23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (2813)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég dreg það ekki í efa, að hæstv. ráðherrum þyki það allóþægilegt að sitja undir umr. og aðfinnslum í þessu máli og að þeim sé það allkært, að sífellt fleiri og fleiri sjálfstæðismenn og stjórnarandstæðingar tali sig dauða í því, eins og þeir kalla. En ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði áðan við hæstv. viðskmrh., að við stjórnarandstæðingar erum í þessum umr. fyrst og fremst að gæta hagsmuna almennings. Við erum að verja almenning fyrir því ofbeldi, fyrir því gróðabralli, sem hæstv. ríkisstj. er að þröngva upp á aðalframleiðslustétt þjóðarinnar, þ.e.a.s. sjómenn og útvegsmenn. Það er þetta, sem er að gerast í þessum umr., að það er verið að verja aðalframleiðslustétt þjóðarinnar fyrir einhverju purkunarlausasta og ósvífnasta gróðabralli, sem um getur í kaupsýslusögu síðari ára. Það er ekkert að furða, þó að hæstv. viðskmrh., sem um langan aldur hefur þótzt vera einn aðalpostulinn í stríðinu gegn milliliðagróðanum, kveinki sér, þegar það er danglað í hann fyrir þetta framferði sitt, og hann má vera þess alveg fullviss, að við, fulltrúar útvegsmanna og sjómanna í Sjálfstfl., munum ekki láta hann sleppa, þó að hæstv. forseta takist að ljúka umr. um þetta mál, sem eru þegar orðnar alllangar, nú á þessum fundi.

Hæstv. ráðherra er nú kominn í algera sjálfheldu, þar sem hann þrautstaglast á því, að olíufélögin hafi verið algerlega frjáls að því að leigja skip. Hins vegar, segir hann um leið, hafi þau ekki vald til þess að ákveða verðlagið á olíunni.

Heldur nú hæstv. ráðh., að nokkur einasti maður trúi því, þegar hann segir það, að hann geti ekki haft nein áhrif á leigu skipa til olíuflutninga til landsins, þegar hann segir þó í leiðinni, að auðvitað hafi ríkisstj. í hendi sinni alla leigu á olíuskipum til landsins með verðlagsákvörðunarvaldinu? En hæstv. ráðh. bætir við, svona eins og til þess að létta ábyrgðinni af sér: Veit ekki hv. þm. N-Ísf., að það er ekki ég, sem verðlagsákvörðunarvaldið heyrir undir, það er hæstv. félmrh.? — Hafa menn nú heyrt öllu aumlegri afsökun? Hæstv. ráðh. skellir skuldinni af sér yfir á bak flokksbróður síns. Og ég skal játa það, að mig furðar ekkert mjög mikið á því, þó að hæstv. félmrh. láti lítið sjá sig við þessar umr. Hann er alltaf öðru hverju að skjótast út. Hann er eins og á stöðugum flótta, hann er eins og á hálfgerðu sálnaflakki, meðan á þessum umr. stendur, meðan hæstv. viðskmrh., flokksbróðir hans, er sífellt að punda þessu á hann, að það sé hann, sem hafi valdið í sinni hendi.

Ég fæ ekki betur séð en að hæstv. viðskmrh. sé hér kominn í algera sjálfheldu. Hann heldur því fram, að hann hafi ekki möguleika til þess að hafa áhrif á skipaleiguna, en segir, að það sé sá ráðh., sem fari með verðlagsmálin, sem hafi allt líf olíufélaganna í hendi sinni, líka það, hvaða skip þau leigja til flutninganna.

Það er líka alveg auðsætt, að hæstv. ráðh. er mjög illa á vegi staddur, þegar hann er að reyna að breiða yfir það, að hans eigin stuðningsmenn og stuðningsmenn ríkisstj. í heild, nema Framsfl., hafi sett fram hreinar vítur á ríkisstj. með samþykkt sinni í bæjarstjórn Rvíkur. Ég las hana upp hér áðan. Það var talað um okur, skorað á viðskmrh., á verðlagsmálaráðherra, sem er félmrh., að hindra okur. Hefur hann hindrað þetta „okur“, sem verið er að mótmæla? Hverju var verið að mótmæla nema leigunni á Hamrafellinu? Ég held, að hæstv. ráðh. hafi ekki hindrað það. Það er líka talað í þessari sömu ályktun um, að leigan sé helmingi hærri en nauðsynlegt hefði verið, til þess að fyrirtækið hefði getað haft sæmilegan hagnað. Og þetta er gert undir verndarvæng mannanna, sem alltaf eru að berjast gegn „milliliðagróðanum“ og sífellt að „sigra“ á þeim vettvangi.

Það, sem hæstv. ráðh. klykkti hér út með, að umr. okkar sjálfstæðismanna endurómuðu hér í þinginu af kvörtunum olíufélaganna yfir því að mega ekki hækka verðlag, er auðvitað alger blekking. Við sjálfstæðismenn höfum ekki verið að bera neitt blak af olíufélögunum eða kvarta fyrir þeirra hönd. Við erum fyrst og fremst, eins og ég sagði áðan, að benda á það, að hæstv. viðskmrh. og hæstv. ríkisstj. í heild hefur með sínu framferði valdið útvegsmönnum og sjómönnum í landinu og þar með þjóðinni allri milljónatjóni. Það eru þessar kvartanir, sem við erum að bera fram, en ekki kvartanir olíufélaganna yfir því að mega ekki hækka verðlag, enda fá þau að hækka verðlag. Ég vildi bara spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann reikni með því, að verðlagið á olíu verði óbreytt. Ég veit ekki betur en það hafi verið upplýst í umr. hér fyrir jólin, að verðlag á olíu mundi hækka. (Forseti: Tíminn er liðinn.) Ríkissjóður yrði bara að borga þá hækkun.

Það er svo að sjálfsögðu fullkomin blekking og útúrsnúningur úr ummælum hv. 1. þm. Rang., að sjálfstæðismenn hafi ekki viljað taka tilboði um 60 sh. farmgjald á tonnið fyrir olíuna. Ég hef ekki tíma til þess að ræða það hér nánar, en í því sambandi vildi ég aðeins benda á það, að hv. núv. stjórnarflokkar héldu því fram á s.l. vori, að nú væri upprunninn sá Fróðafriður í veröldinni, að aldrei hefði litið bjartar út í alþjóðamálum. Ef sjálfstæðismenn hefðu lagt trúnað á þetta, sem þeir að vísu gerðu ekki, þá hefði mátt ætla, að einhverjar líkur væru fyrir því, að verðlag á olíufrögtum færi heldur lækkandi en hækkandi, og þeir kynnu þá að hafa haft einhverja stoð í þessari ákvörðun sinni, ef þeir hefðu haft aðstöðu til þess að hafna 60 sh. fragt.

Ég skal ljúka þessu máli mínu með því að biðja hæstv. forseta afsökunar á því, að ég hef farið fram yfir tímann í ræðum mínum, en endurtaka það, að ég vænti þess, að þjóðin muni skilja það fyrr en seinna, að það erum við sjálfstæðismenn, sem erum að berjast fyrir hennar hagsmunum. Það skilja ekki hvað sízt sjómenn og útvegsmenn.