27.02.1957
Sameinað þing: 40. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (2844)

104. mál, olía frá varnarliðinu

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Ég leyfi mér að þakka, herra forseti, hæstvirtum utanrrh. fyrir þá tilraun til að svara þessum fsp., sem honum hefur þóknazt að gera, en verð því miður að telja, að fsp. sé ekki fyllilega svarað á þann hátt, er hæstv. ráðh. gerði það.

Það er upplýst, að það er heimill aðgangur að því samkv. svari hæstv. ráðh., að Íslendingar fái allt að 15 þús. tonnum af svokallaðri fuel oil eða olíu til hagnýtingar handa togurum af birgðum varnarliðsins í Hvalfirði og að þessi olía eigi að greiðast á því kostnaðarverði, sem hún hefur kostað varnarliðið, komin á staðinn, þó að Íslendingar að sjálfsögðu flytji hana burt á sinn kostnað. En það er ekki nema hálft svar að svara svona, því að kostnaðarverðið liggur alls ekki fyrir. Þó að varnarliðið ætli ekki að taka fyrir hana meira verð en hún hefur kostað það, þá erum við jafnóráðnir í því að vita, hvað olían hefur kostað, þegar verðið er ekki nefnt. Ég vil leyfa mér að biðja hæstv. ráðh. eða mælast til þess af honum. að hann segi skýrt til þess, um hvaða kostnaðarverð er að ræða, ef til kemur, að Íslendingar eigi að greiða þessa olíu. Honum hlýtur að vera það ljóst, hvaða verð er á olíunni. Og þegar um það er rætt, að við eigum að greiða hana við kostnaðarverði, þá er ólíklegt, að það hafi ekki verið tekið fram. En það er einmitt það, sem hér liggur fyrir, að spurt er um: Hvaða verð í krónum talið verður á hverri smálest af þessari olíu?

Ég vænti, að hæstv. ráðh. hafi kynnt sér það, þegar hann gerði þessa samninga, og að það sé ekki allt á huldu, hvaða kostnaðarverð á að leggja þarna til grundvallar.