23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (2815)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég tek fyllilega undir það með hæstv. forseta, að hér er að vissu leyti um mjög ójafnan leik að ræða milli fyrirspyrjenda og stjórnarandstöðunnar og hæstv. ríkisstj., þar sem hæstv ríkisstj. hefur leyfi til þess að tala eins lengi og eins oft og hún kýs, en hver þm. aðeins tvisvar sinnum og í fimm mínútur. En engu að síður hefur verið nauðsynlegt að hafa þennan hátt á, vegna þess að jafnvel eftir þessar mörgu ræður eru ýmis atriði, sem eru undirstaða frekari umr., óupplýst, vegna þess að ráðherrarnir í öllum sínum löngu ræðum hafa skotið sér hjá því að svara þeim, og hefði þó mátt búast við, að þeim gæfist tími til þess. Þeir hafa svarað nokkrum hluta fyrstu fsp., en engan veginn öllum þeim atriðum, sem fram hafa komið í meðferð málsins, og með leyfi hæstv. forseta, víl ég aðeins víkja að einu atriði, bara til að sanna mitt mál, að hæstv. viðskmrh. heldur því fram, að ríkisstj. hafi tekið vissar ákvarðanir um verðlagningu olíunnar og að halda verðlaginu niðri. Engu að síður heldur hann því fram gegn fsp. hv. þm. Vestm., að hann viti ekki um verðlagið á þeirri olíu, sem eigi að fá hjá svokölluðu varnarliði úr Hvalfirði og hann þó um leið upplýsir að muni verða til þess að halda öllum togaraflotanum gangandi.

Það er greinilegt, að það þyrfti í raun og veru enn þá fleiri og rækilegri tíma af hálfu fyrirspyrjenda til þess að reyna að lokka út úr hæstv. ríkisstj., hvað inni fyrir er í raun og veru, en einmitt það, að hún hefur goldið slíkt afhroð í þessum umr., að hæstv. forseti sem hennar góði stuðningsmaður skorar á menn að leika ekki þann sama leik oftar, sýnir, að hér hefur mjög að verðugu verið að farið. Og ég vil benda hæstv. forseta á það, að þó að margar ræður hafi verið haldnar, þá hefur yfirleitt ekki verið farið fram yfir þann ræðutíma, sem ætlað er, og sízt meira en vant er, og á engan veg að því leyti brotið gegn þingsköpum, svo að þess vegna held ég, að það sé ekki ástæða til þess fyrir hann að finna að þeirri aðferð, sem við stjórnarandstæðingar höfum haft í þessu máli.