23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í D-deild Alþingistíðinda. (2805)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þessa ræðu hv. 5. þm. Reykv., en hún er sannast að segja fullkomin viðurkenning á því, sem ég var að halda fram. Hann viðurkennir, að Eimskipafélagið hafi rakað saman tugum milljóna króna — að óþörfu náttúrlega — fram yfir rekstrarkostnaðinn á styrjaldarárunum við að flytja vörur til landsins, en það hefði verið það mesta happ, sem yfir þjóðina hafi komið, að þeir skyldu eiga svona mikla sjóði og geta byggt skip á eftir.

Ætli það geti ekki verið, að við þurfum að byggja skip oftar en þá, þegar styrjöldinni lauk? Og ætli það geti ekki verið happ líka, þegar fragtir eru háar, fyrir okkar eigin skip, að þau geti safnað einhverjum sjóðum til þess að standa undir, þó að það séu fleiri en Eimskipafélag Íslands, sem þurfi á því að halda? Mér skilst það. Það er eitthvað einkennilegt um þetta félag, ef það eitt er útilokað frá því að flytja heila skipsfarma til landsins, sem kallað er, þ.e.a.s. eina tegund. Hvernig stendur á því, að þeir gera það ekki? Mér er nú ekki grunlaust um, að þeir geri þetta líka, og er vitanlega öllum vitanlegt, að þeir gera það og hafa meira að segja fengið leiguskip í stórum stíl til að gera það og hafa grætt á því geysilegt fé undanfarið, og enginn hefur haft við það að athuga, ekki nokkurn skapaðan hlut, annað en að nú lýsir þessi hv. þm., hv. 5. þm. Reykv., yfir því, að það sé eitthvert mesta þjóðarhapp, sem hafi verið gert, að lofa þeim að taka svona háar fragtir. Öðruvísi mér áður brá, þegar Hamrafellið á í hlut.

Þá segir hann, að það hafi nú verið eitthvað annað að sigla á stríðsárunum, það hafi fáir verið, sem hafi viljað óska eftir því.

Vill hv. 5. þm. Reykv. segja mér það, hve margir óskuðu eftir að sigla yfir Svartahaf, þegar samningurinn var gerður um Hamrafellið? Hvað voru það margir aðilar?

Ég held satt að segja, að þegar samningurinn var gerður, þegar Hamrafellið kom, þá hafi svo að segja öll útgerðarfélög, sem olíuskip áttu, neitað að sigla inn í Svartahaf, vegna þess að þau óttuðust það — og fyrir það einmitt hækkuðu fragtirnar svona gífurlega m.a., — að þeir mundu tapa skipum sínum með því að láta þau sigla inn í Svartahaf, ef til styrjaldar kæmi.

Á styrjaldarárunum fengust menn þó þannig til að sigla. Það var meira að segja hægt að græða þá, og Eimskipafélagið græddi á því í geysilega stórum stíl að taka mikið af leiguskipum, og vitanlega setja þær fragtir, sem þá voru gildandi á heimsmarkaðinum.

Allt þetta mál er svo furðulegt, að meira að segja sjálfstæðismenn úti um allt land undra sig á þeim málflutningi, sem hér hefur komið, og þeim móttökum, sem þetta skip fær, sem er okkur einhver mesti bjargvættur, sem nokkurn tíma hefur komið til landsins, og á þeim tíma, sem við höfum langmesta þörf fyrir það. Og þeir aðilar, sem standa að þessu skipi, að kaupa það til landsins, og semja strax þrátt fyrir allar sínar skuldir, sem þeir eru með á skipinu, um að flytja fyrir 60–80 sh. minna á hvert einasta tonn heldur en aðrir taka, verða fyrir árásunum, en ekki hinir, sem taka allt, sem þeir mega og geta.

Þetta er svo furðulegur hugsunarháttur, að öll þjóðin undrast það, alveg jafnt flokksmenn þessara manna, sem eru með þennan málflutning hér á Alþingi, eins og hinir, sem standa að baki samvinnufélögunum og eiga þennan skipakost.