það vonandi brátt í ljós, hvort svo er, í meðferð og afgreiðslu Alþingis á þessari till.

Að öðru leyti en því, sem hér er sagt, vísa ég, eins og áður er fram tekið, til grg. þeirrar, sem till. þessari fylgir. Legg ég svo til, að henni verði að umr. þessari lokinni vísað til allshn.