30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í D-deild Alþingistíðinda. (2830)

186. mál, framleiðsluhagur

Fyrirspyrjandi (Jón Pálmason):

Herra forseti. Það er kunnugt mál, að hæstv. núv. ríkisstj. fékk til starfa innlenda og erlenda sérfræðinga til þess að rannsaka hagkerfi okkar og gera tillögur um ráðstafanir til úrbóta á því, sem umbóta þyrfti við. Álitsgerðir þessara manna hafa ekki verið birtar Alþingi. hvað sem því veldur, að öðru leyti en því, að það hefur verið upplýst og einkum af hæstv. forsrh., bæði hér í þingi og í hans nýársræðu, að þessir sérfræðingar hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti að færa til framleiðslunnar hér á landi 500 millj. kr., en að öðru leyti hafa ekki verið gefnar upplýsingar um, á hvaða grundvelli sú tala er byggð.

Nú lít ég svo á, að þó að það sé þakklætisvert að fá upplýsingar um þessa tölu og betra en að fá engar upplýsingar um þetta stóra mál, þá sé þetta ekki gleggra en svo, að það samsvarar því, að við fengjum ekki aðrar upplýsingar um hag ríkissjóðsins heldur en það, að okkur væri sagt hér á Alþingi t.d. um fjármálin 1955, að gjöld ríkisins hefðu það ár orðið 700 milljónir, eins og okkur er kunnugt, án þess að það væri útskýrt, á hvaða grundvelli sú tala byggðist. Af þessum sökum hef ég leyft mér að bera hér fram fsp. í nokkrum liðum á þskj. 189 og vænti þess, að hæstv. ríkisstj. svari þeim atriðum, sem þar er spurt um, glögglega. Ég reikna með því sem sjálfsögðu, að það liggi fyrir hæstv. ríkisstj. glöggar upplýsingar um öll þau atriði, sem ég spyr hér um, svo að það sé næsta auðvelt fyrir hæstv. ráðh. að gefa upplýsingar um það, hvort hin umrædda tala, 500 milljónir, er byggð á þeim grundvelli, sem hér er vikið að.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þessa fyrirspurnarliði hér fyrir fram. Þeir liggja ljóst fyrir, og ég vil mega vænta þess að fá þeim svarað, annaðhvort með jái eða neii eða þá með þeim athugasemdum, sem við kunna að eiga, því að það er nauðsynlegt fyrir okkur þingmenn, sem þurfum um það að hugsa og það að athuga, hvernig bezt sé að ráða fram úr okkar fjármálavandræðum á komandi tíma, að fá sem gleggstar upplýsingar um þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið í því sambandi. Og náttúrlega væri það eðlilegast, að álitsgerðir þessara sérfræðinga ríkisstjórnarinnar væru birtar Alþingi alveg í heilu lagi. En úr því að þær eru nú ekki komnar, þá tel ég það nokkra bót í máli að fá glögg svör við þeim fsp., sem ég hef hér borið fram.