06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í D-deild Alþingistíðinda. (2717)

119. mál, björgunarbelti í íslenskum skipum

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Seyðf. (BjörgJ) og hv. þm. Barð. (SE) að flytja hér eina þáttill. varðandi björgunarbelti í íslenzkum skipum. Tilefnið til flutningsins er það, að í íslenzkum skipum, fiskiskipum, eru að langmestu leyti björgunarbelti af svokallaðri Capot-gerð, þ.e.a.s. þau eru þannig gerð, að flotefni þeirra eru trefjar, sem eru úðaðar að utan með vaxkenndu efni, og nágrannaþjóð okkar Danir hefur nýlega bannað slík belti í sínum skipum, af því að þeir telja þau vera engan veginn örugg um að standast þá raun, sem þeim annars hefur verið ætluð, og hafa sett sínum skipaútgerðarfyrirtækjum frest til 1. október í haust að vera búin að skipta um þessi öryggistæki í skipunum og koma þar fyrir öðrum, sem öruggari teljast.

Við Íslendingar vöknuðum að sjálfsögðu upp við allvondan draum, þegar við heyrðum þessar fréttir, því að svo mun það hafa verið, að almenningi hefur ekki verið kunnugt um það til þessa, að neitt væri varhugavert við þessi öryggistæki, sem allir munu þó sammála um að mikið er undir komið að ekki bregðist, þegar mest á reynir. En síðustu dagana hefur íslenzka skipaskoðunin upplýst það, að þetta mál sé ekki alveg nýtt af nálinni og hafi komið til umræðu á alþjóðaráðstefnum um öryggismál sjófarenda, og m.a. hefur forstöðumaður íslenzku skipaskoðunarinnar nú farið utan á ráðstefnu, þar sem m.a. er um þetta fjallað.

Vera má, að eitthvað af þeim fregnum, sem borizt hafa um vanhæfni þessara áhalda til þess að sinna því hlutverki, sem þeim er ætlað, sé ekki fullkomlega á rökum reist. En málið verður allavega að teljast svo athyglisvert, að það er vert, að Alþ. láti í ljós þá eindregnu ósk sína, að gengið verði úr skugga um það, að ekki sé treyst á hluti, sem ekki reynast nothæfir, þegar nauðsyn krefur, þannig að hér er lagt til, að Alþingi skori á ríkisstj. að láta nú þegar fara fram athugun á nothæfni björgunarbelta þeirra, sem i íslenzkum skipum eru, og ef sú athugun sýnir, að þessum tækjum sé að einhverju ekki treystandi, þá séu gerðar ráðstafanir til þess, að þar verði skipt um og komið á fullkomnu öryggi.

Ég vænti þess, að þetta mál þurfi ekki að valda deilum hér á þinginu og geti gengið hér fljótlega i gegn með allra samþykki um, að hér sé lögð áherzla á, að íslenzkir sjófarendur þurfi ekki að treysta á ónothæfa hluti eða lítt nothæfa. Og ég vil taka fram, að þótt þessum tækjum, sem hér um ræðir, sé í mörgum tilfellum treystandi, þá dregur það strax úr notagildi þeirra, ef menn hafa ástæðu til þess að vera að nokkru vantrúaðir á gildi þeirra, því að það er ekki síður nauðsynlegt, að sjófarendur séu í góðu trausti þess, að öryggistæki skipanna séu í því lagi og hafi það öryggisgildi, sem almennt er trúað, heldur en hitt, að vera megi, að þau sökkvi ekki mönnum, þó að skip sökkvi undan þeim. En Danir hafa beinlínis haldið því fram, að slík belti geti orðið mönnum svipað og myllusteinn um háls, gert frekar að sökkva þeim en að fleyta.

Ég vil svo að lokum óska þess, að á einhverju stigi umræðunnar verði málinu frestað og hv. allshn. gefinn kostur á að athuga till.