23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (2810)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Í gömlu ævintýri er frá því greint, að jafnan þegar spurt hafi verið um konung einn, þá hafi verið svarað: Hann er í klæðaskápnum.

Mér dettur þetta í hug í sambandi við hæstv. ríkisstj., að um hana mætti segja, ef spurt væri um hana og athafnir hennar, hvað hún væri að aðhafast: Hún er í olíunni.

Og það hefur verið sagt, að stefna hennar í verðlagsmálum mótist af „olíuandanum“. Ég held, að þetta sé satt. Ég held, að stefnu og framkvæmdum hæstv. ríkisstj. í verðlagsmálum verði ekki lýst betur en með því að segja, að hún mótist af „olíuandanum“.

Annars er það fyrst og fremst tvennt, sem hefur verið deilt á hæstv. ríkisstj. fyrir í þessum málum: Í fyrsta lagi, að hún hafi tafið leigu á skipum til olíuflutninga og af því hafi síðan leitt stórhækkaðan flutningskostnað, sem valdið hafi þjóðinni milljónatjóni. Þetta er sannað, og ég eyði ekki tíma mínum hér til þess að rekja það. Í öðru lagi, að hæstv. ríkisstj. hafi leyft Olíufélaginu h/f óhóflegan gróða á hinu nýja olíuflutningaskipi sínu, sem öll þjóðin fagnar að komið er til landsins, — óhóflegan gróða á örskömmum tíma.

Hæstv. ráðherrar og fleiri stjórnarstuðningsmenn, sem hér hafa talað, hafa látið liggja að því, að sjálfstæðismenn einir hafi gagnrýnt hæstv. ríkisstj. fyrir þetta, og einn hv. þm. komst þannig að orði, að úti um allt land undruðust menn þetta, að sjálfstæðismenn væru að gagnrýna blessaða stjórnina fyrir þetta.

Ég held nú, að staðreyndirnar tali öðru máli. Það var minnzt á það hér áðan, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefði samþykkt með samhljóða atkv., þ.e.a.s. að undanteknum framsóknarmanninum, sem þar á sæti, með 14 atkv. gegn einu, vítur á þetta. Hæstv. viðskmrh. vildi segja, að þetta væru alls ekki vítur. Ég vil nú, þótt hv. 2. þm. Eyf. hafi svarað þessum ummælum hæstv. ráðh. lítillega, aðeins lesa upp þessa tillögu. Hún er á þessa leið og var samþykkt með atkvæðum stjórnarstuðningsmanna, allra nema framsóknarmannsins, í bæjarstjórn Reykjavíkur:

„Þar sem upplýst er, að fyrirhuguð farmgjöld hjá hinu nýja íslenzka olíuskipi eru meira en helmingi hærri en nauðsyn krefur, og vitanlegt, að slíkt hefur í för með sér milljónaútgjöld fyrir Reykvíkinga, þá skorar bæjarstjórn Reykjavíkur á félmrh. að beita áhrifum sínum sem æðsti yfirmaður verðlagsmála til þess að hindra slíkt okur.“

Hæstv. viðskmrh. kallar þetta ekki vítur. Eru þetta ekki bara meðmæli með því, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert? Ég held, að allir Íslendingar, sem tala íslenzku og skilja íslenzku, geti ekki skilið þetta nema á einn veg: sem harðorðar vítur. Þar er talað um það, að flutningsgjöldin séu meira en helmingi hærri en nauðsyn krefji, og skorað á félmrh. að beita sér fyrir að hindra slíkt „okur“.

Í umræðunum kom það einnig fram, að einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. jafnaði þessu atferli við það, sem „ósvífnustu auðhringar“ leyfðu sér. Ég segi, að hæstv. viðskmrh. er lítilþægur, ef hann tekur þetta sem traustsyfirlýsingu við sig.

Og annar hv. andstæðingur sjálfstæðismanna lýsti því yfir í samræmi við það, sem við sjálfstæðismenn höfum haldið hér fram, að Olíufélagið ætlaði sér að græða hvorki meira né minna en 14 millj. króna aukalega á fjórum förmum.

Þetta er náttúrlega ekki „milliliðagróði“. (Forseti: Tíminn er búinn.) Ég vil aðeins rétt syndga upp á náð hæstv. forseta í eina mínútu eða svo.

Hæstv. félmrh. sagði hér áðan, að olíufélögin þurfi ekki að fá leyfi ríkisstj. til þess að semja um leigu á skipum. Í grein hæstv. viðskmrh. er einnig komizt að orði á þessa leið í Þjóðviljanum fyrir nokkrum dögum:

„Olíufélögin höfðu fulla heimild til leigu á hvaða olíuskipi sem þau vildu. Ég hafði enga íhlutun í frammi við félögin.“

En í bréfi til olíufélaganna 9. okt. s.l. segir ráðherrann:

„Ráðuneytið væntir þess, að olíufélögin láti það fylgjast með því, hvaða ráðstafanir verði gerðar til leigu á olíuflutningaskipi.“

Þá þarf þó rn. að fylgjast með því. En það gengur lengra. Í bréfi 16. nóv. skrifar hæstv. viðskmrh.:

„Fyrst töldu þau (félögin), að leigja yrði skip á 150 sh. pr. tonn, en það var hækkun úr 98 sh., sem síðasti farmurinn var fluttur á. Ráðuneytið taldi sig ekki vilja mæla með þessari leigu. Nokkru síðar óskuðu félögin að leigja skip undir þennan farm á 129.6 sh. Ráðuneytið var ekki viðbúið að samþykkja þessa hækkun heldur.“

Hvernig stóð á því, að rn. þurfti þá allt í einu að fara að samþykkja, ef það réð engu um þetta og félögin gátu farið sínu fram?

Og enn segir hæstv. ráðh. í bréfi þann 19. nóv.:

„Ráðuneytið staðfestir hér með, að ríkisstj. heimilaði 16. þ.m. olíufélögunum að leigja skip til flutninga á fuelolíu frá Sovétríkjunum til Íslands á 220 sh. pr. tonn.“

Þá er rn. allt í einu farið „að heimila“ það, sem það segir að félögin hafi alls ekki þurft á að halda áður; það er sem sagt leyfi frá því sjálfu. Loks segir hæstv. ráðh. í bréfi 23. nóv.:

„Viðskmrh. hefur ekki með verðlagsmál að gera og ákveður því ekki olíuverð eða hámarksfragt.“

Þá er hæstv. ráðh. farinn að afsaka sig. Á kostnað hvers? Á kostnað síns kæra vinar og bróður, hæstv. félmrh., sem hér var að ljúka máli sínu áðan og sagði, að olíufélögin þyrftu ekki að fá leyfi ríkisstjórnarinnar til að semja um leigu á skipi. Loks segir svo hæstv. ráðh. í grein sinni í Þjóðviljanum fyrir nokkrum dögum:

„Eigi að ásaka einhvern fyrir það, að flutningaskip var ekki leigt á 120 sh. nokkrum dögum eftir Súez-stríðið, þá eru það olíufélögin sjálf. En mig er ekki hægt að ásaka, því að ég hafði ekki flutningana með höndum.“

Ja, mér þykir hæstv. ráðh. segja manni fréttir, að hann hafi ekki sjálfur flutningana með höndum. Ég hef nú ekki heyrt nokkurn ásaka hæstv. ráðh. fyrir að hafa ekki flutt olíuna sjálfur. En hvað sannar það, sem ég hér hef lesið upp úr bréfum hæstv. ráðh.? Ekkert annað en það, sem við höfum haldið fram, að hann hefur beinlínis með sínum áhrifum tafið olíuflutningana til landsins, þannig að farmgjöldin hafa á þeim tíma stórhækkað, og síðan leyft olíufélögunum að flytja olíuna með miklu hærra farmgjaldi en þau áður áttu kost á.

Ég hef syndgað upp á náð hæstv. forseta og bið hann afsökunar á því. En ég vil að lokum segja það, að það er alveg áreiðanlega mikill misskilningur hjá hv. 2. þm. Rang., ef hann heldur, að sjálfstæðismenn séu áfelldir fyrir það úti um allt land að hafa hreyft þessu hneykslismáli, sem hér er til umræðu. Ég býst við, að ég sé eins vel kunnugur og þessi hv. þm. í mörgum sjávarþorpum og kaupstöðum landsins, og þar veit ég það, að það eru ekki eingöngu sjálfstæðismenn, sem telja það reginhneyksli, sem ríkisstj. hefur framið í olíumálunum, heldur allur almenningur í byggðarlögunum. Og hæstv. ríkisstj. á eftir að bíta úr nálinni með þau afglöp, sem hún hefur framið, og með það stórtjón, sem hún hefur bakað þjóðinni með aðgerðum sínum í þessum málum.