22.05.1957
Sameinað þing: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í D-deild Alþingistíðinda. (2755)

168. mál, sameiningÁfengisverslunar og Tóbakseinkasölu

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta og þeim hv. þm., sem veittu leyfi sitt til, að þessi till. mætti koma hér á dagskrá. Ég skal, eins og ég gat um, þegar ég fór þess á leit, ekki flytja langt mál, til þess að lengja ekki fundinn úr hófi fram, enda gerist þess ekki þörf.

Till. þessi fjallar um það að fela ríkisstj. að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að auðið sé að sameina í eitt fyrirtæki þessar tvær ríkisstofnanir, Áfengisverzlun ríkisins og Tóbakseinkasölu ríkisins. Rökstuðningur fyrir till. þessari er einfaldlega sá, að það eru mjög sterkar líkur fyrir því, að þessi sameining fyrirtækjanna gæti stuðlað að sparnaði í rekstri þeirra. Miðað við þær stórkostlegu útgjaldahækkanir, sem árlega verða hjá ríkissjóði, má ef til vill segja, að það muni ekki valda neinum byltingum til aukins sparnaðar, þótt af þessari sameiningu yrði, en það er hins vegar svo, að það sýnist ástæða til, ef einhverjir möguleikar eru til sparnaðar, að reyna að hagnýta þá möguleika, því að oft er um það talað, að lítið sé gert í sparnaðarátt, og vissulega er það, og því mætti ætla, að allir væru reiðubúnir til þess að ljá lið sitt, ef hugsanlegt væri, að hægt væri að finna grundvöll til sparnaðar í ríkisrekstrinum, sparnaðar á því sviði, sem ekki snertir hina almennu þjónustu, sem borgurunum er veitt, og því leiðir ekki til þess að þurfa á neinn hátt að draga úr þeim hlunnindum, sem ríkið veitir þeim, sem eru vitanlega meginútgjaldaliðir fjárlaga.

Í fjárl. ársins 1957 er gert ráð fyrir, að rekstrarútgjöld tóbakseinkasölunnar séu 6.2 millj. kr. rúmar og áfengiseinkasölunnar 11.9 millj. rúmar, eða rúmar 18 millj. kr. þessi tvö fyrirtæki. Ég vil ekki á neinn hátt halda því fram, að þessi fyrirtæki séu illa rekin og það sé ekki við komið öllum þeim sparnaði, sem hægt er að koma við. Hins vegar vill það nú verða svo oft, að það er ekki eins mikið lagt sig eftir að fylgja fram strangasta sparnaði í stofnunum, sem skila geysilegum tekjuafgangi árlega, og þeim, sem berjast í bökkum, þannig að það má ef til vill gera ráð fyrir því, að það sé ekki svo mikið aðhald þar sem annars staðar. Með þessu er ég þó ekki að gefa í skyn, að þarna sé um neina óeðlilega fjáreyðslu að ræða, heldur aðeins benda á þessar líkur, sem er ekki nema eðlilegt að geti verið til staðar, þegar um slíkar stofnanir er að ræða eins og hér greinir, sem jafnan hafa þennan mikla greiðsluafgang.

Nú munu hv. þm. vafalaust spyrja: Hvaða líkur eru fyrir því, að hér geti orðið um sparnað að ræða, eða eru yfirleitt nokkrar líkur fyrir því, að það sé hægt að sameina þessi tvö fyrirtæki og koma við nokkrum sérstökum sparnaði? Ég vil um það atriði vísa til þess, að 1950 lagði hæstv. fjmrh. fram frv. hér á Alþingi um sameiningu þessara tveggja ríkisfyrirtækja og stofnun Áfengis- og tóbakseinkasölu ríkisins. Í grg. með því frv. er tekið fram, eins og er endurprentað í grg. þessarar till., að ætla megi, að af þessu geti orðið sparnaður í beinum rekstri stofnananna. Ég geri ráð fyrir því, að ef það hefur mátt ganga út frá því þá, að um sparnað yrði að ræða, og það var gert ráð fyrir því af hæstv. fjmrh., sem hefur vitanlega manna bezta möguleika til þess að gera sér grein fyrir þessari hlið málsins, þá megi ætla einnig nú, að slíkur sparnaður geti orðið.

Ástæðan til þess, að þessu máli er hreyft nú, er fyrst og fremst sú, að nú standa svo sakir, að forstjóraembættið við aðra þessa stofnun er að losna eða þegar laust, en það er nú, eins og menn vita, oft og tíðum erfiðara um vík að sameina stofnanir eða gera verulegar skipulagsbreytingar, þegar ekki verða þar nein mannaskipti eða losnar um forstjórn fyrirtækjanna, og því ætið vænlegast að gera það, þegar þannig standa sakir til þess að ekki verði neinir árekstrar af þeim sökum. Það er einmitt af þessum ástæðum, sem við hreyfum þessu málí nú. Ástæðan til, að við höfum gert það í ályktunarformi, en ekki með því að endurflytja það frv., sem flutt var á þinginu 1950, byggist fyrst og fremst á því, að það kann vel að verða nauðsynlegt að endurskoða það frv. að einhverju leyti, þannig að það hæfi ekki alls kostar eins og ástatt er nú, og við höfum ekki haft aðstöðu til að kynna okkur það, eins og vitanlega fjmrn. hefur, sem hefur yfirstjórn þessara stofnana. Því sýndist okkur skynsamlegra að hafa það í þessu formi, að ríkisstj. tæki að sér að undirbúa það mál í löggjafarformi fyrir næsta þing, en hins vegar nauðsynlegt, að fram komi þegar á þessu þingi viljayfirlýsing frá Alþingi um það, hvort það vill stuðla að því, að þessi sameining fyrirtækjanna geti farið fram, því að það er vitanlega nauðsynlegt, að það verði um það tekin ákvörðun, áður en kemur til að ráðstafa því forstjórastarfi, sem er laust nú við annað þessara fyrirtækja.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að umr. um málið verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.