27.02.1957
Sameinað þing: 40. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (2722)

122. mál, fiskileitarskip

Flm. (Ásgeir Sigurðsson):

Herra forseti. Í till. á þskj. 269 er bent á, að hið háa Alþ. lýsi því sem vilja sínum, að einn hinna 15 togara, sem fyrirhugað er að láta byggja á næstunni til atvinnujöfnunar í landinu, verði útbúinn sem fiskileitarskip, fullkomið fiskileitarskip, þannig að rúm sé í honum fyrir fiskifræðinga til vísindaiðkana.

Það er ákveðin skoðun yfirmanna á veiðiskipaflotanum, og svo mun einnig vera um útgerðarmenn, að fiskileitarskips sé nú orðin sérstök þörf vegna aflatregðu á heimamiðum og vegna þess, hve hin fullkomnu skip eru nú orðin dýr í rekstri og því óviturlegt, að mörg veiðiskip eyði dýrmætum tíma í leitina að góðum veiðisvæðum, eins og nú á sér stað oftlega.

Til frekari sönnunar því, að fiskileitarskip séu mjög nauðsynleg og til mikils öryggis fyrir útgerðarmenn og útgerðina, má benda á, að Þjóðverjar t.d. eiga slíkt skip, sem Dohrn heitir. Er skipið mjög fullkominn togari, tvíþiljungur með rúmi fyrir fiskirannsóknir. Þetta skip fann hinn svonefnda Dohrn-banka, og veiddu Þjóðverjar þar á rúmum mánuði fyrir um 11 millj. þýzkra marka, sem er einvörðungu þakkað fiskileitarskipinu.

Það er því miður oft þannig, að ef ekki finnst næg veiði strax í byrjun ferðar, þá er veiðiförin alveg eyðilögð. Þessu mætti bæta úr með því að hagnýta fiskileitaraðferðina. En fiskileitarskip eru á undan flotanum á nýjum veiðisvæðum og láta vita, ef vel ber í veiði.

Samkv. þeim upplýsingum, sem tiltækar eru, veiddu íslenzkir togarar 1955 og 1956, hvort ár, um 172–174 þús. lestir, þar af sótt á erlend mið um 50 þús. lestir. Var útflutningsverðmæti aflans af hinum erlendu miðum um 90–100 millj. kr. fullverkað í landinu. Er því um allverulegar upphæðir að ræða. Þar eð þannig er háttað, að skip okkar verða að sækja jöfnum höndum á erlend mið, þá er það ljóst, að veita verður fiskileitinni meiri athygli en verið hefur og með tilvöldum skipum. Reynsla sú, er aðrar þjóðir hafa aflað sér í þessu efni, sýnir, að þörf er fyrir fiskileitarskip, og leggja þær mjög mikið upp úr árangri þeirra. Má m.a. marka það á því, að eins þekkt raunsæisþjóð og Þjóðverjar eru nú að láta byggja annað skip til þessa af sömu gerð og Dohrn. Má og benda á síldarrannsóknir frænda okkar, Norðmanna. Er alkunna, hvílíkan hag þeir hafa haft af síldarleit G. O. Sars og annarra rannsóknar- og fiskileitarskipa. Það bendir því allt til þess, að um mikið þjóðhagslegt atriði sé að ræða. Megum við því ekki vera eftirbátar í þessu efni, svo að okkar veiðiskip séu ekki verr á vegi stödd en skip annarra þjóða.

Tilvalið er að nota tækifærið, þegar á að fara að byggja þessi skip, að búa eitt þeirra þannig úr garði, að það verði gert sem fullkomið fiskirannsóknar- og fiskileitarskip.

Læt ég svo máli mínu lokið og vænti þess, að hv. alþm. sjái þörfina og ljái þessu máli lið, og legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.