30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (2822)

96. mál, útfærsla fiskveiðitakmarka

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Þegar fiskveiðitakmörkin voru færð út fyrir nokkrum árum, vakti það almennan fögnuð Íslendinga. Enda þótt sú ráðstöfun kæmi ekki öllum landsmönnum að jafnmiklu liði, var þó litið á hana sem hagsmunamál alþjóðar, ekki sízt þar sem augljóst var, að hún var fyrsta sporið í áttina að því yfirlýsta takmarki að friða allt landgrunnið umhverfis landið fyrir botnvörpuveiðum útlendinga.

Síðan friðunin var framkvæmd, hefur hún þegar haft mikil og heillarík áhrif á þeim slóðum, þar sem hennar gætir mest, en það er á Faxaflóa og Breiðafirði. Fyrir Vestfjörðum og Austurlandi og raunar einnig töluverðum hluta Norðurlands. má hins vegar segja, að fiskveiðitakmörkin færðust lítið út. Útgerð þeirra landshluta hefur því ekki notið aukinnar friðunar á heimamiðum. Það er og alkunna, að fyrir Vestfjörðum hefur útgerðin ekki aðeins farið á mis við aukna vernd fiskimiða sinna, heldur hefur rányrkjan á þeim slóðum margfaldazt. Þegar hinum stóru og fiskisælu flóum suðvestanlands var lokað fyrir botnvörpuveiðum, stórjókst ásókn togara, innlendra og erlendra, á miðin fyrir Vestfjörðum, sem einnig hafa lengstum verið ein beztu fiskimið landsins, bæði fyrir togara og vélbáta. Afleiðingar þessarar staðreyndar hafa orðið geigvænlegar fyrir bátasjómenn og útvegsmenn á Vestfjörðum. Afli þeirra hefur rýrnað stórkostlega, og veiðarfæri þeirra hafa svo mánuðum skipti verið í hers höndum. Svo rammt hefur kveðið að uppivöðslu og ágangi erlendra togara á þessum slóðum, að vestfirzkir bátasjómenn hafa ekki einu sinni verið óhultir um líf sitt fyrir þeim. Vélbátar hafa verið keyrðir niður og sjómenn farizt. Þegar fiskigöngur hafa komið á grunnmiðin, t.d. út af Ísafjarðardjúpi, þar sem langsamlega flestir bátar stunda veiðar, hafa togarar hópazt þangað og uppurið þær á skömmum tíma. Þegar á þetta er litið, sætir það vissulega engri furðu, þótt vestfirzkir sjómenn og útvegsmenn séu orðnir óþolinmóðir og langeygir eftir ráðstöfunum til frekari verndunar bjargræðisvegi þeirra. Mun gegna svipuðu máli um fólk í þeim landshlutum öðrum, sem þarfnast frekari friðunaraðgerða.

Þegar núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum 24. júlí s.l., var m.a. þannig komizt að orði í málefnayfirlýsingu hennar:

„Ríkisstjórnin leggur áherzlu á stækkun íslenzku landhelginnar og telur, að stækkun friðunarsvæðisins í kringum landið sé nú brýn nauðsyn vegna atvinnuöryggis landsmanna, og mun því beita sér fyrir framgangi þessa máls.“

Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurnir til hæstv. utanrrh. um það, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hyggist gera í þessu stóra máli og til efnda á fyrirheiti málefnasamningsins.

Í fyrsta lagi er um það spurt, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hyggist gera til frekari útfærslu fiskveiðitakmarkanna.

Í öðru lagi hvenær vænta megi slíkra ráðstafana.

Í þriðja lagi, hvort ríkisstj. telji ekki tímabært að gefa þingi og þjóð skýrslu um þær umræður, sem fram hafa farið á alþjóðavettvangi undanfarið um landhelgismál og yfirráðaréttinn yfir auðæfum hafsins.

Ég tel það skipta miklu máli, að hæstv. ríkisstj., sem sjálf hefur gefið fyrirheit um aðgerðir í þessum málum, svari þessum fsp. greinilega og veiti þjóðinni þannig upplýsingar, sem nauðsynlegt er að fram komi einmitt nú.