05.12.1956
Sameinað þing: 14. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (2787)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Fyrirspyrjandi (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hafa þau tíðindi gerzt síðustu vikurnar, sem truflað hafa stórkostlega dreifingu á brennsluolíu til Vestur-Evrópu. Við lokun Súez-skurðarins þurfti aukinn skipakost til þess að flytja olíu frá Austurlöndum, og afleiðing þess varð svo gífurleg hækkun farmgjalda með olíuskipum og mikill skortur á slíkum skipakosti.

Hér á landi sem víða annars staðar eru atvinnuvegirnir svo háðir brennsluolíuaðflutningum, að öngþveiti mundi verða hér ríkjandi, ef olíuflutningar tepptust algerlega um nokkurt skeið. Sérstaklega er sjávarútvegurinn mjög háður þessari vöru, þar sem svo að segja hver fleyta, sem á sjó fer, notar þetta eldsneyti. Það er því ekki að ástæðulausu, þó að eins og nú standa sakir sé spurt um það, hvað ríkisstj. hafi gert til þess að tryggja olíuflutninga til landsins, enn fremur um það, hvaða innkaupsverð sé nú á olíu og hvaða verð sé á farmgjöldum með olíuskipum, og enn fremur, hvaða verð sé gert ráð fyrir að verði gildandi á þeirri olíu, sem útvegurinn notar næstu vertíð.

Því hefur verið haldið fram, að mikil mistök hafi orðið hjá hæstv. viðskmrh. í sambandi við íhlutun hans um leigu skipa undir svartolíu, en það er sú olía, sem togararnir nota. Synjaði ráðherra félögunum um að leigja skip, meðan skip voru fáanleg með nokkurn veginn skaplegu verði, en heimilaði síðan, þegar farmgjöldin höfðu nálega tvöfaldazt, að leigja þá skip. En þessi verðmunur á farmgjaldinu á þeim eina farmi, sem síðast hefur verið keyptur, er að meðaltali fyrir togarana um 2000 kr. á dag á skip, á meðan þessi farmur endist.

Heyrzt hefur síðustu dagana, að ógerlegt hafi reynzt að leigja olíuskip til flutninga frá Svartahafi til Íslands. Hversu lengi þessir erfiðleikar standa, er að sjálfsögðu ekki gott að segja, en birgðir í landinu af olíu eru mjög af skornum skammti.

Eins og kunnugt er, er eitt olíuskip skráð hér á landi, Hamrafell. Þetta skip er nú á leiðinni eða um það leyti að koma hingað til lands með fyrsta farminn af dieselolíu og benzíni, og mun þetta skip vera leigt fyrir 100 sh. á tonnið. Hins vegar er talið, að núverandi markaðsverð á heimsmarkaðinum fyrir olíuflutninga muni vera 200–240 sh. tonnið.

Ef bátaflotinn þyrfti að greiða svo hækkað verð á flutningum á olíu, t.d. 200 sh. á tonnið, þá mundi það nema um 300–400 kr. hækkun á hvert tonn, en það mundi jafngilda nálægt 30–35% hærra verði fyrir olíuna en nú er. Þetta mundi því hafa gífurleg áhrif á afkomu bátaflotans, ef hann þyrfti að greiða þessa miklu farmgjaldahækkun á olíuverðinu.

Eins og ég sagði, þá flytur Hamrafellið nú olíu fyrir 100 sh. á hvert tonn. Talið er, að slíkt farmgjald gefi skipinu góðan hagnað. Mér þykir líklegt, að eigendur skipsins muni ekki hyggja á að nota sér það neyðarástand, sem nú er að skapast, með því að heimta það háa fragtverð, sem nú er á heimsmarkaðnum. Annars hefur ríkisstj. að sjálfsögðu þetta í hendi sér um ákvörðun farmgjaldsins, því að skv. lögum nr. 35 1950 getur innflutningsskrifstofan ákveðið gjöld fyrir flutning með íslenzkum skipum, alveg eins og ríkisstj. getur einnig ákveðið, hvort íslenzk skip eru leigð úr landi eða ekki.

Ég vænti, að hæstv. ráðh. gefi góð og glögg svör við þeirri fsp., sem hér liggur fyrir.