30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í D-deild Alþingistíðinda. (2823)

96. mál, útfærsla fiskveiðitakmarka

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf. hefur beint til mín þremur spurningum á þskj. 189. Tvær fyrstu spurningarnar eru um það, hvað ríkisstj. hyggist fyrir til frekari útfærslu fiskveiðitakmarkanna. Þriðja fsp. er hins vegar um það, hvort ríkisstj. telji ekki tímabært að gefa þingi og þjóð skýrslu um þær umræður, sem fram hafa farið á alþjóðavettvangi undanfarið um landhelgismál og yfirráðaréttinn yfir auðæfum hafsins.

Að því er varðar tvær fyrstu spurningarnar þykir mér rétt að taka þetta fram:

Samkv. lögum nr. 44 frá 5. apríl 1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, skal sjútvmrn. ákveða með reglugerð takmörk verndarsvæða við strendur landsins. Á grundvelli þessara laga gaf atvmrn. út reglugerð nr. 21 frá 19. marz 1952, um verndun fiskimiða umhverfis Ísland, þar sem fiskveiðitakmörkin við strendur Íslands voru ákveðin. Með hliðsjón af því, að lög mæla svo fyrir, að fiskveiðitakmörkin við Ísland skuli ákveðin í reglugerð útgefinni af hæstv. sjútvmrh., þá tel ég rétt, að fyrirspurnum um þetta efni sé beint til hans og svarað af honum. Og mun ég því leiða hjá mér að ræða tvær fyrstu fyrirspurnirnar.

Þriðja fsp. fjallar hins vegar um það, hvort ríkisstj. telji ekki tímabært að gefa þingi og þjóð skýrslu um þær umræður. sem farið hafa fram um landhelgismálið á alþjóðavettvangi. Þetta er atriði, sem utanrrn. ber að fjalla um og upplýsa.

Svo sem hv. Alþ. er kunnugt, vann þjóðréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna að því á s.l. ári að semja frv. að reglum, er gilda skyldu á hafinu. Nefndin hélt fundi sína í Sviss dagana 23. apríl til 4. júlí, og sat sendiherra Hans G. Andersen fundina sem fulltrúi Íslands. Að afloknum þessum fundum eða í s.l. ágústmánuði var öllum hv. alþm. send skýrsla og frásögn af störfum þjóðréttarnefndarinnar, og á hv. alþm. því að vera kunnugt um það í stórum dráttum, hvað þarna fór fram og að hvaða niðurstöðu var komizt.

Heildarskýrsla þjóðréttarnefndarinnar og frv. um reglur, er gilda skyldu á hafinu, var lagt fyrir þing Sameinuðu þjóðanna, er það kom saman í s.l. nóvembermánuði, eins og ráð hafði verið fyrir gert. Sjötta nefnd þingsins fékk þegar í stað málið til meðferðar. Umræður um málið hófust í sjöttu nefndinni hinn 29. nóv., og þeim lauk 20. des.. rétt þegar þingið var að fara í jólaleyfi. Við umræðurnar í sjöttu nefnd kom fljótlega í ljós, að fulltrúar margra þjóða töldu, að þar sem þjóðréttarnefndin hafði ekki séð sér fært að gera ákveðnar tillögur um víðáttu landhelginnar, væri málið ekki nægilega undirbúið, til þess að þingið gæti afgreitt það, væri því ekki um annað að ræða en fresta afgreiðslu málsins, og þar sem sérfræðiþekkingu þyrfti til á ýmsum sviðum, væri eðlilegra, að sérstök ráðstefna fjallaði um málið fremur en þeir lögfræðingar, sem sæti áttu í sjöttu nefndinni. Fulltrúar frá 22 ríkjum báru fram um það till. í nefndinni, að stofnað yrði til sérstakrar alþjóðaráðstefnu um málið, sem haldin yrði í Rómaborg og hefjast skyldi í marzmánuði 1958. Af hálfu Íslands var þessari meðferð málsins andmælt og áherzla lögð á, að sjötta nefndin legði til, að þing Sameinuðu þjóðanna sjálft fjallaði um málið, en vísaði því ekki til sérstakrar ráðstefnu. Leikar fóru þó svo, að hinn 20. des. var samþykkt í sjöttu nefndinni að leggja til við þing Sameinuðu þjóðanna, að þessi alþjóðaráðstefna yrði haldin.

Tillaga sjöttu nefndar hefur ekki enn hlotið afgreiðslu þings Sameinuðu þjóðanna og hefur ekki einu sinni komið þar til umræðu á fundum enn þá. Ég tel að vísu nokkuð augljóst, hvernig afgreiðsla tillögunnar verður, ef þinginu endist tími til að afgreiða hana, en á meðan málið bíður óafgreitt á þingi Sameinuðu þjóðanna og hefur alls ekki komið þar til umræðu, hef ég ekki talið rétt að hefja opinberar umræður um það, sem fram fór í sjöttu nefnd þingsins. Hins vegar er sjálfsagt, að gerðar séu ráðstafanir til þess, að þjóðin fái frásögn af meðferð málsins og afgreiðslu þess, þegar séð verður með vissu, hvernig hún endanlega verður, án ástæðulauss dráttar.