13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (2834)

186. mál, framleiðsluhagur

Fyrirspyrjandi (Jón Pálmason):

Fyrir hálfum mánuði var þessi fsp. tekin fyrir, og ég sagði um hana þá nokkur orð, en hæstv. ríkisstj. var ekki við því búin að svara henni. Ég skal þess vegna ekki fjölyrða mikið um þessar fsp. nú, en aðeins geta þess, að eins og menn vita, þá hafa verið fengnar álitsgerðir sérfræðinga um okkar framleiðsluhag, sem ekki hafa verið birtar, að öðru leyti en því, að hæstv. ríkisstj., aðallega hæstv. forsrh., hefur upplýst það, að þeir hafi talið, að það þyrfti 500 millj. til handa framleiðslunni, til þess að hún geti orðið rekin hallalaust.

Nú langar mig til að fá nokkru nánari upplýsingar um, á hvaða grundvelli þessi tala er byggð, og þess vegna eru þessir fyrirspurnarliðir hér bornir fram. Eins og gefur að skilja, er hér um að ræða okkar stærstu mál, stærstu mál þjóðarinnar, og nauðsynlegt fyrir okkur þingmenn að geta haft sem gleggstar upplýsingar um álit þeirra fjármálasérfræðinga, sem um þetta hafa fjallað.

Ég reikna nú með því, að það sem hér er beðið um að svara, liggi svo ljóst fyrir hjá hæstv. ríkisstj., að það sé mjög auðvelt fyrir hana að gefa um það ákveðin svör, og vænti þess, að svo megi verða.