30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í D-deild Alþingistíðinda. (2827)

96. mál, útfærsla fiskveiðitakmarka

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. gat þess, að til stæði að efna hér til ráðstefnu með fulltrúum héraðanna innanlands um málið, áður en langt um liði.

Það væri fróðlegt fyrir þingheim að heyra, hverjir eigi að vera fulltrúar á þessari ráðstefnu og með hverjum hætti hún er valin.

Þá væri einnig mjög fróðlegt og er raunar allsendis nauðsynlegt fyrir þing og þjóð að fá vitneskju um það, hvernig núv. hæstv. ríkisstj. lítur á það, hver hafi úrslitaráðin í þessum málum, hvort það er hæstv. sjútvmrh. eða hæstv. utanrrh.

Ég spyr að þessu mjög að gefnu tilefni, þar sem hæstv. sjútvmrh. hefur látið það vera ómótmælt í því málgagni, sem hann styður sérstaklega, stuðningsblaði stærsta flokks hæstv. ríkisstj., Þjóðviljanum, að þær yfirlýsingar, sem hæstv. utanrrh. hefur gefið um þetta mál á alþjóðlegum vettvangi, séu hans einkamál, hans einkaskoðanir.

Slíkar yfirlýsingar geta ekki staðizt, nema því aðeins að hæstv. utanrrh. hafi farið út fyrir sitt verksvið í þessu efni. Þess vegna er það nauðsynlegt, bæði varðandi fortíðina, en ekki síður varðandi framtíðina, að við fáum alveg fullkomna vissu um það, hver innan hæstv. ríkisstj. hefur úrslitaákvörðunina, þannig að þegar hún kemur, þá sé það öruggt, að það sé ekki einkamál þess ráðherra, sem yfirlýsingu eða ákvörðun tekur, heldur sé það ákvörðun, sem stjórnskipulegt gildi hefur.

Eins er mikilsvert að fá vitneskju um, vegna þess að hæstv. sjútvmrh. vitnaði mjög til umræðna á þingi Sameinuðu þjóðanna, hvort hann hefur þar sérstakan trúnaðarmann sinn, er fylgist með málum og komi að þeim sjónarmiðum, sem hann alveg sérstaklega telur nauðsyn á að túlkuð séu, og ef svo er, hver þá sá trúnaðarmaður sé.

Allt eru þetta atriði, sem þarf að upplýsa, hvort sem hæstv. sjútvmrh. og hæstv. ríkisstj. vill gera það nú eða ekki, þannig að um það þurfi að bera fram sérstakar fyrirspurnir. Það þyrfti sjálfsagt að gera það, ef hæstv. ríkisstj. er ekki reiðubúin til svara þegar í stað.

Þá vildi ég mótmæla alveg sérstaklega tvennum fullyrðingum hæstv. sjútvmrh., sem hann veit sjálfur að eru algerlega rangar.

Önnur er síðari yfirlýsingin, sem hann gaf um það, að þeir menn, sem um þessi mál hefðu fjallað af hálfu Íslendinga að undanförnu, hefðu viljað og að því stefnt að binda hendur Íslendinga um þetta um margra ára bil. Þetta er algerlega tilhæfulaust varðandi fyrrv. ríkisstj., þá, sem ég átti sæti í. Ég veit, að hvorki hæstv. fyrrv. sjútvmrh., forsætisráðherra Ólafur Thors, né hæstv. fyrrv. utanrrh., dr. Kristinn Guðmundsson, hreyfði því nokkru sinni á ríkisstjórnarfundi, að slíkan samning ætti að gera. Og ef því var hreyft af hálfu viðsemjanda okkar, að æskilegt væri, að slíkur samningur væri gerður, þá var skýrt tekið fram, að íslenzka ríkisstjórnin mundi ekki á það fallast. Þetta liggur alveg ljóst fyrir í þeim skjölum, sem ríkisstj. hefur í sínum höndum, og mig stórlega furðar, að hæstv. ráðh. skuli gefa slíka yfirlýsingu hér í þingsölum þvert ofan í allar staðreyndir og gögn, sem hann hlýtur að hafa fullan aðgang að.

Þá lýsti hæstv. sjútvmrh. einnig yfir því, að við sjálfstæðismenn vildum fyrst og fremst láta afgreiða þetta mál á erlendum eða alþjóðlegum vettvangi. Þetta er algerlega rangt. Verkin sýna alveg öfugt. Það vorum við, sem beittum okkur fyrir þeirri stækkun, sem gerð var, og við höfum aldrei viljað eða talið koma til mála, að við afsöluðum okkur yfirráðarétti Íslands, sem fyrir hendi væri í þessu máli. Hitt höfum við sagt, alveg eins og hæstv. sjútvmrh. sagði í næstu setningu um sína skoðun, að það yrði að taka skynsamlegt tillit til þess, sem á alþjóðlegum vettvangi gerðist. Um þetta erum við algerlega sammála því, sem hæstv. ráðh. segir nú að sé sín skoðun, og eftir þessari reglu höfum við ætíð farið, því að ef ekki væri tekið skynsamlegt tillit til þess, hvernig málin standa hverju sinni á alþjóðlegum vettvangi, þá erum við í yfirvofandi hættu um, að það fáí ekki staðizt, sem við gerum. Þess vegna verðum við að miða okkar afstöðu við það, hvernig ástandið er í alþjóðamálum þetta varðandi á hverjum tíma, og sækja eins langt fram og fremst verður komizt hverju sinni. Og ég vil algerlega mótmæla því, að fyrrv. ríkisstj. eða ríkisstjórnir, síðan ég kom þar 1947, hafi nokkru sinni látið nokkuð undir höfuð leggjast til að fylgja þessu máli eftir. Þvert á móti var hafizt handa um það að fá stækkun landhelginnar. Henni var komið í gegn með einhliða yfirlýsingu og með þeim árangri, að nú, þegar ný ríkisstj. tekur við, hefur það fengizt, sem ótrúlegt virtist um skeið, að nást mundi, að Bretar hafa hreinlega gefizt upp á mótmælum sínum gegn þeirri stækkun, sem við á okkar tíma beittum okkur fyrir.