15.05.1957
Sameinað þing: 57. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (2743)

164. mál, forgangsréttur sjómanna til ýmissa fastlaunaðra starfa

Flm. (Gunnlaugur Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 485 flyt ég till. um forgangsrétt sjómanna til fastlaunaðra starfa í landi. — Það er óumdeilt, að hin dugmikla íslenzka sjómannastétt hefur átt drjúgan þátt í því, að við Íslendingar höfum getað haldið hér uppi menningarríki og verið þess megnugir að standa á eigin fótum. Hins vegar er það einnig staðreynd, að nú blasir það við, að æ færri gera sjómennsku að ævistarfi. Tilgangurinn með flutningi till. þessarar er að reyna að sporna við þessari þróun og reyna að koma því til leiðar, að menn geri sjómennsku að ævistarfi.

Till. er aðallega í 3 liðum, og vil ég lauslega fara yfir þá, en aðallega vísa til ýtarlegrar greinargerðar, sem fylgir till.

Ætlunin með till. er, að leitað sé úrræða til þess að tryggja sjómönnum, sem verið hafa hásetar á togurum og kaupskipum í millilandasiglingum um fleiri ár, t.d. 20–30 ár, aðgang að fastlaunuðu starfi í landi að lokinni sjómennsku. Það mætti hugsa sér að binda þetta einnig við ákveðið aldurstakmark, t.d. að sjómenn eldri en 45 ára geti horfið í land að lokinni þjónustu í 20–30 ár og átt þá aðgang að fastlaunuðu starfi í landi. Það eru fjöldamörg störf, sem þessir menn gætu leyst af hendi, ég hef hérna í grg. bent á örfá og skal ekki fjölyrða frekar um það. Telja má líklegt, að sjómenn leggi mikið upp úr því að geta átt í vændum fastlaunað starf í landi að lokinni sjómennsku, og að þeim sé það meira virði að geta horfið í land að loknum tilteknum þjónustutíma og átt trygga vinnu heldur en þurfa að eiga á hættu að eiga í samkeppni við unga og ólúna verkamenn við alls konar daglaunastörf. Þess vegna er nauðsynlegt, að störf þessara manna, togarasjómanna og háseta í millilandasiglingum, sem eru langdvölum fjarri heimilum sínum, séu metin sem vert er og þeim tryggð þau forréttindi, sem bent er á í till.

Meðal erlendra þjóða er það töluvert tíðkað að veita t.d. hermönnum, sem hafa gegnt herþjónustu fjarri ættlandi sínu, forgangsrétt að vissum störfum.

Í öðru lagi er bent á þá leið í till., að hásetar, sem verið hafa á togurum í tiltekinn árafjölda, t.d. í 15 ár, skuli hafa forgangsrétt að hásetaplássum á millilandaskipum. Það er alkunna, að störf á millilandaskipum eru ekki nærri eins erfið og störf á togurum, auk þess fylgja þeim ýmiss konar gjaldeyrisfríðindi, og eru þau mjög eftirsótt. Væri því rétt að tryggja á þennan hátt, að ungir menn réðust fyrst til starfa á togurum, en síðan til starfa á millilandaskipum, og þannig fengist vinnuafl, svo sem hér er bent á, og ekki þyrfti að leita út fyrir landssteinana.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta, en að endingu víkja að niðurlagi tillögunnar, en þar er talað um, að það beri að tryggja, að sjómenn fái tiltekinn tíma af sjómennskutímanum, 3/5 hluta, reiknaðan sem þjónustutíma, ef þeir ráðist til starfa hjá ríki eða bæ. Virðist það bæði eðlilegt og sanngjarnt, að þegar menn, sem gegnt hafa þessum störfum, koma í land, þurfi þeir ekki að sæta því að byrja á byrjunarlaunum í því starfi, sem þeir ráðast til. — Legg ég svo að endingu til, að máli þessu verði frestað og því verði vísað til allshn.